En við sem vinnum við endurskoðun, finnum vel fyrir þessum breytingum og auknu kröfum sem orðið hafa í störfum okkar á síðustu tíu árum

ENDURSKOÐUN BREYTINGAR OG UMBÆTUR Í KJÖLFAR HRUNSINS

Herbert Baldursson og Íris Ólafsdóttir, edurskoðendur hjá PwC

HRUNIÐ – þetta voðalega orð, sem merkir bara eitt – hrun stóru bankanna í október 2008 og skelfilegar afleiðingar þess á íslenska þjóðarsál og efnahagslíf. Nú, þegar tíu ár eru liðin frá þessum atburði er viðeigandi að líta til baka og skoða hvort og þá  hvaða áhrif hrunið hefur haft á umhverfi og störf endurskoðenda. Hér er ekki ætlunin að vega og meta störf endurskoðenda í  hruninu. Sá þáttur er auðvitað ekki hafinn yfir gagnrýni, en hann hefur verið skoðaður af Rannsóknarnefnd Alþingis og kannski  öðrum. Hér ætlum við að fara stuttlega yfir hvað hefur breyst hjá okkur endurskoðendum í kjölfar hrunsins. Hvað sögðu og  gerðu eftirlitsaðilar og reglusetningarvaldið og hverju breyttu þau yfirvöld í okkar starfsumhverfi. 

Það var ekki bara á Íslandi sem  það varð hrun. Í Evrópusambandinu varð til dæmis það sem nefnt er „The CRISIS“, eða fjármálakreppan. Í þessari grein  ætlum við einnig að skoða hvaða áhrif fjármálakreppan hafði á endurskoðun og endurskoðendur í ESB, því það er jú þannig að  allt sem gerist innan ESB mun á endanum skila sér til Íslands og breyta lífi okkar. 

Óhætt er að segja að í eftirmála hrunsins var athyglin á endurskoðendur í raun tiltölulega lítil, bæði hér heima sem og innan ESB. Fyrst og fremst var einblínt á fjármálakerfið og hvernig mætti gera umbætur á því. Þá erum við að tala um  reglusetningarvaldið og eftirlitsaðila. Álit almennings á endurskoðendum, eins og fleirum, beið hins vegar hnekki.

ÍSLAND – HVAÐ VAR SAGT UM ENDURSKOÐENDUR Á ÍSLANDI?
Á Íslandi var sett á stofn Rannsóknarnefnd Alþingis til að fara yfir aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengda atburði. Þessi viðbrögð voru einstök í allri Evrópu en voru nauðsynleg fyrir okkur Íslendinga til að skilja hvað gerðist. Í skýrslu  Rannsóknarnefndar Alþingis er einn kafli þar sem fjallað er um endurskoðendur og störf þeirra, einkum er varðar endurskoðun á  reikningsskilum fjármálafyrirtækjanna í aðdraganda hrunsins. Þar setur nefndin fram gagnrýni sína um störf endurskoðenda og  skyldur þeirra og leggur til að störf endurskoðenda séu skoðuð. Þingmannanefnd sem var skipuð til að fjalla um skýrslu  Rannsóknarnefndar Alþingis tók gagnrýni Rannsóknarnefndarinnar upp í sínu áliti og lagði einnig til að farið yrði í ítarlega úttekt  á störfum ytri endurskoðenda fram að hruni bankanna.

Þingmannanefndin lagði til að farið væri í endurskoðun á lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur þar sem hún taldi, meðal annars út frá athugasemdum Rannsóknarnefndarinnar, að skýra þyrfti og efla lög og reglur um störf og hlutverk endurskoðenda fyrirtækja, meðal annars til þess að bæta starfsskilyrði og efla frumkvæðisskyldu þeirra við endurskoðun. Markmiðið væri að efla ábyrgð, upplýsingaskyldu og verklag endurskoðenda, styrkja sjálfstæði þeirra og efla tengsl við opinberar eftirlitsstofnanir.  Einnig lagði Þingmannanefndin til að til hliðsjónar við þessa vinnu væru þær breytingar sem gerðar voru á lagaumhverfi  endurskoðenda í Bandaríkjunum með hinum svokölluðu Sarbanes-Oxley-lögum.

