Starfsábyrgðartryggingar
Samkvæmt lögum um endurskoðendur (nr. 94/2019 2. kafli gr. 8.) verður löggiltur endurskoðandi að hafa starfsábyrgðartryggingu til þess að fá og halda réttindum sínum. Það er nánar útlistað í 6. gr. laganna:
6. gr. Starfsábyrgðartrygging.
Endurskoðanda er skylt að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur [heimild til að veita þjónustu] 1) hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af … 2) gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans samkvæmt lögum þessum. Tryggingarskyldan fellur niður ef endurskoðandi leggur inn réttindi sín, sbr. 1. mgr. 11. gr.
Endurskoðendaráð setur reglur um lágmarksfjárhæð tryggingar skv. 1. mgr. og hámark eigin áhættu vátryggingartaka.
Endurskoðandi skal fyrir 15. janúar ár hvert senda endujrskoðendaráði staðfestingu þess að hann hafi í gildi starfsábyrgðartryggingu.
Flest ef ekki öll tryggingafélögin á Íslandi bjóða upp á tvenns konar tryggingu. Annars vegar fyrir þá sem starfa sem endurskoðendur og eru að árita ársreikninga og annað það sem er innan þeirra verksviðs. Hins vegar er trygging fyrir þá sem vilja halda í löggildinguna sína en eru ekki að árita. Þær tryggingar eru ódýrari - kosta að jafnaði þriðjung á við þær fyrrnefndu. Til þess að fá ódýrari iðgjöldin þurfa menn að staðfesta og undirrita skjal þar sem þeir lýsa yfir að þeir séu ekki starfandi endurskoðendur. Vernd trygginganna er sú sama þ.e. upphæð sem greidd er út vegna skaða sem endurskoðandi veldur verður sú sama ef í harðbakkan slær.
Félaginu barst í janúar 2017 minnisblað frá Endurskoðendaráði sem vakin er athygli á. Efni bréfsins gæti sérstaklega átt erindi til þeirra endurskoðendafyrirtækja sem eru í erlendu samstarfi og eru með starfsábyrgðatryggingu í gegnum slíkt samstarf, en þar kemur fram að hugsanlega sé hægt að nýta sér starfsábyrgðartryggingar móðurfélagsins hér heima. Vakin er athygli á því sem fram kemur í minnisblaðinu - að til að fá staðfestingu á því að erlent tryggingarfélag sé viðurkennt hér á landi þarf að afla upplýsinga um það hjá Fjármálaeftirlitinu.