„Það að starfa erlendis er ómetanleg reynsla. KPMG bauð upp á þétt stuðningsnet fyrir þá sem fóru í starfaskipti erlendis og naut ég góðs af því. Það er mikill ávinningur bæði fyrir starfsmanninn og fyrirtækin af slíkum erlendum starfaskiptum.“

Elín Hanna Pétursdóttir

Félagsmaðurinn
Elín Hanna Pétursdóttir er einn af fjölmörgum endurskoðendum sem býr á Kársnesinu í Kópavogi en þar búa í það minnsta tíu félagsmenn samkvæmt síðustu talningu. Við tókum hús á henni um daginn.

Hver er Elín Hanna Pétursdóttir?


Ég er fædd og uppalin í Reykjavík, gekk í Verzlunarskóla Íslands og nam svo viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Byrjaði reyndar í hagfræði en ákvað ég eftir eitt ár að skipta yfir í reikningshald- og endurskoðun og kláraði M.Acc gráðu 2008. Ég varð svo löggiltur endurskoðandi árið 2011.

Líkt og fjölmargir aðrir endurskoðendur bý ég á Kársnesinu og er það nálægt því að vera nafli
alheimsins að mínu mati. Ég er í sambúð með Hjalta Rúnari Sigurðssyni rafvirkjameistara. Samtals eigum við fimm börn, Birki Snæ 18 ára, Amelíu Björt 14 ára, Sóldísi Maríu 8 ára og svo tvíburana Styrmi Alexander og Júlíu Marín sem verða 6 ára í sumar og eru að hefja sína grunnskólagöngu. Þannig við erum að taka á svo til öllum aldursskeiðum í uppeldi í einu, þetta er fjörugt heimili og mikið um að vera öllum stundum.


Starfsferill


Öll sumur meðfram háskólanámi vann ég í reikningshaldi Olíufélagsins ehf. og fékk þar að kynnast margvíslegum störfum á fjármálasviði meðan ég leysti starfsfólkið af í sumarfríi.

Eftir útskrift frá Háskóla Íslands árið 2006 hóf ég svo störf á endurskoðunarsviði KPMG og var það frábær starfsreynsla og ég var lánsöm að fá að fást þar við fjölbreytt verkefni með reynslumiklu fólki. Eftir fjögur ár þar bauðst mér svo starfstækifæri á endurskoðunarsviði KPMG í Osló þar sem ég bjó svo um tveggja ára skeið.

Ég sneri svo aftur til Íslands og KPMG en í upphafi árs 2013 söðlaði ég um og hóf störf hjá Eimskipafélagi Íslands þar sem ég hef starfað núna í rúm 11 ár. Þar hef ég öðlast dýrmæta reynslu í gegnum ýmsar áskoranir. Í fyrstu starfaði ég við samstæðureikningsskil félagsins og varð svo forstöðumaður reikningshalds en hef núna í seinni tíð bætt mikið við reynslu mína með því að starfa sem forstöðumaður á fjármálasviði við hin ýmsu verkefni tengd upplýsingatækni og ferlum samstæðunnar. 

Í vor ákvað ég svo að snúa aftur í „bransann“ og er þessa dagana að minnka við mig hjá Eimskip og auka við mig hjá endurskoðunarskrifstofunni Þrep ehf. en félagið er stofnað árið 1987 af pabba og félögum hans. Jafnframt er ég að snúa aftur til kennslustarfa og mun frá og með næsta hausti kenna reikningshald í bæði grunn- og framhaldsnámi við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík en ég kenndi þar námskeið í bæði reikningsskilum og endurskoðun á árum áður. Loks má geta að ég hef setið í reikningsskilaráði frá árinu 2016.


Hvernig var að starfa erlendis?


Það að starfa erlendis er ómetanleg reynsla. KPMG bauð upp á þétt stuðningsnet fyrir þá sem fóru í starfaskipti erlendis og naut ég góðs af því. Það er mikill ávinningur bæði fyrir starfsmanninn og fyrirtækin af slíkum erlendum starfaskiptum. Þó Noregur sé ekki langt frá okkur bæði á landakortinu og í menningu þá var þetta engu að síður stórt skref út fyrir þægindarammann og mikill sigur var unninn þegar ég var loksins farin að skilja brandara samstarfsfólksins í mötuneytinu eftir um þriggja mánaða starf og svo geta sagt sjálf brandara á norsku eftir fyrsta árið. Á einum tímapunkti fórum við svo öll deildin mín saman í heimsókn til Íslands þar sem ég var fararstjóri. Á þessum tíma kynntist ég frábæru fólki sem eru enn vinir mínir í dag.