EVRÓPUSAMBANDIÐ – HVAÐ VAR SAGT UM ENDURSKOÐENDUR Í EVRÓPU?
Strax eftir fjármálakreppuna beindist umræðan innan ESB fyrst og fremst að fjármálafyrirtækjunum og að koma þyrfti á stöðugleika í fjármálakerfinu. Almennt var ekki talið að gallar í endurskoðun eða áliti endurskoðenda hafi valdið eða átt þátt í kreppunni. Þrátt fyrir það var ákveðið innan ESB að fara þyrfti yfir endurskoðunina og skoða hvort og þá hvernig mætti bæta hana. Niðurstaðan kom fram árið 2010 með „Green Paper – Audit Policy: Lessons from the Crisis“. Tilgangurinn var að setja fram vangaveltur og spurningar og koma af stað umræðum um endurskoðun almennt og þátt endurskoðenda í  fjármálakreppunni og hvað mætti lagfæra í laga- og reglugerðarumhverfinu til að minnka líkur á að sagan myndi endurtaka sig.

BREYTINGAR Á REGLUUMHVERFINU Í EVRÓPU
Megnið af hugmyndunum úr Green Paper komu svo fram árið 2014 í nýrri tilskipun ESB um endurskoðun og í reglugerð sem var sett sérstaklega um endurskoðun á einingum tengdum almannahagsmunum. Tilgangurinn með breytingunum er að tryggja gagnsæi fjárhagsupplýsinga fyrirtækja, herða endurskoðendur í óhæði og til að beita faglegri tortryggni, gera markað fyrir  endurskoðun virkari innan ESBog efla eftirlit með endurskoðendum og samræma það á milli landa. Helstu breytingarnar voru þessar:
• gerðar voru ríkari kröfur um óhæði endurskoðenda,
• settar voru reglur um innihald endurskoðunaráritunar til að auka upplýsingagildi hennar fyrir fjárfesta,
• eftirlit með störfum endurskoðenda er eflt
• framkvæmdastjórn ESB var veitt heimild til að innleiða alþjóðlegu endurskoðunarstaðlana.

Að auki voru eftirfarandi aðgerðir settar fram vegna eininga tengdum almannahagsmunum:

  • kröfur um innihald áritunar endurskoðenda voru auknar auk þess sem gerðar voru auknar kröfur um skýrslugerð til endurskoðunarnefnda,
  • settar voru reglur um reglubundin skipti á endurskoðendum (rotation),
  • gerður var listi yfir ýmsa þjónustu aðra en endurskoðun sem endurskoðendum er ekki heimilt að veita,
  • skilgreindar voru hámarkstekjur af annarri heimilli þjónustu en endurskoðun,
  • hlutverk og kröfur um hæfni endurskoðunarnefnda var aukið

Þessi tilskipun og reglur komu til framkvæmda í byrjun árs 2016 og er nú verið að innleiða þær á Íslandi í nýju frumvarpi um endurskoðun og endurskoðendur sem verður líklega að lögum á vormánuðum 2019.

BREYTINGAR Á REGLUUMHVERFINU Á ÍSLANDI
Þrátt fyrir álit og tillögur Þingmannanefndarinnar um að farið yrði í endurskoðun á lögum um endurskoðendur, þá hafa engar efnislegar breytingar orðið á þeim. Það er ekki fyrr en núna í lok árs 2018 að það er komið fram frumvarp til nýrra laga sem er byggt á tilskipun ESB frá árinu 2014.

