Virðisaukaskatturinn er í eðli sínu neysluskattur, sem leggst á söluverð vöru og þjónustu og endanlegir kaupendur (neytendur) greiða og hefur þannig áhrif á samkeppnisstöðuna.

Breytingar á virðisaukaskattsskyldu

Ragnar Jóhann Jónsson, endurskoðandi hjá Deloitte og kennari við Háskólann á Akureyri.

Virðisaukaskatturinn er í eðli sínu neysluskattur, sem leggst á söluverð vöru og þjónustu og endanlegir kaupendur (neytendur) greiða og hefur þannig áhrif á samkeppnisstöðuna. Starfsemi (þjónusta) sem er undanþegin virðisaukaskatti hefur, þrátt fyrir að hún sé skilgreind í lögum sem slík, í sér ákveðinn virðisaukaskatt sem neytendur greiða með óbeinum hætti í verði hennar. Um er að ræða ýmsa þjónustu eins og heilbrigðisþjónustu, fræðslustarfsemi, íþrótta- og menningarstarfsemi, banka- og vátryggingastarfsemi, o.fl. Þegar við t.d. greiðum fyrir tannlæknaþjónustu þá er viðkomandi tannlæknir búinn að greiða virðisaukaskatt af aðföngum, virðisaukaskatt sem „sjúklingurinn“ greiðir við kaup sín á tannlæknaþjónustunni. Þetta er kannski ekki mikill virðisaukaskattur, enda er tannlæknaþjónustan sjálf, þ.e. vinnan, án alls virðisaukaskatts og uppistaðan í hinni seldu þjónustu.

Vöxtur ferðaþjónustunnar hér á landi hefur verið mikill á undanförnum árum. Lengi vel var hluti ferðaþjónustunnar undanþegin virðisaukaskatti, en með bættri samkeppnisstöðu hefur að mati löggjafans skapast svigrúm til að færa þessa starfsemi í auknu mæli undir virðisaukaskattsskyldu. Þannig hefur allur fólksflutningur verið undanþeginn virðisaukaskatti, þ.m.t. ýmsar skoðunar- og hópferðir, hvort sem þær hafa verið á landi, í lofti eða á legi. Frá og með ársbyrjun 2016 verða slíkir fólksflutningar virðisaukaskattsskyldir. Eftir sem áður eru og verða allar áætlunarferðir með fólk undanþegnar virðisaukaskatti. Afleiðingar þess að færa þannig undanþegna starfsemi yfir í virðisaukaskattsskylda starfsemi er að lagður er í þessu tilviki 11% virðisaukaskattur á hina seldu þjónustu (farmiðana).

Þessi aukna skattlagning á ekki að skila sér í hreinni 11% hækkun þjónustunnar. Ástæðan er sú að við tilfærsluna úr undanþeginni starfsemi yfir í skattskylda starfsemi myndast réttur viðkomandi skattaðila til að innskatta ákveðna kostnaðarliði á móti þeim virðisaukaskatti (útskatti) sem skila ber í ríkissjóð. Flækjustig slíkra viðskipta getur orðið nokkuð ef viðkomandi er bæði að selja hópferðir, sinna áætlunarferðum og jafnvel einhverri annarri ferðatengdri þjónustu. Gefum okkur hins vegar til einföldunar að við séum með aðila sem selur ferðamönnum hópferðir með rútum en hefur ekki með höndum áætlunarferðir. Fram til þessa hefur öll hans starfsemi verið undanþegin virðisaukaskatti. Hann hefur ekki lagt á sína sölu virðisaukaskatt (útskatt) og hann hefur ekki fengið neinn virðisaukaskatt (innskatt) endurgreiddan. Gefum okkur að kostnaður þessa aðila skiptist þannig að 60% hans sé kostnaður sem ekki ber virðisaukaskatt (launakostnaður, vátryggingar, skattar, fjármagnskostnaður o.fl.), meðan 30% liggi í kostnaði sem er innskattshæfur með 24% virðisaukaskatti (eldsneyti, varahlutir, auglýsingar, húsnæði o.fl.) og að hagnaðarhlutfallið sé 10%. Við tilfærsluna úr undanþeginni starfsemi yfir í virðisaukaskattsskylda starfsemi myndast réttur til að innskatta nefndan 30% hluta af rekstrarkostnaðinum, sem er um 5,8% af heildartekjunum (30/1,24 x 0,24). Miðað við þessar einföldu forsendur, sem þurfa ekkert að vera óraunhæfar þótt grófar séu, sést að viðkomandi aðili þarf ekki að hækka sína útseldu þjónustu um öll ellefu prósentin til að hún skili honum óbreyttri afkomu. Hann kæmist af með um 4,6% hækkun. Þannig yrði útskatturinn sem hann yrði að skila til ríkissjóðs um 10,4% af sölutekjunum (með vsk.) og á móti kæmi innskattur upp á fyrrnefnd 5,8%, að því gefnu að reksturinn skili óbreyttri afkomu. Ríkissjóður fengi þannig um 4,6% af sölutekjunum (með vsk.) í sinn hlut.

Tilfærsla á undanþeginni starfsemi yfir í virðisaukaskattsskylda þarf því ekki að þýða að þjónustan hækki að fullu um þau prósent sem skattþrepinu nemur þar sem ákveðin innskattsheimild verður til. Eftir stendur hins vegar spurningin um samkeppnissvigrúm hins skattskylda aðila, seljanda þjónustunnar, til að velta virðisaukaskattinum út í verðlagið. Ef það svigrúm er fyrir hendi gæti það skilað ríkissjóði auknum tekjum í formi virðisaukaskatts.

Nálgast má greinina á Mbl. hér.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 11. feb. 2016
11.02.2016