Með þessu á notendum reikningsskilanna að verða auðveldara að skilja eðli, tímasetningu og óvissu er tengist tekjum og sjóðstreymi vegna samninga við viðskiptavini viðkomandi félags.

Eru þetta tekjur?

Unnar Friðrik Pálsson löggiltur endurskoðandi hjá KPMG og aðjúnkt í reikningshaldi við H.R.

Í vor gaf Alþjóða reikningsskilaráðið (IASB) út nýjan staðal um tekjuskráningu. Staðallinn nefnist IFRS 15 Tekjur af samningum við viðskiptavini og mun væntanlega gilda fyrir íslensk félög sem beita stöðlunum frá og með árinu 2017. Nýi staðallinn hefur verið í burðarliðnum í mörg ár. Hann mun leysa af hólmi tvo eldri staðla um tekjuskráningu auk ýmissa túlkana sem Alþjóða reikningsskilaráðið hefur gefið út. Því verður loks að finna á einum stað allt sem lýtur að tekjuskráningu af sölu vöru og þjónustu. Vert er þó að hafa í huga að áfram verða í gildi staðlar um aðrar tekjur en vegna sölu á vöru og þjónustu, svo sem tekjur af fjáreignum og leigusamningum.

Ástæður þess að þörf þótti á að gefa út nýjan staðal um tekjur eru margvíslegar. Má þar nefna að núgildandi staðlar um tekjuskráningu, IAS 18 og IAS 11, veita takmarkaða leiðsögn og því getur verið erfitt að beita þeim þegar kemur að tekjufærslu
flókinna viðskipta. Þá þykir vanta ýtarlegar leiðbeiningar í IAS 18 um ýmis mikilvæg mál um tekjuinnlausn, til dæmis þegar um er að ræða samninga sem fela í sér fleiri en einn þátt. Loks má nefna að IAS 18 er ekki að fullu í samræmi við hugtakaramma reikningshaldsins sem Alþjóða reikningsskilaráðið gaf út.

Af þessum ástæðum var ráðist í útgáfu nýs staðals í samvinnu við bandaríska reikningsskilaráðið, meðal annars með það að markmiði að laga það misræmi og þá veikleika sem eru í eldri tekjuskráningarreglum, skapa með ýtarlegri leiðsögn en áður var betri grundvöll fyrir félög til að takast á við erfið mál er lúta að tekjuskráningu og auka samanburðarhæfni tekjuskráningar milli fyrirtækja, atvinnugreina og landa. Auk þess eru gerðar betrumbætur er lúta að upplýsingagjöf í ársreikningi. Með þessu á notendum reikningsskilanna að verða auðveldara að skilja eðli, tímasetningu og óvissu er tengist tekjum og sjóðstreymi vegna samninga við viðskiptavini viðkomandi félags.

Samkvæmt IFRS 15 skal félag fara með kerfisbundum hætti í gegnum fimm skrefa líkan staðalsins til að ákvarða hvenær skuli færa tekjur og við hvaða fjárhæð. Með þessum hætti eiga stjórnendur að geta ákvarðað, í hverju tilviki fyrir sig, hvort tekjur skuli færa á tilteknum tímapunkti, þegar félagið yfirfærir yfirráð (e. control) af vöru eða þjónustu til viðskiptavinarins, eða hvort tekjufærslan fari fram yfir ákveðið tímabil. Til tekna skal færa fjárhæð sem félagið væntir að eiga tilkall til vegna samningsins.

Leiða má líkur að því að fyrir sum félög muni nýi staðallinn hafa lítil eða engin áhrif á tímasetningu tekjufærslu og fjárhæðir. Fyrir önnur félög kann staðallinn að hafa töluverð áhrif. Má þar sem dæmi nefna fjarskiptafélag sem gerir samning við viðskiptavin og samningurinn felur í sér marga þætti, til dæmis allt í senn; afhendingu farsíma, tiltekinn mínútufjölda símtala sem ekki er greitt sérstaklegafyrir, netaðgang og aðgang viðskiptavinarins að tilgreindri þjónustu á áskriftartímabili. Þá getur verið nauðsynlegt að sundurgreina einstaka þætti samningsins og færa tekjur einstakra þátta samningsins sérstaklega.

Nauðsynlegt að stjórnendur félaga, sem beita stöðlunum, fari strax að kynna sér IFRS 15 og greina möguleg áhrif staðalsins. Sem dæmi má nefna að í mörgum tilvikum kann að vera nauðsynlegt að breyta upplýsingakerfum svo hægt sé að nálgast nauðsynlegar upplýsingar, bæði svo unnt sé að sundurgreina einstaka hluta samnings, ef við á, og eins til að afla þeirra upplýsinga sem nauðsynlegar eru fyrir skýringar í ársreikningum, en staðalinn gerir miklar kröfur um upplýsingar.

Að lokum má geta þess að þó IFRS 15 sé mikill að vöxtum er enn ýmsum spurningum ósvarað. Við því var búist og vegna þess hefur verið skipaður alþjóðlegur vinnuhópur sem hefur það markmiði að veita leiðsögn um ýmis álitamál við innleiðingu staðalsins.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 6. nóv. 2014 bls. 12.