Hins vegar var gerð lagabreyting árið 2010 á lögum um fjármálafyrirtæki sem snertir endurskoðendur fjármálafyrirtækja verulega. Annars vegar var það að endurskoðandi eða endurskoðunarfyrirtæki skal ekki gegna öðrum störfum  fyrir fjármálafyrirtæki en endurskoðun. Hins vegar er það breytingin, sem sjálfsagt fór fyrir brjóstið á einhverjum, sem  er að endurskoðandi má aðeins vera í fimm ár í hverju fyrirtækiog má ekki koma aftur að endurskoðun þess fyrr en eftir fimm ár  til viðbótar. Í umsögn með lagafrumvarpinu um þetta skilyrði segir meðal annars að endurskoðendur hafi ekki farið varhluta  af gagnrýni vegna þeirra hremminga sem dunið hafa yfir fjármálakerfi heimsins og því þyki mörgum sem trúverðugleiki þeirra  sem sérfræðinga er votta fjárhagslega stöðuog heilbrigði fjármálafyrirtækja hafi beðið hnekki. Þess vegna er lagt til að ekki verði heimilt að sama endurskoðunarfyrirtæki sjái um endurskoðun fjármálafyrirtækis lengur en fimm ár. Tilgangur ákvæðisins er tvíþættur samkvæmt umsögninni, í fyrsta lagi er verið að reyna að sporna við því að endurskoðendur verði um of  fjárhagslega háðir einu fyrirtæki og í öðru lagi að sú vissa sem þeir standa frammi fyrir að samkeppnisaðilar geta skoðað verk  þeirra að ráðningartíma liðnum muni leiða til vandaðri vinnubragða.

Þetta er athyglisvert þar sem sú hugmynd að takmarka starfstíma endurskoðenda var kannski ekki endanlega sett á blað fyrr en  með Green Paper sem var gefið út í október 2010. Og þar er ekki sett fram hugmynd um það hvað slíkur starfstími á að vera langur, það kemur með reglugerð ESB frá 2014 um endurskoðun eininga tengdum almannahagsmunum. Í þeirri reglugerð er  endurskoðunarfyrirtæki heimilt að vera í tíu ár með endurskoðun slíkra fyrirtækja, með mögulega framlengingu um önnur tíu ár, að vísu eftir útboð. Reglur um útskipti endurskoðenda í íslensku lögunum um fjármálafyrirtæki eru því mun strangari en í  Evrópu. Að vísu virðist standa til að milda þessar reglur um útskipti verulega í nýjum lögum um endurskoðendur, nema auðvitað  að áfram standi í lögum um fjármálafyrirtæki að endurskoðendur megi ekki vera lengur en fimm ár?

AÐRAR BREYTINGAR Á ÍSLANDI
Þrátt fyrir að lagabreytingar frá hruni sem snerta starf endurskoðenda hafi ekki verið miklar þá hefur orðið, að því að við teljum, veruleg þróun í öðrum reglum í umhverfi endurskoðunar.  

Siðareglur félags löggiltra endurskoðenda (FLE) voru samþykktar árið  2009. Þetta er reyndar vinna sem byrjaði árið 2006 og eru þær byggðar á siðareglum alþjóðasambands endurskoðenda, IFAC. Í  lögum um endurskoðendur frá 2008 er tilgreint að allir endurskoðendur skuli fylgja þeim siðareglum sem FLE gefur út.

Síðan eru það alþjóðlegu endurskoðunarstaðlarnir. Í lögum um endurskoðendur segir að við endurskoðun eigi að fylgja alþjóðlegu endurskoðunarstöðlunum, sem gefnir eru út af IFAC. Tilgangurinn með þessu er að sjálfsögðu, sem hluti af alþjóðavæðingunni, að samræma störf og álit endurskoðenda á milli landa. Þróun í þessum stöðlum hefur verið og er ennþá veruleg enda er þar reynt að bregðast við erfiðum aðstæðum sem geta komið upp á hverjum tíma með breyttum og  bættum vinnuaðferðum. Þessar breyttu og bættu vinnuaðferðir kalla oftast á meiri vinnu hjá okkur endurskoðendum. Oft án þess að við fáum meira greitt fyrir það, en hver er svo sem að kvarta?

