Fjöldi tvísköttunarsamninga - Ísland rekur enn lestina
Af 30 ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins (EES), þá er Ísland í 29. sæti yfir fjölda tvísköttunarsamninga við önnur ríki. Aðeins Liechtenstein er með færri samninga, en Liechtenstein fór ekki að leita eftir að gera tvísköttunarsamninga við önnur ríki fyrr en árið 2009.[1] Það er því varla hægt að segja annað en að Ísland reki lestina að þessu leyti. Sjá meðfylgjandi töflu yfir fjölda ríkja sem ríki EES hafa gert tvísköttunarsamninga við og tekið hafa gildi.
Undirritaður skrifaði sams konar blaðagrein á árinu 2015 og sýnir taflan einnig stöðuna sem var þá. Ísland var líka í næst síðasta sæti 2015. Hækkun um eitt sæti kemur til vegna útgöngu Bretlands, en Bretland hafði þá og nú gert fleiri tvísköttunarsamninga en nokkurt ríki á þessum lista. Sviss er ekki hluti ESS, en er bara eftirbátur Bretlands og Frakklands að þessu leyti.
Hvað er tvísköttunarsamningur? Almennt leggja ríki á skatta á aðila út frá tveimur forsendum. Annars vegar vegna uppruna teknanna, þ.e. ríkið þar sem tekjurnar eru upprunnar leggur á þær skatt. Hins vegar vegna heimilisfesti móttakanda teknanna, þ.e. ríkið þar sem móttakandinn á heimili leggur á þær skatt. Án tvísköttunarsamnings, leiðir framangreint til þess að tekjur, sem maður heimilisfastur í ríki 1 aflar í ríki 2, verða skattskyldar í báðum ríkjum. Tvísköttunarsamningur leysir úr slíkri tvískattlagningu. Samið er um að tekjurnar skattleggist aðeins einu sinni, en ekki tvisvar.
Fjöldi tvísköttunarsamninga skiptir máli í samkeppni ríkja um fjárfestingar og fyrirtæki. Fjöldi tvísköttunarsamninga skiptir máli þegar fyrirtæki ákveða í hvaða lögsögum þau staðsetja höfuðstöðvar, eignarhaldsfélög eða starfsemi. Fáir tvísköttunarsamningar Íslands samanborið við fjölda samninga annarra ríkja dregur því óumdeilanlega úr samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum ríkjum um fjárfestingar og fyrirtæki.
Fjöldi tvísköttunarsamninga skiptir máli í samkeppni ríkja um fjárfestingar og fyrirtæki. Fjöldi tvísköttunarsamninga skiptir máli þegar fyrirtæki ákveða í hvaða lögsögum þau staðsetja höfuðstöðvar, eignarhaldsfélög eða starfsemi. Fáir tvísköttunarsamningar Íslands samanborið við fjölda samninga annarra ríkja dregur því óumdeilanlega úr samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum ríkjum um fjárfestingar og fyrirtæki.
Ísland er því miður ekki í góðri stöðu að þessu leyti. Ísland hefur t.d. aldrei haft gilda samninga við fimm ríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Ástralíu, Ísrael, Nýja-Sjáland, Síle og Tyrkland. Ef litið er til þeirra 50 ríkja sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) áætlar að verði með mesta verga landsframleiðslu 2021 þá er Ísland einungis með tvísköttunarsamninga við minnihluta þeirra eða við 24 ríkjanna.
Það er umhugsunarefni af hverju Ísland er með svo fáa tvísköttunarsamninga. Nú eru önnur EES-ríki með fáa íbúa og lítil hagkerfi, eins og t.d. Lúxemborg og Malta en samt með áberandi fleiri gilda tvísköttunarsamninga, 83 (Lúxemborg) og 77 (Malta) á móti 45 samningum Íslands. Þá vekur athygli að á listanum eru fámenn ríki sem urðu ekki sjálfstæð fyrr en á tíunda áratug 20. aldar en eru þrátt fyrir það með umtalsvert fleiri gildandi samninga en Ísland, eins og t.d. Eystrasaltsríkin þrjú.
Símon Þór Jónsson, sviðsstjóri Skatta- og lögfræðisviðs EY
[1] Íbúafjöldi Liechtenstein er svipaður og íbúafjöldi Kópavogs og landið er einungis 160 ferkílómetrar að stærð.