BEPS – skattstofnarýrnun og tilfærsla hagnaðar
Að undanförnu hefur verið hávær umræða um skattamál einstaklinga og fyrirtækja, sem kalla má alþjóðleg skattamál, þ.e. þegar reynir á skattlagningarvald fleiri en eins ríkis.
Hvað einstaklingana varðar þá hefur umræðan aðallega tengst upplýsingum um notkun á svo-kölluðum skattaskjólum og grunsemdum um að einstaklingar hafi komið þar fyrir eignum án þess að gera skattyfirvöldum í heimalandi sínu grein fyrir þeim eða tekjum sem frá þeim stafa. Hér á landi var mikil umræða um þessi mál í upphafi þessa árs og snerist hún ekki síst um réttmæti þess að íslensk stjórnvöld greiddu fyrir aðgang að upplýsingum. Þau mál munu enn vera til skoðunar hjá þar til bærum yfirvöldum.
Erlendis hefur sambærileg umræða átt sér stað en umfjöllun um skattamál fyrirtækja hefur þó verið meiri þar og þá gjarnan snúist um það hvernig stór alþjóðleg fyrirtæki geti hagað skattamálum sínum þannig að skattgreiðslur þeirra verða mjög lágar, lægri en margur telur ásættanlegt. Í flestum tilvikum er þó um fullkomlega löglega skipulagningu að ræða hjá fyrirtækjum sem hafa svigrúm til að skipuleggja starfsemi sína þannig að sem allra mest skattalegt hagræði náist. Í einföldu máli má segja að fyrirtækin nýti mismunandi löggjöf einstakra ríkja á sviði skatta- og félagaréttar, samspil tvísköttunarsamninga, samspil tvísköttunarsamninga og landsréttar, reglur um skattaívilnanir, o.fl. Í raun má segja að þetta sé afleiðing þess að löggjöf í einstökum löndum hefur ekki náð að þróast í takt við þróun alþjóðavæðingar fyrirtækja og alþjóðaviðskipta, nú síðast með tilkomu rafrænna viðskipta.
Á vettvangi Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, eru menn meðvitaðir um þetta og þar á bæ er unnið að metnaðarfullu verkefni sem á ensku er kallað BEPS og stendur fyrir „Base erosion and profit shifting“. Á íslensku mætti útleggja þetta sem „skattstofnarýrnun og tilfærsla hagnaðar“ sem er ágætlega lýsandi fyrir vandamálið, þ.e. þegar fyrirtæki, innan ramma laga og reglna, færa til tekjur og skattstofna frá einu landi til annars og þá gjarnan frá háskattasvæði til lágskattasvæða. BEPS-verkefnið er ekki síst mikilvægt fyrir þróunarlönd þar sem vægi tekjuskatta fyrirtækja er meira en í þróaðri ríkjum þar sem vægi neysluskatta- og annarra óbeinna skatta er meira.
BEPS-verkefninu var hleypt af stokkunum í júlí 2013. Skilgreindir voru 15 meginþættir sem finna þarf lausnir á sem síðan þarf að innleiða í landsrétt aðildarríkjanna, þ.m.t. Íslands. Sem dæmi um þessa þætti eru reglur um skattlagningu rafræna hagkerfisins, nýjar og endurbættar reglur um milliverðlagningu og fasta starfsstöð, misnotkun tvísköttunarsamninga, o.fl.Eins og áður segir er áætlunin metnaðarfull, ekki aðeins varðandi það að ætla að finna lausn á þessum
flóknu viðfangsefnum heldur ekki síður vegna þess stutta tíma sem menn gefa sér. Þannig var strax í upphafi ákveðið að ljúka vinnunni í áföngum, þeim fyrsta í september 2014, öðrum í október 2015 og þeim þriðja og síðasta fyrir árslok 2015. Vinnan hefur gengið vel og náðist t.d. að ljúka á tíma því sem áformað var í september 2014. Hvort sama muni eiga við varðandi áfangana sem klára á fyrir lok þessa árs á eftir að koma í ljós en greinilegt er að mikil áhersla er lögð á þessa vinnu hjá OECD.
Þó að niðurstöður úr vinnu OECD verði ekki skuldbindandi fyrir aðildarríkin, þ.e. öðlist ekki lagagildi, þá liggur fyrir hver tilgangurinn er. Því er ljóst að verulegur þrýstingur verður á einstök lönd að láta ekki hjá líða að taka þátt í því sameiginlega verkefni að koma í veg fyrir að mismunur landsréttar geri fyrirtækjum kleift að haga starfsemi sinni þannig að tekjuskattsgreiðslur þeirra verði lægri en ásættanlegt þykir. Lítið hefur farið fyrir BEPS-umræðu hér á landi en ekki er ólíklegt að stutt verði í að við förum að sjá breytingar á íslenskri skattalöggjöf sem eiga rætur í BEPS-vinnunni.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 09. apríl 2015 bls. 12.