„Tilgangi félagsins skal náð meðal annars með því að stuðla að fjölgun kvenna í endurskoðun, svo sem með því að gera konur í endurskoðunarstétt sýnilegri, svo til staðar sé fagleg fyrirmynd fyrir ungar konur í endurskoðunarstétt. Jafnframt með því að halda uppi umræðu um og standa vörð um málefni sem höfða sérstaklega til kvenna í stéttinni“.

20 ára afmæli

Félag kvenna í endurskoðun (FKE)
Sif Einarsdóttir og Margret Flóvenz, löggiltir endurskoðendur og stofnfélagar í Félagi kvenna í endurskoðun

Félag kvenna í endurskoðun, FKE, fagnar 20 ára afmæli sínu í ár, nánar tiltekið þann 23. nóvember 2024. Í því tilefni fól stjórn félagsins tveimur félagskonum að taka saman sögu félagsins og fara yfir þau gögn, myndir, minnispunkta, fundargerðir og ársreikninga sem liggja fyrir og varpa ljósi á tilgang og starfsemi félagsins frá stofnun þess. Það er alveg ljóst af þessari yfirferð að félagskonur hafa almennt notið samverunnar og eflt tengslanet sitt, en hver var tilurð félagsins og tilgangur í upphafi?

Stofnfundur FKE í Ráðhúsi Reykjavíkur

Í stofnsamþykktum félagsins kemur fram að tilgangur félagsins er að efla samstarf, efla tengsl og styrkja stöðu kvenna sem hlotið hafa löggildingu í endurskoðun á Íslandi. „Tilgangi félagsins skal náð meðal annars með því að stuðla að fjölgun kvenna í endurskoðun, svo sem með því að gera konur í endurskoðunarstétt sýnilegri, svo til staðar sé fagleg fyrirmynd fyrir ungar konur í endurskoðunarstétt. Jafnframt með því að halda uppi umræðu um og standa vörð um málefni sem höfða sérstaklega til kvenna í stéttinni“. „Félagsmenn geta orðið allar konur sem hafa hlotið löggildingu í endurskoðun“.

Fyrsti formaður FKE og síðar heiðursfélagi

Erna Bryndís Halldórsdóttir endurskoðandi (3.8.1951-17.6.2014) stóð fyrir því að stofna félagið þann 23. nóvember 2004. Stofnfundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur í fundarherbergi á efri hæð sem snýr út að Tjörninni en á þessum tíma starfaði Anna Skúladóttir endurskoðandi, sem var ein af stofnfélögunum, í Ráðhúsinu. Það var hátíðleg og góð stemning á stofnfundinum þar sem stofnfélagskonur fögnuðu saman. Keypt hafði verið forláta fundargerðarbók sem enn er til og er varðveitt á skrifstofu Félags löggiltra endurskoðenda. Erna Bryndís mælti nokkur orð og sagðist lengi hafa gengið með þennan draum í maganum, að stofna félag fyrir konur í endurskoðun, ekki til að koma í staðinn fyrir Félag löggiltra endurskoðenda þar sem konurnar voru allar félagar heldur til að styðja við og efla konur í stéttinni. Á stofnfundinum voru 16 konur og voru flestar á aldrinum 30-50 ára. Næstu mánuði bættust við 30 konur sem létu skrá sig í fundargerðarbókina sem félagsmenn og voru því alls 46 konur í félaginu í janúar 2006.

Stjórnarfundir

Fyrsta stjórn félagsins samanstóð af þeim Ernu Bryndísi Halldórsdóttur formanni og meðstjórnendum Önnu Þórðardóttur og Sif Einarsdóttur. Í anda þeirrar tækni sem var aðgengileg á þessum tíma var haft samband við félagskonur með því að senda þeim tölvupóst og hvetja til þátttöku en formaðurinn færði nöfn félagskvenna handskrifuð inn í stofnskrána. Áherslurnar voru í anda stofnsamþykktanna að halda ráðstefnu þar sem dagskráin miðaði að því að hvetja ráðstefnukonur til dáða í starfi og stuðla að góðum samskiptum á milli þeirra. Á fyrsta stjórnarfundi þessa nýja félags þann 29. desember 2004 var ákveðið að hafa samband við formenn félaga kvenlögmanna, -lækna og -verkfræðinga með samstarf í huga. Á fundinum var einnig bókað að það sé „umhugsunarefni hversu lágt hlutfall þeirra sem ná löggildingarprófunum séu kvenkyns, þrátt fyrir að stúlkur séu um eða yfir meðaltali endurskoðunarnema í stærri endurskoðunarfyrirtækjunum“.

Fyrstu árin voru stjórnarfundir haldnir í hádeginu í Safnahúsinu þar sem hægt var að kaupa súpu og brauð. Stjórnarfundirnir voru opnir og gátu aðrar félagskonur mætt og tekið þátt í starfinu sem óformlegir þátttakendur, en þátttaka almennra félagskvenna hefur frá upphafi verið eitt aðalsmerki félagsins.

