Endurskoðun framtíðarinnar
Endurskoðun framtíðarinnar verður mjög frábrugðin þeirri hefðbundnu endurskoðun sem stjórn- endur þekkja í dag. Það hvernig endurskoðendur framkvæma endurskoðun mun gjörbreytast á næstu 5-10 árum samhliða framförum í tækni og greiningaraðferðum.
Gagnagreiningar, ný tækni og aðgangur að ítarlegum upplýsingum um viðkomandi atvinnugrein mun hjálpa endurskoðendum að skilja betur viðkomandi fyrirtæki, greina áhættu og álitamál og veita aukna innsýn. Getan til að fara í gegnum og greina öll gögn, frekar en að beita úrtaksprófunum, mun gera endurskoðunina öruggari en áður. Sérfræðingar áætla að 90% af þeim upplýsingum sem til eru í dag hafi verið búin til á síðastliðnum tveimur árum. Þetta gagnaflóð mun halda áfram að aukast á stigvaxandi hátt. Því leikur ekki nokkur vafi á að hefðbundin endurskoðun mun þurfa að þróast til að halda í við þessa sprengingu á gagnamagni.
Í grunninn er nálgunin við endurskoðun sú sama og áður. Endurskoðendur hafa verið að nota greiningaraðferðir við endurskoðun árum saman, en ört minnkandi kostnaður við geymslu og úrvinnslu rafrænna gagna er að gera ítarlegar gagnagreiningar á stærri þýðum en nokkru sinni áður fjárhagslega fýsilegar. Endurskoðun framtíðarinnar mun því fela í sér að skoðaðar verða ítarlegri og víðtækari upplýsingar en áður og þær greindar út frá markmiðum endurskoðunarinnar með sérhæfðum
greiningaraðferðum. Þetta mun gera endurskoðendum betur kleift en áður að koma auga á álitamál og greina sveiflur og veita þeim aukna innsýn sem mun stuðla að bættum samskiptum endurskoðenda og stjórnenda.
Tæknibreytingar hafa nú þegar áhrif á það hvernig endurskoðendur framkvæma endurskoðun. Þótt fyrirtæki og endurskoðendur geri sér grein fyrir gagnsemi þess að vinna þróaðri gagnagreiningar á stærri gagnasöfn hafa slíkar greiningar ekki verið veigamikill þáttur í framkvæmd endurskoðunar hingað til. Tækniframfarir eru farnar að gera endurskoðendum kleift að gera ítarlegar gagnagreiningar að lykilaðgerð í endurskoðunarferlinu. Í framtíðinni verður það því lykilatriði fyrir árangursríka endur-skoðun hvort endurskoðunarfyrirtæki geta innleitt skilvirkar aðferðir við innlestur og greiningu stórra gagnasafna.
Tilfærslan frá hefðbundinni endurskoðun til endurskoðunar framtíðarinnar mun ekki gerast á einni nóttu. Jafnvel þótt það muni taka tíma að koma endurskoðun framtíðarinnar að fullu í framkvæmd þurfa endurskoðendur að vera í fararbroddi og innleiða strax nýjungar sem gera þeim kleift að gera ítarlegar gagnagreiningar að hryggjarstykkinu í sinni endurskoðun. Með gagnagreiningu munu endurskoðendur betur geta greint frávik í mikilvægum þáttum, t.d. færsluvillur, frávik í gögnum, brotalömum í innraeftirliti og mögulegri sviksemi.
Endurskoðendur sem ráða við þetta verða betur búnir til að hjálpa stjórnendum að koma tímanlega auga á álitamál, hvort sem þau eru orðin eða eru í uppsiglingu, og hjálpa þannig stjórnendum að takast á við þau áður en þau verða að stærri vandamálum. Stjórnendur munu í framtíðinni horfa í auknu mæli til þeirra endurskoðenda sem samþætta endurskoðun, nýjustu tækni og ítarlega gagnagreiningu. Að auki munu greiningaraðgerðir ýta undir rauntíma endurskoðun þar sem upplýsingar eru greindar í rauntíma, en slíkt mun auka gagnsemi endurskoðunar innar fyrir stjórnendur enn frekar.
Í löndum eins og Íslandi, þar sem útskipti á endurskoðendum hafa verið lögbundin, munu greiningar-aðgerðir gera nýkjörnum endurskoðendum kleift að öðlast betri skilning á viðskiptavininum, en það er sérstaklega mikilvægt á fyrsta ári endurskoðunarinnar. Með því að greina öll gögn í gagnasafni verða endurskoðendur og stjórnendur betur í stakk búnir til að greina áhættu fyrr og komast tímanlega að nákvæmari niðurstöðum en ella.
Í umhverfi þar sem markaðurinn og eftirlitsaðilar leggja aukna áherslu á gæði og gagnsæi, með sífellt alvarlegri afleiðingum ef illa fer, verða þeir endurskoðendur sem ná góðum árangri í innleiðingu ítarlegra gagnagreininga í mun betri stöðu til að hjálpa viðskiptavinum sínum að uppfylla skuldbindingar sínar
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 13. ágúst 2015 bls. 12.