Árni Valgarð Claessen
Hver er Árni Claessen?
Ég er Reykvíkingur og malbiksbarn sem er uppalinn í Breiðholtinu og elstur af fjórum systkinum. Hins vegar blundar líka í mér sveitamaður og alla barnæskuna og alveg fram yfir tvítugt varði ég öllum sumrum og vetrarfríum í sveit að Efri-Reykjum í Biskupstungum. Hestamennskan átti líka hug minn allan á þessum árum og ég nánast bjó upp í hesthúsi sem við áttum í Víðidalnum. Þegar börnin fóru að mæta lagði ég hins vegar hestamennskuna á hilluna og í staðinn fyrir að temja hesta skipti ég yfir í að ala upp börn sem er ekki síður fjörugt og skemmtilegt. Ég hef núna í rúmlega 15 ár búið í efri byggðunum í Kópavogi og er í sambúð með Lilju Rós Einarsdóttur en við eigum þrjú börn, Önnu Rós 15 ára, Andra 11 ára og Bjarka 8 ára.
Starfsferill
Ég hef ekki alltaf farið alveg hefðbundnar leiðir í lífinu og eftir að hafa klárað Verzlunarskóla Íslands skellti ég mér í búfræðinám við Bændaskólann að Hólum. Það var ótrúlega skemmtilegur tími en eftir að náminu á Hólum lauk hóf ég nám í Viðskiptafræði við Háskóla Íslands. Meðfram náminu fór ég að vinna hjá Ernst og Young sem síðan sameinaðist KPMG. Ég fann að þessi starfsvettvangur átti vel við mig enda eins og við vitum sem störfum við fagið þá er það mjög fjölbreytt og skemmtilegt.
Eftir að ég lauk löggildingunni árið 2003 tók ég aðra nokkuð óvænta beygju og fór í Mastersnám í fjármálum og reikningsskilum við Leeds University enda langaði mig alltaf að prófa að búa erlendis. Þegar náminu í Leeds lauk sótti ég um að komast í starfaskiptaprógramm hjá endurskoðunarsviði KPMG London þar sem ég starfaði síðan í tæp tvö ár. Það var ómetanleg reynsla og upplifun að búa erlendis og tíminn í London var krefjandi en mjög skemmtilegur. Á þessum tíma voru börnin ekki komin og við Lilja nýttum hvert tækifæri til að ferðast og þvælast um vítt og breytt um heiminn. Ég kom síðan til baka árið 2007 hokinn af reynslu eftir árin í Bretlandi og hóf aftur störf á endurskoðunarsviði KPMG þar sem ég hef starfað óslitið síðan. Árið 2017 fann ég hins vegar þörf fyrir að hrista aðeins upp í hlutunum og ég lét gamlan draum frá námsárunum í Leeds rætast og skráði mig doktorsnám við Háskólann í Reykjavík sem ég tók samhliða starfi mínu hjá KPMG. Ég lauk doktorsnáminu í árslok 2022 en hef nú heldur betur ekki sagt skilið við háskólaumhverfið því fljótlega eftir að náminu lauk réð ég mig í hlutastarf sem lektor við Háskóla Íslands.
Það hlýtur að hafa útheimt staðfestu og úthald að klára doktorsnám samhliða vinnu
Jú það er mikið átak að þræla sér í gegnum doktorsnám og brottfallið er hátt. Á móti kemur þá hjálpar það mikið að hafa brennandi áhuga á rannsóknarefninu og ég fékk mikinn stuðning og skilning frá KPMG þrátt fyrir að margir hafi auðvitað klórað sér í hausnum yfir þessu brölti í mér. Að mínu mati er það mikilvægast í svona námi að hafa samfellu og vinna eitthvað aðeins í doktorsverkefninu á hverjum degi. Ég var með aðstöðu upp í HR og þar var ég mættur flesta morgna og las og skrifaði til hádegis. Yfirleitt var ég líka kominn með nóg um hádegið og þá var bara fínt að fara í harkið upp í vinnu. Þegar ég hugsa til baka þá voru þessar stundir upp í HR í raun verðmætar gæðastundir og það að hafa tekið slaginn og ákveðið að fara í doktorsnám er með betri ákvörðunum sem ég hef tekið í lífinu. Svo var ég líka með frábæran leiðbeinanda, Dr. Stefan Wendt sem hélt mér við efnið og rétti af kúrsinn þegar á þurfti að halda.
Í hverju felst starf þitt í Háskóla Íslands?
