Endurmenntun endurskoðenda
Tíminn líður hratt...hraðar sérhvern dag...“, þannig segir í um 30 ára gömlum söngtexta við lagið sem var fyrsta framlag okkar Íslendinga í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Á þeim tíma sem liðinn er hefur þessi fullyrðing textans haldið gildi sínu nokkuð vel. Framfarir hafa orðið á flestum sviðum, tæknin vaxið og þekkingin aukist. Vissulega hafa þessu fylgt ruðningsáhrif og eitthvað orðið að gefa sig, staðnað og orðið undir í tímans rás, sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur „framfara“. Heilu starfsgreinarnar hafa horfið og hreinlega úrelst vegna tækni- og samfélagsbreytinga, á meðan aðrar hafa eflst með auknum kröfum og nýjar orðið til.
Endurskoðun hefur ekki farið varhluta af þessari þróun. Kröfur um þekkingu og reynslu hafa aukist og þar af leiðandi kröfur um menntun þeirra sem vilja hasla sér völl á þessu sviði. Allt til að mæta auknum kröfum samfélagsins, markaðarins og hins opinbera um skilvirkni, samræmingu og áreiðanleika. Umhverfi endurskoðenda hefur þannig tekið miklum breytingum á síðustu áratugum. Krafa er nú gerð um beitingu alþjóðlegra staðla, bæði á sviði endurskoðunar og reikningsskila og notkun þeirra verið lögleidd hér á landi. Á sama tíma hefur sú tækni sem beitt er við lausn verkefna tekið miklum breytingum og framförum. Sérhæfður hugbúnaður verið innleiddur sem tekur mið af þeim stöðlum og öðrum kröfum sem fylgja þarf og tryggir betur undirbúning, utanumhald og framkvæmd verkefna.
Þessi þróun hefur gert, er að gera og mun gera, kröfur til þeirra sem starfa á þessum vettvangi, kröfur sem ekki er eða verður hægt að víkja sér undan ef tryggja á áframhaldandi traust og trúverðugleika, sem er grundvöllur starfsins/stéttarinnar. Vissulega spila fleiri þættir þar inní, svo sem eins og óhæði, heilindi og trúnaður, en þeir verða ekki mikils virði ef þekkinguna og reynsluna skortir.
Eins og fyrr segir hafa kröfur um menntun endurskoðenda aukist í gegnum tíðina, allt frá því að vera í formi sérhæfðs námskeiðahalds, til fjögurra ára kandídatsnáms og nú tveggja ára meistaranáms á sviði endurskoðunar að afloknu þriggja ára grunnámi á háskólastigi. Auk þess þarf svo starfsreynslu á sviði endurskoðunar undir handleiðslu endurskoðanda áður en hægt er að taka löggildingarprófið sjálft. Þessar auknu kröfur um grunnmenntun endurskoðenda gera að sama skapi kröfur til þeirra sem fyrir eru. Halda þarf þekkingu við og bæta við því sem er að gerast á sviði endurskoðunar, reikningsskila og skattskila hverju sinni.
Löggjafinn hefur brugðist við þessu með því að gera ákveðnar lágmarkskröfur um endurmenntun endurskoðenda og nær sú krafa til allra þeirra sem vilja halda réttindum sínum, auk krafna um starfsábyrgðartryggingar og utan að komandi gæðaeftirlit.
Þannig ber öllum þeim endurskoðendum sem vilja halda sínum réttindum, samanber 7. gr. laga nr. 79/2008 um endurskoðendur, að sækja endurmenntun sem tryggir viðhald fræðilegrar þekkingar, faglegrar hæfni og faglegra gilda. Endurmenntunin skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili, eða 40 klukkustunda að jafnaði á ári. Ef þessum kröfum löggjafans er ekki fylgt að fullu eiga viðkomandi á hættu að missa réttindi sín sem endurskoðendur, a.m.k. tímabundið meðan bætt er úr því sem aflaga hefur farið.