Alþjóðleg skattamál
Höfundur hefur áður á þessum vettvangi fjallað um svokallað BEPS-verkefni sem er unnið á vegum OECD. Nú hillir undir lok þess og fljótlega munum við fara að sjá breytingar á skattalögum einstakra landa, breytingar á tvísköttunarsamningum og leiðbeiningum OECD.
Þótt BEPS sé á forræði OECD eru það svokölluð G-20-lönd sem standa að baki verkefninu sem hefur verið lýst sem umfangsmestu og flóknustu skattalaga-breytingu sem nokkurn tíma hefur verið ráðist í. BEPS stendur fyrir „Base Erosion and Profit Shifting“ og markmiðið er að loka ýmsum leiðum sem alþjóðleg fyrirtæki hafa notað til að lágmarka skattgreiðslur sínar. Sumar þessara leiða, jafnvel þótt löglegar séu, hafa þótt á mörkum þess sem kalla mætti siðlegt. Markmiðið með vinnunni er líka að tryggja að tekjur skattleggist í þeim löndum þar vinnan sem verðmæta-sköpunin byggist á fer fram. Þetta markmið er ekki síst til að tryggja hagsmuni vanþróaðri landa þar sem ódýrt vinnuafl hefur laðað að alþjóðleg fyrirtæki sem oft á tíðum hafa greitt takmarkaða skatta í viðkomandi landi.
Í upphafi heyrðust háværar efasemdaraddir um verk-efnið og margir sem héldu því fram að ómögulegt yrði að ná fram sameiginlegri niðurstöðu. Nú bendir hins vegar flest til þess að samstaða hafi náðst og gera megi ráð fyrir verulegum breytingum. Hinn umfangsmikli BEPS-pakki inniheldur tillögur á 15 mismunandi sviðum. Eins og áður segir er vinnan langt komin en áformað er að síðustu tillögurnar líti dagsins ljós síðar í þessum mánuði og verði til umfjöllunar á fundi G-20-landanna í nóvember. Sumar tillögurnar hafa þegar verið samþykktar svo sem varðandi „country by country reporting“ en um er að ræða skýrslur sem stærstu fyrirtækin (á samstæðugrunni) munu þurfa að vinna þar sem gerð er grein fyrir ýmsum þáttum í rekstri, tekjum og skattgreiðslum og greina þetta eftir þeim löndum þar sem fyrirtækin starfa. Skýrslunum þurfa fyrirtækin að skila til skattyfirvalda í heimalandi móðurfélagsins sem aftur munu miðla upplýsingum til skattyfirvalda í öðrum löndum þar sem fyrirtækin starfa. Gera má ráð fyrir talsverðum breytingum á tvísköttunarsamningum. T.d. má gera ráð fyrir að minna muni þurfa til svo álitið verði að fyrirtækin teljist orðin skattskyld í öðru landi í gegnum svokallaða fasta starfsstöð (útibú). Einnig er til umræðu að innleiða bindandi gerðardóma til að leysa úr ágreiningi í tvísköttunartilvikum.
Mat OECD er að það sé nær ógjörningur að ná fram nauðsynlegum breytingum með því að hvert og eitt ríki semji að nýju við öll þau lönd sem þau hafa þegar samið við, enda gildandi tvísköttunarsamningar fleiri en 3.000. Því er gert ráð fyrir að breytingar á tvísköttunarsamningum verði gerðar með fjölþjóðlegum samningum sem einstök lönd gerast aðilar að og með því breytast innbyrðis samningar landanna. Hvort Ísland muni fara þessa leið liggur ekki fyrir. OECD mun einnig koma með tillögur að reglum sem æskilegt er að verði innleiddar í innanlandslög-gjöf aðildarríkjanna s.s. varðandi skattlagningu vegna eignarhalds á lágskattasvæðum og reglur um frádráttarbærni vaxtagjalda en þar mun OECD væntanlega leggja til að miða við tiltekið hlutfall af EBITDA.
Segja má að milliverðlagningarreglur séu þungamiðja í vinnu OECD. Margir fylgjast grannt með þeirri umræðu enda munu allar breytingar OECD á leiðbeinandi reglum sínum á þessu sviði hafa bein áhrif á innanlandslöggjöf margra landa. Reyndar var gerð sú breyting á milliverðlagningarákvæðum íslensku tekjuskattslaganna á síðasta þingi að felld var út úr lagatextanum tilvísun til milliverðlagningar-reglna OECD en hins vegar segir í greinargerð frum-varpsins að leiðbeiningarreglur OECD verði eftir sem áður mikilvæg heimild við beitingu milliverðlagningarreglna á Íslandi.
Síðustu upplýsingar um framgang vinnunnar eru þær að tillögur hafi verið útvatnaðar og ýmsum flóknari álitaefnum slegið á frest. Því má gera ráð fyrir að tillögurnar sem kynntar verða í lok þessa mánaðar verði ekki eins róttækar og menn fyrirfram gerðu ráð fyrir. Þess er þó að vænta að svokallaðri raunveruleikareglu verði gefið meira vægi þ.e. að það sé hin raunverulega starfsemi sem ráði, þ.e. hvar er vinnan unnin, hvar liggur ábyrgðin í raun, en ekki hvað segir í samningum sem aðilar hafa undirritað.
Þegar G-20-löndin hafa tekið afstöðu til tillagna OECD í nóvember næstkomandi má gera ráð fyrir að við förum að sjá breytingar á innanlandslöggjöf, tvísköttunarsamningum og leiðbeinandi reglum OECD. Enn sem komið er hefur lítið heyrst frá íslenskum stjórnvöldum um áhrif BEPS hér á landi en það væri mikil skammsýni að gera ráð fyrir að tillögur OECD muni ekki líka leiða til breytinga hér á landi.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 24. september 2015 bls. 12.