Ávinningur hins opinbera af upptöku reikningsskila byggðra á hreinum rekstrargrunni getur orðið verulegur.

Bætt reikningsskil opinberra aðila

Guðmundur Snorrason löggiltur endurskoðandi og partner hjá PwC

Síaukin alþjóðleg viðskipti hafa kallað á samræmingu reikningsskilareglna á heimsvísu en afar mikilvægt er að fjárfestar og aðrir notendur reikningsskila, hvar sem er í heiminum, geti treyst því að fjárhagsupplýsingar sem þeir reiða sig á séu byggðar á sama grundvelli. Samræming á þessu sviði kemur meðal annars fram í alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem gefnir hafa verið út en lagasetning í einstökum ríkjum um reikningsskil byggist í meginatriðum á þessum stöðlum. Þessi samræming reikningsskilareglna hefur þó mun síður náð til opinberra aðila en einkafyrirtækja þrátt fyrir þau miklu umsvif sem opinberir aðilar hafa í efnahagslífi flestra þjóða. Í ljósi þess hve skuldabréf útgefin af opinberum aðilum spila orðið stórt hlutverk á fjármálamörkuðum heimsins er ekki að furða þótt vaxandi krafa sé um að fjárhags-upplýsingar opinberra aðila séu ekki síður gagnsæjar og áreiðanlegar en hjá einkageiranum.

Könnun sem PwC gerði meðal 100 landa á síðasta ári sýnir að stjórnvöld víða um heim eru mörg hver að taka stór skref til að bæta reikningsskil sín og auka gagnsæi. Umrædd könnun leiddi í ljós að meðal þeirra 100 landa sem könnunin náði til eru aðeins 26% ríkja sem byggja reikningsskil sín á hreinum rekstrargrunni en það þykir almennt ákjósanlegasti grundvöllur til að byggja reikningsskil á. Samkvæmt sömu könnun hyggjast 37% þessara ríkja færa sig yfir í reikningsskil byggð á hreinum rekstrargrunni innan fimm ára. Meirihluti ríkja heims byggir reikningsskil sín á greiðslugrunni en það er sú meginaðferð sem opinberir aðilar hafa almennt notast við til langs tíma. Reikningsskil á greiðslugrunni byggjast á því að færa inn- og útborganir í bókhald þegar þær eiga sér stað. Gallinn við þessa aðferð er sá að þá koma ekki fram nema takmarkaðar upplýsingar um eignir og skuldir og því gefa reikningsskilin aðeins mynd af fjárhagsstöðunni til afar skamms tíma. Algengt er að opinberir aðilar byggi reikningsskil sín að hluta til á hreinum rekstrargrunni og að hluta á greiðslugrunni. Þá er samanburður á reikningsskilum opinberra aðila milli landa ekki alltaf marktækur þótt þau eigi að byggja á sama grundvelli að nafninu til þar sem reglur um reikningsskil eru oft á tíðum útfærðar og þeim beitt á mismunandi hátt.

Til að bæta úr þessu misræmi hefur verið gefinn út alþjóðlegur staðall um reikningsskil hins opinbera, IPSAS (International Public Sector Accounting Standard), þar sem settar eru fram samræmdar og ítarlegar reglur um reikningsskil sem eiga að henta opinberum aðilum, ríki og sveitarfélögum.

Ísland var meðal þeirra ríkja sem tóku þátt í könnun PwC en reikningsskil íslenska ríkisins byggjast átakmörkuðum rekstrargrunni, í samræmi við íslensk lög og íslenskar reikningsskilavenjur. Reikningsskila-venjur íslenska ríkisins víkja til dæmis frá hreinum rekstrargrunni hvað varðar meðferð varanlegra rekstrarfjármuna. Samkvæmt íslenskum reikningsskilavenjum er stofnkostnaður slíkra eigna gjaldfærður strax og hann verður til en ekki eign-færður og afskrifaður á áætluðum endingartíma eignanna eins og reikningsskil á hreinum rekstrargrunni gera ráð fyrir. Áfallinn gengismunur og verðbætur á langtímalán/-kröfur er ekki færður í rekstrarreikning heldur á eigið fé. Sama á við um reiknaða hækkun á lífeyrisskuldbindingum vegna launabreytinga hjá opinberum starfsmönnum. Þá hefur áfallið orlof ekki verið fært til skuldar í ríkisreikningi eins og tíðkast í reikningsskilum einkaaðila.

Nýlega mælti fjármálaráðherra fyrir frumvarpi á Alþingi um opinber fjármál en samkvæmt því er ráðgert að ríkissjóður Íslands muni frá og með árinu 2017 byggja reikningsskil sín á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IPSAS). Með því að byggja reikningsskil sín á hreinum rekstrargrunni undirstrika stjórnvöld skyldu sína til að ná fram meira gagnsæi og áreiðanleika í upplýsingagjöf og leggja þannig grunn að betri ákvarðanatöku sem ætti að leiða til betri nýtingar á skattfé borgaranna.

Rannsóknir hafa sýnt að því meira gagnsæi sem ríki viðhafa, því betra lánshæfismat fá þau, þau sýna meiri aga í fjármálum hins opinbera og njóta fyrir bragðið lægri lántökukostnaðar. Ávinningur hins opinbera af upptöku reikningsskila byggðra á hreinum rekstrargrunni getur orðið verulegur þegar til framtíðar er horft. 

 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 13. nóv. 2014 bls. 12.
13.11.2014