Eymundur Sveinn Einarsson
Hver er Eymundur Sveinn Einarsson?
Ég er fæddur og uppalinn í Vesturbæ Reykjavíkur. Ég fluttist í Garðabæ á seinni hluta síðustu aldar og bý við hraunjaðarinn og lækinn á Flötunum. Ég er búinn að vera kvæntur Ásgerði Maríu Óskarsdóttur, áráttuferðalangi og flugfreyju hjá Icelandair síðasta aldarfjórðunginn en samanlagt kannski í 10 ár vegna mikillar fjarveru hennar erlendis í leik og starfi. Ég á þrjú börn, elstur er Einar Alexander tölvunarfræðingur hjá Monerium, Búi Alexander, viðskipta- og tölvunarfræðingur hjá Deloitte og í mastersnámi í fjármálaverkfræði og Birna Dís sem stundar nám í fjármálaverkfræði við Háskólann í Reykjavík.
Menntun og starfsferill
Eftir skólagöngu í hinum goðsagnakennda Landakotsskóla tók við Hagaskóli og síðan Menntaskólinn við Hamrahlíð. Eftir útskrift úr Háskóla Íslands vann ég hjá þeim mikla öðlingi og mentor Gunnari Hjaltalín endurskoðanda til ársins 2000 þegar ég stofnaði eigin stofu, Endurskoðun og ráðgjöf ehf. á Garðatorginu í Garðabæ og hef unnið þar síðan.
Hvers vegna ákvaðstu að verða endurskoðandi?
Þegar ég var 16 ára bauðst mér sumarvinna við bókhald og uppgjör á Hótel Esju. Mér fannst þetta leika í höndunum á mér og reyndar man ég eins og það hefði gerst í gær þegar yfirmaður minn Kristín Jónsdóttir spurði mig af hverju ég yrði ekki einfaldlega endurskoðandi og þannig var búið að lauma þessari hugmynd að mér. Reyndar hafði ég alltaf miklu meiri áhuga á raungreinum og ætlaði alltaf að fara í jarðfræði. Sá áhugi dalaði reyndar þegar ég uppgötvaði að meðal jarðfræðingurinn á þeim tíma keyrði um á Lödu Sport yfirleitt íklæddir lopapeysum með Hagkaupsbelti á buxunum en í dag eru jarðfræðingar eins og rokkstjörnur og geta baðað sig í sviðsljósi fjölmiðlana.
Hvernig er dæmigerður vinnudagur hjá þér?
Án þess að ég sé að stefna að því að vera formlega útnefndur sem íþróttamaður Garðabæjar þá byrjar dagurinn í góðum hópi pilta í Hress í Hafnarfirði. Síðan tekur bara við þessi hefðbundna vinna án þess að hver dagur sé öðrum líkur. Reyndar eins og menn í svipuðum rekstri og ég þekkja er þetta mjög árstíðabundið og ég var einhverntímann spurður hvort ég ynni mikið og ég svaraði því til að ég væri þessi „átta til fjögur týpa“ – viðkomandi fannst nú það ekki mikið þangað til ég benti honum á að ég ætti ekki við frá kl. 8 til 16. Hinsvegar er það nú bara þannig að maður veit ekki alltaf hverju maður á von á þegar maður mætir í vinnuna sem gefur lífinu mikla fjölbreytni en jafnframt áskorun. Verkefni dagsins eru fjölbreytt á sviði endurskoðunar, reikningsskila, skattamála og almennrar ráðgjafar en einnig hefur verið leitað til mín töluvert þar sem ég hef tekið sæti sérfróðs meðdómsmanns bæði hjá Héraðsdómstólum og hjá Landsrétti.
Hvers vegna ákvaðstu að fara í eigin rekstur?
Á þessum tíma um aldamótin voru ekki margir „ungir“ endurskoðendur í eigin rekstri þannig að ég sá mér leik á borði og keypti skrifstofuhúsnæði á Garðatorginu sem ég hef reyndar stækkað vel við síðan. Byrjaði einn fyrstu árin en er núna með um 15 manns í vinnu. Ég hef verið svo heppinn að hafa fengið til liðs við mig framúrskarandi starfsfólk og erum við núna tveir eigendur að fyrirtækinu. Eins og stundum er sagt: „það skiptir engu máli í hvaða rekstri þú ert, heldur með hverjum þú ert“. Þetta hefur hentað mér vel, reksturinn gengið vel og kúnninn sér um að stjórna tímanum alfarið fyrir þig.
Það er ljóst að nýliðun í stétt endurskoðenda er ekki nógu mikil. Hver heldur þú að sé helsta ástæða þess?
Ég tel að það sé fyrst og fremst hversu þetta er of langur, óskilvirkur og ófyrirsjáanlegur ferill að réttindunum. Því miður held ég að stéttin hafi misst af góðu fólki vegna þessa. Það er ótrúlegt að 25 árum eftir að ég tók löggildingu, sem var árið 1999, sé einum færri að útskrifast. Þegar ég kláraði voru það 12 en einungis 11 á síðasta ári, á meðan að viðskiptalífið og allar kröfur á starfsstétt okkar hafa margfaldast. Ég tel einnig að starfið eins og þetta lítur út fyrir marga sé sett upp til að vera of einhæft. Áherslan síðustu árin hefur verið á beina endurskoðun á meðan reikningsskil og almennri þekkingu á skattskilum meðal útskrifaðra endurskoðenda sé gert lægra undir höfði.
Hver eru þín áhugamál?
Þau eru ýmisleg. Fyrst ber að nefna það ömurlega áhugamál að þurfa að vera stuðningsmaður Tottenham Hotspurs, endalaus haust, vetur og vor með stanslausum brostnum væntingum. Einnig fylgi ég Stjörnunni í Garðabæ og reyni að mæta á flesta leiki með þeim bæði heima og að heiman. Ég hef alltaf gaman af því að fara í veiði með góðum vinum og upp á síðkastið hef ég reynt aðeins fyrir mér í golfinu sem er auðveldasta sport í heimi, spaði, kúla og enginn mótherji, gæti ekki verið mikið einfaldara. Ég á mér líka hrikalegt nördasport en það er áhugi á gömlum íslenskum peningaseðlum og á ég orðið þar veglegt safn. Ferðalög með fjölskyldu og vinum innanlands og utan eiga síðan alltaf sinn sess. Árleg skíðaferð til Ítalíu er síðan eitthvað sem ég er orðinn lífstíðaráskrifandi að. Við hjónin eigum síðan sumarhús í Grímsnesinu þar sem við eyðum oft drjúgum tíma.
Hvernig var sumarfríið?
Reyndar á ég þess ekki kost á að taka samfellt frí yfir sumarið heldur reynir maður að dreifa þessu yfir árið. Fyrir utan golfferð til Portúgal í vor og skíðaferð til Ítalíu fórum við ásamt vinafólki í Aðalvík í sumar og áttum þar yndislegan tíma. Framundan er síðan veiðitúr í Deildará á Sléttu, fjölskylduferð til Lago d‘Iseo á Ítalíu í ágúst og golfferð til Spánar í september og væntanlega förum við í heimsókn á truffluslóðir í Toscana í nóvember með góðum vinum.