Samstarf við önnur fagfélög kvenna

Samstarf við önnur fagfélög kvenna var áberandi fyrstu árin, lögmanna, lækna og verkfræðinga. Sett var á fót samstarfsverkefni þessara félaga um að stuðla að fjölgun kvenna í stjórnum skráðra félaga og lífeyrissjóða. Safnað var gögnum og haldinn blaðamannafundur í febrúar 2005 þar sem upplýst var að aðeins 5% stjórnarmanna í skráðum félögum og 19% í lífeyrissjóðum væru konur. Það var ekki látið þar við sitja heldur voru formönnum allra skráðra félaga í kauphöll og formönnum flestra stéttarfélaga, samtaka atvinnulífs og iðnaðar og fleirum sent bréf þar sem þeir voru hvattir til að stuðla að fjölgun kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum. Í framhaldi af því var hringt í marga þessara formanna og fundað með sumum, þar sem hvatning var ítrekuð. Sjá má á fundargerðum að í framhaldinu var rætt um kynjakvóta í stjórnum og voru þá skiptar skoðanir.

Auk alvarlegri málefna var stundum slegið á léttari strengi í þessu samstarfi og fóru félagskonur í nokkur ár árlega í keilu með félagi kvenna í lögmennsku og kepptu við þær í keiluspili.

Félagsstarfið

Nokkrum árum seinna komst á sú hefð að halda haustgrill fyrir félagskonur. Í mörg ár var haustgrillið haldið í heimahúsi hjá félagskonum sjálfum þar sem þær ásamt sínum betri helmingum sáu um að grilla ofan í félagskonur. Félagsgjöldum hefur alltaf síðan verið stillt í hóf og miðast þau við að duga að minnsta kosti fyrir mat og drykk í haustgrilli félagskvenna. Á aðalfundi í október 2011 var Erna Bryndís Halldórsdóttir kjörin fyrsti heiðursfélagi FKE og er enn sem komið er eini heiðursfélaginn. Hefð er fyrir því að bjóða konur sem eru nýir löggiltir endurskoðendur velkomnar í félagið á næsta aðalfundi á eftir með kynningu og blómvendi.

Hin síðustu ár eru virkar félagskonur um 80 talsins og hefur Fésbókin hjálpað félagskonum að auglýsa viðburði og stuðla að upplýsingaflæði og góðri þátttöku í félagsstarfinu. Komist hafa á nýjar hefðir hjá félaginu og er ljóst að félagið hefur breytt talsvert áherslum sínum frá upphafi. Starfsemin er nú fyrst og fremst félagsleg samvera félagskvenna með góðu fræðsluívafi. Áberandi er að fyrirlestrar þeirra sem fengnir eru til að miðla þekkingu á félagsfundum eru á sviði sjálfstyrkingar og heilsu, sem er í anda áherslna samtímans. Árið 2018 var komið á þeirri árlegu hefð að halda hugarflug félagskvenna á haustin til að safna góðum hugmyndum fyrir félagsstarf vetrarins. Hugarflugsfundir félagskvenna hafa oft verið frekar fámennir og góðmennir en í þeim anda að félagsstarfið verði ekki aðeins borið uppi af stjórn félagsins á hverjum tíma heldur fái allar félagskonur kost á að vera með og hafa áhrif. Í heimsókn FKE á Bessastaði árið 2019, sem var mjög eftirminnileg, var tekin glæsileg hópmynd af félagskonum. Heimsóknin á Bessastaði setti tóninn fyrir álíka heimsóknir sem hafa verið farnar síðan á Alþingi Íslendinga, í Nasdaq Iceland - Kauphöll, í Menningar- og viðskiptaráðuneytið og nú síðast til Skattsins í Reykjavík. Á nýliðnu ári var vetrardagskráin: Gönguferð félagskvenna á Úlfarsfell í júní, árlegt haustgrill FKE í september, heimsókn í Menningar- og viðskiptaráðuneytið í nóvember, fyrirlesturinn Konur fjárfestum í mars og aðalfundur félagsins með mat og drykk í maí 2024.

Hluti af félagsstarfinu hefur verið að halda veglega upp á afmæli félagsins á 5-10 ára fresti og að þessu sinni munu félagskonur fjölmenna út úr bænum á 20 ára afmælisdegi félagsins með glæsilega fræðslu- og skemmtidagskrá. Mjög góð þátttaka er á afmælishátíðinni og mikil tilhlökkun í hópnum. Mikil og góð vinna hefur farið í undirbúning hjá stjórn FKE og kunna félagskonur þeim miklar þakkir fyrir.

Formenn FKE frá upphafi til dagsins í dag

Nauðsynlegt er að halda vel upp á sögu félagsins og ekki síst stjórnir þess frá stofnun. Í lok þessa pistils um sögu Félags kvenna í endurskoðun birtum við lista yfir formenn stjórna FKE frá upphafi til dagsins í dag, sem er eftirfarandi:

Erna Bryndís Halldórsdóttir 2004 -2006

Anna Skúladóttir 2006 - 2007

Anna Þórðardóttir 2007 - 2009

Ingunn Hauksdóttir 2009 - 2011

Hanna Björg Hauksdóttir 2011 – 2013

Signý Magnúsdóttir 2013-2016

Harpa Vífilsdóttir 2016 - 2017

Sif Einarsdóttir 2017 – 2020

Íris Ólafsdóttir 2020-2021

Sara Henný H. Arnbjörnsdóttir 2021-2023

Sigríður Katrín Kristbjörnsdóttir 2023- í dag

FLE
22.11.2024