Aukið gagnsæi í áritun
Áritun endurskoðanda á endurskoðuð reiknings-skil hefur verið óbreytt í mörg ár. Áritunin er með stöðluðu orðalagi sem er eins fyrir öll félög ef um hreina áritun er að ræða. Markmiðið með því á sínum tíma var að lesendur þyrftu ekki að velkjast í vafa um hver niðurstaða endurskoðunar væri og að þeir gætu á auðveldan hátt borið saman áritun fyrir hin ýmsu félög, en áritunin er eina afurðin frá endurskoðendum sem fjárfestar og aðrir ytri hagsmunaaðilar sjá er varðar niðurstöður úr endurskoðun fyrirtækja. Nú horfir til breytinga í þessum efnum og hafa hagsmunaaðilar kallað eftir því að fá að vita meira um vinnu endurskoðandans, m.a. hverjir voru metnir helstu áhættuþættir og hvernig var á þeim tekið. Fjárfestar og aðrir hagsmunaðilar hafa kallað eftir meiri og viðeigandi upplýsingum um niðurstöður endurskoðunar þar sem þessir aðilar hafa ekki aðgang að sömu upplýsingum og stjórn og stjórnendur félagsins.
Eftirspurn eftir betri upplýsingagjöf í áritun endurskoðanda hefur nú verið svarað en nýir alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar um áritanir hafa verið kynntir og eru miklar breytingar framundan á áritun endurskoðanda. Breytingarnar verða þó mismiklar eftir stærð og gerð fyrirtækja en mesta breytingin verður á áritun endurskoðanda hjá skráðum fyrirtækjum. Breytingarnar taka gildi fyrir öll endurskoðuð reikningsskil þar sem reikningsárið endar 15. desember 2016 eða seinna. Það skal þó tekið fram að þrátt fyrir breytingar á áritun endurskoðanda mun eðli og umfang endurskoðunarinnar ekki breytast.
Öll uppröðun á áritun endurskoðanda mun breytast en árituninni hefur verið snúið á haus frá því sem áður var þar sem álit endurskoðanda verður nú efst á blaði. Endurskoðandanum verður nú gert að lýsa yfir óhæði sínu gagnvart félaginu í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem og að hann uppfylli viðeigandi siðareglur endurskoðenda.
Kafli um ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra verður ítarlegri þar sem bætist við umfjöllun um ábyrgð
þessara aðila á að meta rekstrarhæfi félagsins til næsta árs sem og yfirlýsing um ábyrgð þeirra á ferli um lokun bókhalds.
Kafli um ábyrgð endurskoðanda mun einnig verða töluvert umfangsmeiri og mun fela í sér mun ítarlegri umfjöllun um ábyrgð endurskoðandans en þessi viðbót við kaflann er í takt við eftirspurn markaðarins.
Stærsta breytingin á áritun endurskoðanda verður í endurskoðunaráritun skráðra félaga en fyrir þau félög þarf að vera umfjöllun um mikilvægustu málin sem komu upp í endurskoðuninni (e. key audit matters). Tilgangurinn með því að upplýsa um mikilvæg mál í áritun endurskoðanda er að auka gagnsæi þeirrar endurskoðunar sem framkvæmd var og mun áritun endurskoðanda nú verða mismunandi eftir fyrir-tækjum enda mismunandi hvaða mál koma upp hverju sinni. Umfjöllun um þessi mikilvægu mál, sem nú verða hluti af áritun endurskoðanda hjá skráðum félögum, veitir viðbótarupplýsingar fyrir notendur reikningsskilanna og aðstoðar þá við að skilja betur þau mál sem voru efst á baugi við framkvæmd endurskoðunar félagsins. Í þessum kafla kemur endurskoðandinn á framfæri upplýsingum um af hverju málið var talið vera mikilvægt og hvernig endurskoðandinn framkvæmdi endurskoðunina til að mæta þeirri auknu áhættu sem tengdist liðnum. Þrátt fyrir að áritun endurskoðanda muni fela í sér ítarlegri upplýsingar um mikilvæg málefni koma þær upplýsingar ekki í staðinn fyrir viðeigandi skýringar í ársreikningi félagsins en endurskoðandanum ber í áritun sinni að vísa í viðeigandi skýringar þar sem frekari umfjöllun er um hvert og eitt mál.
Við hjá EY teljum þessi breyting sé skref í rétta átt og að hin nýja áritun mun auka gildi og virði lykilafurðar í endurskoðun skráðra félaga auk þess sem gagnsæi endurskoðunar og niðurstöðu hennar mun aukast. Hin nýja áritun mun einnig gera þá kröfu til lesandans að hann rýni enn frekar en áður í áritunina og þá þætti sem þar koma fram. Fyrir áhugasama þá bendum við á þennan tengil
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 22. október 2015 bls. 12.