Er sundurliðunarblað lögaðila á næsta leiti?
Á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins liggja fyrir drög að frumvarpi til breytinga á lögum um ársreikninga. Meðal þess sem þar kemur fram er ný stærðarflokkun sem nær til minnstu félaga landsins og nefnd eru örfélög. Þetta eru félög sem fara ekki yfir a.m.k tvö af eftirfarandi mörkum: innan við 20 milljónir í niðurstöðutölu efnahagsreiknings, innan við 40 milljónir í hreina veltu og 3 ársverk að meðaltali. Forsvarsmenn slíkra félaga geta, um leið og þeir skila skattframtali, valið að gefa samþykki sitt fyrir því að lykiltölur úr skattframtali félagsins verði sendar ársreikningaskrá sem fullgildur ársreikningur til birtingar. Slíka ársreikninga þarf hvorki að yfirfara af skoðunarmönnum, endurskoða né láta fylgja með skýrslu stjórnar. Þessar breytingar eru rökstuddar í frumvarpinu þannig að þær muni einfalda skil fyrir um 80% félaga á Íslandi og minnka stjórnsýslukostnað þeirra verulega. Einnig er vonast til að fleiri félög skili ársreikningum á réttum tíma með þessu fyrirkomulagi. Þetta skapar tækifæri og svigrúm fyrir eftirlitsaðila til að einbeita sér að skilum stærri félaga.
Um er að ræða talsverða breytingu og ef drögin að frumvarpinu verða að lögum munu skattyfirvöld þurfa að leita lausna til að staðfesta áreiðanleika þeirra upplýsinga sem koma fram á skattframtölum slíkra örfélaga. Ekki verða þær endurskoðaðar af endurskoðendum né yfirfarnar af skoðunarmönnum.
Skattyfirvöld hafa þó ákveðin úrræði því samkvæmt lögum um tekjuskatt skulu m.a. bankar, sparisjóðir og aðrar peningastofnanir, verðbréfamarkaðir o.fl. afhenda ríkisskattstjóra skýrslu um verðbréfaviðskipti auk upplýsinga um greidda eða greiðslukræfa vexti, afdregna staðgreiðslu og innstæður á bankareikningum og hvers konar verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum. Sama gildir um hvers konar útlán til viðskiptamanna og vaxtagreiðslur af þeim. Skattyfirvöld nota þessi ákvæði auk annarra ákvæða í lögum um tekjuskatt til að safna saman upplýsingum sem eru áritaðar á framtöl einstaklinga og/eða á svokallað sundurliðunarblað, sem er ekki hluti af skattframtalinu sjálfu. Hingað til hafa þessar upplýsingar verið notaðar fyrir framtöl einstaklinga en ekki lögaðila. Það er hins vegar spurning hvort breyting verði þar á og skattyfirvöld fari að óska eftir slíkum upplýsingum og útbúa „sundurliðunarblað“ fyrir lögaðila.
Parmalat-málið komst upp árið 2003 þegar í ljós kom að engin innstæða var á bankareikningi fyrirtækisins sem átti að vera með stöðu upp á um 4 milljarða evra. Innstæða sem átti að vera á bankareikningi Bank of America var ekki til staðar. Parmalat-málið er skólabókardæmi fyrir nema í endurskoðun til að brýna fyrir þeim að gæta varúðar og faglegrar gagnrýni við endurskoðun bankainnstæðna. Þegar ég steig mín fyrstu skref við endurskoðun árið 2001 þótti „græna yfirlitið“ frá Reiknistofu bankanna fullnægjandi til staðfestingar á stöðu bankareikninga enda nánast prentað á „löggildan pappír“. Á tímum litaljósritunarvéla hefur það síðar ekki þótt nægjanlegt endurskoðunargagn auk þess sem endurskoðendur hafa viljað ná utan um heild bankainnstæðna og skulda. Félag löggiltra endurskoðenda hefur því undanfarin ár hannað fyrirmynd að staðfestingarbréfi til banka og fjármálafyrirtækja. Slíkt staðfestingarbréf er notað af endurskoðendum til að afla með beinum hætti staðfestingar frá þriðja aðila á t.d. bankainnstæðum, skuldum við lánastofnanir, veðsetningum o.fl. Slík fyrirmynd var fyrst gefin út til endurskoðenda árið 2009 og síðan uppfærð árið 2012. Endurskoðendum hefur stundum reynst erfitt að fá svör við slíkum staðfestingarbréfum frá bönkum og fjármálafyrirtækjum. Ferlið við öflun slíkra staðfestingarbréfa getur líka verið tímafrekt og kostnaðarsamt. Sundurliðunarblað fyrir lögaðila, sambærilegt og þegar er til staðar fyrir einstaklinga, gæti komið í stað staðfestingarbréfsins, þar sem sömu upplýsingar eru þar staðfestar af þriðja aðila.
Slíkt sundurliðunarblað gæti þannig nýst bæði skattyfirvöldum við eftirlit og endurskoðendum við endurskoðun ársreikninga. Tækifæri er því nú fyrir endurskoðendur, skattyfirvöld og fjármálafyrirtæki til að auka skilvirkni og áreiðanleika til hagsbóta fyrir alla.