Á árunum 2006-2009 voru alþjóðlegu endurskoðunarstaðlarnir rækilega endurskoðaðir og gerðir skýrari og var þessi endurbætta  útgáfa þeirra fyrst notuð við endurskoðun ársins 2010. Í byrjun var þessi endurskoðun á stöðlunum viðbrögð við alþjóðavæðingunni á fjármálamörkuðunum þar sem flóknara umhverfi kallaði á skýrari reglur og aukið gagnsæi. Fjármálakreppan hafði einnig áhrif og flýtti fyrir að endurbættir staðlar væru teknir í notkun.

LOKAORÐ
Strax eftir hrun og fjármálakreppu var athyglin mest á fjármálafyrirtækjunum, bæði hér heima og erlendis. Athyglin beindist að  reikningsskilum þeirra, stjórnun og stjórnendum þeirra. Einnig beindist hún að eftirlitinu með þeim af hálfu fjármálaeftirlita. Störf  endurskoðenda komu einnig til skoðunar. Markmiðið var tryggja fjármálastöðuleikann og að reyna að koma í veg fyrir  aðra kreppu.

Til að bregðast við gagnrýninni hafa verið gerðar, eða eru í farvegi, breytingar á því umhverfi og regluverki sem endurskoðendur starfa í. Til að lista þær upp í stuttu máli höfum við tekið þær saman í eftirfarandi punkta:       

Gagnrýni: Endurskoðendur eru of tengdir stjórnendum fyrirtækjanna.
Viðbrögð: Settar voru reglur um útboð og um takmörkun á starfstíma endurskoðenda.

Gagnrýni: Áritun endurskoðenda er ekki nógu góð.
Viðbrögð: Reglur um áritun voru bættar í endurskoðunarstöðlunum og í tilskipum ESB sem kemur inn í íslensk lög árið 2019.

Gagnrýni: Staða útlána fjármálafyrirtækja gefur ranga mynd.
Viðbrögð: Reikningsskilastaðli um afskriftarreikning útlána var breytt og endurskoðunarstaðli um endurskoðun á mati  stjórnenda var breytt.

Gagnrýni: Endurskoðendur eru innvinklaðir í allt starf fyrirtækjanna sem þeir eru að endurskoða.
Viðbrögð: Siðareglurnar afmarka hvað endurskoðandi má gera í fyrirtækjum og tilskipun ESB og lög um fjármálafyrirtæki
takmarka aðra vinnu um endurskoðenda.

Gagnrýni: Ýmis atriði í störfum endurskoðenda sem var velt upp í Green Paper frá ESB.
Viðbrögð: Megnið af þessum atriðið voru sett inn í tilskipun ESB og reglugerð um endurskoðun. Þessi atriði koma inn í íslensk lög með nýjum lögum um endurskoðendur á vormánuðum 2019.

Það verður að segjast eins og er, þegar litið er á listann hér að ofan, að þetta virðast kannski ekki vera miklar breytingar. En við sem vinnum við endurskoðun, finnum vel fyrir þessum breytingum og auknu kröfum sem orðið hafa í störfum okkar á síðustu tíu árum. Hversu oft heyrum við ekki stéttina kveinka sér yfir endalausu gæðaeftirliti og endalausri endurmenntun, nýjar og nýjar kröfur endurskoðunarstaðlanna og einhver ný tölvukerfi til að vinna með og allri skjöluninni sem því fylgir. Að ekki sé talað um gríðarlegar breytingar í atvinnulífinu, í fyrirtækjum og þeirra umhverfi. Og nú nýjasta ógnin, að það sé jafnvel ekki ólíklegt að  eftir tíu ár hafi tölvurnar tekið við af okkur og hinn nýi löggilti endurskoðandi, A.I., áriti ársreikninga fyrirtækja rafrænt! En hvað um það, á meðan að sjóðstreymið stemmir og allt er rétt skráð í endurskoðunargrunnana, þá brosum við endurskoðendurnir og  erum sátt, ekki satt? 

 

FLE blaðið 1. tbl. 41. árg. bls. 26-28