NRF Norræna endurskoðendasambandið

Norræna endurskoðendasambandið (NRF) var stofnað árið 1931 og telst það vera elstu samtök endurskoðenda í heiminum. FLE varð aðili að sambandinu á árinu 1939. Um 16 þúsund endurskoðendur eiga aðild að félaginu í gegnum 7 aðildarfélög: Frá Danmörku (FRR og FSR), Finnland (HTM/GRM og KHT/CGR), Íslandi (FLE), Noregi (DnR) og Svíþjóð (FAR/SRS).

Meginhlutverk NRF er að vera sameiginlegur vettvangur aðildarfélaganna til að vinna að faglegri framþróun á sviði endurskoðunar og einnig að gera yfirvöldum og öðrum í löndunum grein fyrir samfélagslegu mikilvægi endurskoðendastarfsins. Til að styrkja stöðu norrænna endurskoðenda þá hefur NRF leitast við að koma fram sem einn aðili fyrir hönd þeirra á alþjóðavettvangi svo sem hjá Evrópusambandi endurskoðenda (FEE) og Alþjóðasambandi endurskoðenda (IFAC).

Framkvæmdastjóri NRF er Jens Röder en formenn félaganna skipta með sér að vera formenn í NRF. Árið 2013 er formaðurinn frá öðru finnska félaginu. Yfirleitt eru haldnir einn til tveir formannafundir á ári. Framkvæmdastjórar norrænu félaganna halda einnig reglulega símafundi til að ræða markverða atburði sem varða endurskoðendur í hverju landi fyrir sig.

Norræna endurskoðendasambandið (NRF) heldur aðalfund sinn árlega um miðjan ágúst. Fundinn sækja formenn, varaformenn og framkvæmdastjórar félaga endurskoðenda á Norðurlöndum en jafnframt er boðið gestum t.d. þeim sem sitja í stjórn eða nefndum IFAC og FEE sem gera þá grein fyrir störfum sínum og helstu áherslum sem framundan eru. NRF er stjórnað af forseta þess, kjörnum á aðalfundi til tveggja ára. Norræna endurskoðendasambandið (NRF) heldur ársþing/aðalfund í ágúst ár hvert og skiptast Norðurlöndin á að sjá um fundinn. Síðast var ársþingið haldið á Hótel Rangá á Íslandi þann 21. ágúst 2010 og verður því aftur haldið hér árið 2015. 
  
Á heimasíðu NRF http://www.nrfaccount.se/ er að finna helstu upplýsingar um Norræna endurskoðendasambandið og aðildarlönd þess, þátttöku NRF í alþjóðlegu samstarfi svo sem FEE og IFAC ásamt upplýsingum sem snerta starfsemi sambandsins. Einnig er þar að finna helstu fréttir frá Norðurlöndunum og jafnframt tengla til að komast beint inn á heimasíður allra félaga innan NRF sem og ýmsar aðrar áhugaverðar síður fyrir endurskoðendur. Heimasíðan er á ensku og er slóðin www.nrfaccount.se.

 

Til baka