Í starfsskyldum lektors felst kennsla, leiðbeiningar í lokaverkefnum og rannsóknarskylda. Sjálfur hef ég mestan áhuga á rannsóknum og greinaskrifum enda er það mikið til óplægður akur hérna hjá okkur og mörg spennandi rannsóknartækifæri til staðar. Í vor tók ég síðan að mér umsjón Macc náminu og er gríðarlega spenntur yfir að fá að taka þátt í að þróa það áfram og tengja það enn betur við atvinnulífið og endurskoðunarstéttina. Stærsta verkefnið núna er samt að vinna í að fjölga nemendum í náminu. Fækkun nemenda í Macc náminu er mikið áhyggjuefni og ljóst að miðað við auknar kröfur og verkefnin fram undan hjá endurskoðendum þá stefnir allt í óefni ef við fáum ekki fleiri hendur á dekk.
Hver heldur þú að sé helsta ástæða þess að gengið hafi illa að laða ungt fólk til endurskoðunarstarfa og hvað er til ráða?
Fækkun nemenda í reikningshaldi og endurskoðun er alþjóðlegt vandamál og ástæðurnar fyrir því margþættar. Við erum enn að glíma við neikvæða staðalímynd endurskoðandans þar sem ungt fólk sér fyrir sér einhæft og þurrt starf ásamt miklu vinnuálagi og ábyrgð. Ungt fólk í dag er í mörgum tilvikum með önnur gildi en við sem eldri erum og leggja meira upp úr sveigjanleika og sinna fjölskyldu og áhugamálum frekar en að drukkna í vinnu. Við sem störfum við fagið vitum hins vegar að starfið er fjölbreytt og bíður upp á mikinn sveigjanleika og tækifæri fyrir þá sem velja sér þennan starfsvettvang. Ég held að við þurfum sem stétt að fara í stórátak til þess að kynna um hvað störf endurskoðenda snúast. Við þurfum sérstaklega að beina sjónum okkar að nemendum í grunnnámi sem hafa valið viðskiptafræði. Þá þurfum við einnig að beita okkur fyrir því að grunnnámskeið í reikningshaldi sem kennd eru í háskólunum séu hagnýt, lifandi og skemmtileg og kveikja þannig á áhuga nemenda á faginu. Þarna sé ég fullt af tækifærum til að gera betur og hef brennandi áhuga á að beita mér þarna í gegnum starf mitt hjá HÍ.
En hver eru helstu verkefni þín hjá KPMG þessa dagana?
Ég hef núna í tæp 20 ár verið hluti af frábæru endurskoðunarteymi hjá KPMG og unnið að endurskoðun , reikningsskilum og skattamálum fyrirtækja af öllum stærðum og gerðum. Á síðasta ári gekk ég líka til liðs við sjálfbærniteymi KPMG með áherslu á staðfestingu sjálfbærniupplýsinga. Eins og allir vita er gríðarlegt regluverk að hellast yfir okkur með innleiðingu á sjálfbærnireglum Evrópusambandsins og í raun sé ég þetta eins og snjóhengju sem á eftir að hvolfast yfir okkur. Það er núna mikil vinna í gangi við að skipuleggja og undirbúa okkur fyrir þessa vinnu ásamt því að aðstoða viðskiptavinina fyrir komandi áskoranir. Þetta er nýtt fyrir alla en mér finnst þessi vegferð gríðarlega spennandi og tækifærin eru óþrjótandi hjá okkur endurskoðendum. Endurskoðendur eiga eftir að gegna lykilhlutverki í þeirri hröðu þróun sem nú á sér stað í þessum málaflokki enda eru áreiðanlegar sjálfbærniupplýsingar og staðfesting þeirra grunnurinn að þeirri sjálfbærnivegferð sem er fram undan.
Er eitthvað skemmtilegt fram undan í sumarfríinu?
Við fjölskyldan höfum yfirleitt reynt að fara eitthvað erlendis í sumarfríum og síðasta sumar lögðumst við í rúmlega 3 vikna ferðalag þar sem við keyrðum um Bretland. Það er skemmtilegt að ferðast um Bretland og mun einfaldara að keyra og ferðast þar heldur en margir halda svo ég mæli hiklaust með því. Það er ekki búið að negla niður utanlandsferðir í sumar en ef veðrið fer ekki eitthvað að lagast er ekkert annað í boði en að drífa sig eitthvað suður á boginn. Við erum líka með tvo stráka í fótbolta sem þýðir að skipulag sumarfrísins er að einhverju leyti í höndunum á KSÍ þar sem við eltum fótboltamótin.