Löggilding sem endurskoðandi og réttur til að nota hugtakið endurskoðandi

 

Réttindi og skyldur endurskoðenda eru tryggð í lögum um endurskoðendur nr. 94/2019.

Í 4. tölul. 2. gr. laganna er að finna eftirfarandi skilgreiningu:

Endurskoðandi: Sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til að starfa við endurskoðun, er á endurskoðendaskrá, sbr. 5. gr., og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga þessara.“

Í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur fram að öðrum en endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum sé ekki heimilt að nota hugtökin endurskoðandi eða endurskoðun í starfs- eða firmaheiti sínu og að óheimilt sé að vekja þá trú að aðili, sem ekki hefur fengið löggildingu sem endurskoðandi eða er án gildra réttinda sé endurskoðandi með notkun starfsheitis, firmanafns eða með öððrum misvísandi hætti. Í greininni er tekið fram að ákvæðið nái þó ekki til starfsheitis innri endurskoðenda í fyrirtækjum, enda séu störf þeirra hluti af innra stjórnendaeftirliti viðkomandi fyrirtækis.

Endurskoðendaráð gefur út löggildingarskírteini til handa endurskoðendum og endurskoðunarfyrirtækjum, sbr. 5. gr. laganna.

Í 2. mgr. 6. gr. fyrrnefndra laga kemur fram að ef endurskoðendaráði berast upplýsingar um að einstaklingur, sem hefur ekki fengið löggildingu til endurskoðendastarfa, stundi eða gefi í skyn að hann stundi slíka starfsemi eða að endurskoðandi fullnægi ekki lengur lögmætum skilyrðum til löggildingar sem endurskoðandi en starfi þó áfram sem slíkur skuli endurskoðendaráð vekja athygli viðkomandi á brotinu og ef hann ekki bregst við skuli endurskoðendaráð taka brotið til viðeigandi meðferðar. Sama á við ef gefið er í skyn að fyrirtæki sem ekki er skráð í endurskoðendaskrá sé endurskoðunarfyrirtæki. 

Til að geta orðið löggiltur endurskoðandi þarf að uppfylla ýmis skilyrði (samanber 3. gr. laga nr. 94/2019 og umfjöllun á heimasíðu endurskoðendaráðs sem nálgast má hér) þar á meðal að standast próf, sjá nánar í reglugerð 595/2020 um próf til endurskoðunarstarfa.

Miklar kröfur eru gerðar til endurskoðenda um endurmenntun sbr. 9. gr. laga nr. 94/2019 og reglugerð 665/2020

Löggiltir endurskoðendur geta lagt inn réttindi sín ef þeir vilja, svo fremi sem mál viðkomandi er ekki til meðferðar hjá endurskoðendaráði. Sjá innlögn réttinda.

Endurskoðendaráð er eftirlitsaðili með löggiltum endurskoðendum.