Ársreikningar fjármálafyrirtækja
Þann 22. febrúar 2008 var Northern Rock viðskiptabankinn tekinn yfir af breska ríkinu og markaði sá viðburður upphaf hrinu falls fjármála- fyrirtækja í Evrópu og í Bandaríkjunum. Á næstu þremur og hálfu ári má telja 35 stórar fjármála-stofnanir sem urðu alþjóðlegu fjármálakrísunni að bráð í þessum heimsálfum og eru þá ótalin ótal smærri fjármálafyrirtæki sem fóru sömu leið. Ekki þarf að tíunda hlutskipti okkar í Íslendinga í þessu. Á listanum yfir þessar 35 fjármálastofnanir eru fjórar íslenskar, viðskiptabankarnir þrír og Straumur fjárfestingarbanki.
Aðkoma endurskoðenda að framsetningu og gerð ársreikninga er nokkuð skýr. Það er á ábyrgð stjórnenda að setja fram ársreikning í samræmi við þær reikningsskilareglur sem um viðkomandi fyrirtæki gildir. Það er síðan endurskoðandans að gefa álit sitt á því hvort umrædd reikningsskil séu í samræmi við reikningsskilareglur í öllum megin- atriðum og gefi glögga mynd af rekstri og efnahag.
Nokkuð samdóma álit er um að endurskoðendum geti ekki verið um að kenna fall fjármálafyrirtækja í fjármálakrísunni. Hins vegar hafa margir velt fyrir sér hvort endurskoðendur hafi ekki búið yfir umtals- verðum upplýsingum um stöðu þessara fyrirtækja sem hefðu verið gagnlegar greiningaraðilum á markaði en komu ekki fyrir þeirra sjónir, þar sem endurskoðendur greina fyrst og fremst stjórn, endurskoðunarnefnd og eftir atvikum eftirlitsaðilum frá slíkum upplýsingum. Endurskoðendum hefur því verið líkt við varðhundinn sem gelti ekki.
Til að mæta þessari gagnrýni hafa verið settar fram tillögur um nýjar áritanir á ársreikninga skráðra félaga. Áritanir endurskoðenda eru staðlaðar og hafa verið svo til óbreyttar í um 70 ár. Þær innihalda nokkrar málsgreinar um ábyrgð og hlutverk endurskoðenda annars vegar og stjórnenda hins vegar, greina í stuttu máli frá vinnu endurskoðandans og enda síðan með áliti á ársreikninginn. Þrátt fyrir að orðin séu fá eru þau gildishlaðin því fyrirvaralaus áritun hefur tiltekna merkingu sem lesandi reikningsskilanna þekkir og treystir.
Nú hefur verið lagt til að hverfa skuli frá stöðluðum áritunum og endurskoðandanum verður gert skylt að greina í áritun nánar frá vinnu sinni. Þannig skal hann greina frá helstu lykilþáttum í endurskoðuninni (e. key audit matters), hvaða liðir reikningsskilanna eru viðkvæmastir fyrir skekkjum og með hvaða hætti endurskoðandinn mætti þeirri áhættu. Ættu þessar reglur að verða samþykktar á komandi ári.
Í kjölfar alþjóðlegu fjármálakrísunnar fóru að heyrast háværar gagnrýnisraddir um að reglur um virðisrýrnun útlána fjármálafyrirtækja sem finna má í reikningsskilastaðli IAS 39 hafi hreinlega ekki virkað sem skyldi. Ástæðan er sú að reglur um virðisrýrnun útlána í staðlinum eru settar til að koma í veg fyrir að afskriftarsjóður útlána sé notaður til jöfnunar hagnaðar (e. earnings smoothing), þ.e. að framlag í afskriftarsjóð er ríflegt þegar vel árar en minna þegar illa árar. Með þessu móti er hægt að minnka sveiflur í afkomu sem þykir álitlegt í augum fjárfesta. Í virðis rýrnunarmódeli IAS 39 er því óheimilt að færa niður eignir nema fyrir liggi vísbendingar um virðisrýrnun og skal vænt tap útlánasafna byggjast á sögulegu tapi.
Fyrr á þessu ári var staðall IFRS 9 fullkláraður og mun hann leysa IAS 39 í heild sinni með gildistöku þann 1. janúar 2018. Í IFRS 9 er stuðst við breytt virðisrýrnunarmódel þar sem byggja skal frekar á eigin væntingum um framtíðartap. Einnig munu öll útlán taka á sig almenna niðurfærslu. Mun því innleiðing IFRS 9 hafa umtalsverð áhrif á reikningsskil fjármálafyrirtækja.
Umhverfi reikningsskila og endurskoðunar er síbreytilegt og ætlun þessara breytinga er að berja í þá bresti sem kunna hafa verið fyrir hendi og svara þeirri gagnrýni sem uppi hefur verið á reikningsskil og framkvæmd endurskoðunar. Seint segja sumir, en betra er seint en aldrei.