Hvers vegna ákvaðst þú að verða endurskoðandi?


Ætli það sé ekki hálfpartinn hægt að segja að ég sé alin upp í „bransanum“. Ég á mínar ákveðnu æskuminningar frá Þrep, fyrst í vinnunni með pabba sem barn við að ljósrita á mér hendurnar, svo við að stemma af bankareikninga með gulum glósupenna og síðar við bókhaldsstörf á unglingsárum og fleira. Svo var það endanlega að ráðleggingum skólastjórans afa míns heitins á meðan háskólanámi mínu stóð að ég tók ákvörðun um að feta þessa braut og ég er þakklát í dag fyrir að hafa hlustað á hann.


Hvernig er að vinna með föður sínum?


Ég ætla fá að geyma þá spurningu, það hefur ekki reynt á það að ráði ennþá, en þetta lofar góðu og það er virkilega vel tekið á móti mér hjá Þrep.

 

Finnst þér margt hafa breyst frá því þú starfaðir síðast við endurskoðun?


Ég hef verið vel tengd endurskoðun í gegnum starfið mitt hjá Eimskip, en bara á hinum vallarhelmingnum, sem viðskiptavinurinn. Svo ég hef fengið að fylgjast með því sem er að gerast í endurskoðunarheiminum en þetta á eftir að koma betur í ljós á næstu mánuðum þegar ég kafa enn dýpra.


Hvað finnst þér skemmtilegast við starfið?


Númer eitt, tvö og þrjú við starfið er að fá að kynnast öllu þessu frábæra fólki sem ég hef fengið að vinna með í gegnum árin. Að kynnast fyrirtækjunum, ferlum þeirra og uppbyggingu. Að eiga samræður við annað fólk um fagið okkar er gefandi og að líka það að geta tekist á um málefni og komist svo að sameiginlegri niðurstöðu. Það er einhvern veginn alltaf eitthvað spennandi á hverjum degi sem heldur manni við efnið.


Myndir þú mæla við því við ungt fólk að leggja endurskoðun fyrir sig?


Já ég myndi gera það. Við endurskoðendur fáumst við fjölbreytt verkefni og reynslan opnar á ótal tækifæri. Ég held að verkefnin séu fjölbreyttari en fólk almennt gerir sér grein fyrir. Sem endurskoðandi gefst þér tækifæri á að kynnast og skilja til hlítar starfsemi, ferla og innviði hinna ýmsu fyrirtækja og starfsgreina, þú lærir að taka þátt í skilvirkri teymisvinnu, tileinkar þér greiningarhæfni og öðlast skilning á mikilvægi góðra samskipta og stjórnunar. Svo umfram allt kynnist maður svo mikið af góðu fólki og myndar víða sambönd við fólk sem maður býr að ævilangt. Þetta byggir allt grunninn undir gríðarlega góða starfsreynslu og þá einnig fyrir önnur störf en þau sem eingöngu eru tengd endurskoðunarfyrirtækjum.


Áhugamál


Alveg í hreinskilni sagt þá hefur ekki gefist ekki mikill tími til að sinna áhugamálum síðustu árin. Þegar maður eignast þrjú börn á innan við þremur árum geta hinir furðulegustu hlutir orðið áhugamál, eins og að fara einn með sjálfum þér í matvöruverslun. En svona að öllu gríni slepptu þá er efst í huga er samvera og ferðalög með fjölskyldu og vinum, lesa góðar bækur og horfa á góða sjónvarpsþætti og stundum gríp ég í handavinnu. Svo þykist ég ætla næla mér í áhuga á garðrækt á næstunni en við sjáum hvað setur með það.


Ertu búin að skipuleggja sumarfríið?


Já, í stórri fjölskyldu er að sjálfsögðu fyrir löngu búið að skipuleggja sumarið í Excel skjali með yfirliti yfir hver er hvar hvenær. Efst á baugi eru fótboltamótin og fimleikar hjá yngstu börnunum og svo ætlum við fjölskyldan að fara til Hollands í sumarhúsabyggð eins og ég sjálf gerði með foreldrum mínum sem barn og ég er orðin mjög spennt fyrir þeim plönum.

FLE
15.07.2024
FLE