Félag löggiltra endurskoðenda stofnaði sérstakan námsstyrkjasjóð vorið 2003 til þess að treysta menntunargrundvöll endurskoðenda og veita styrki til framhaldsnáms í endurskoðun og reikningsskilum. Hlutverk sjóðsins var svo útvíkkað árið 2014 til þess að geta stutt við rannsóknir á sama sviði.

FLE styrkir bæði nám og rannsóknir

Sigurður B Arnþórsson Framkvæmdastjóri Félags löggiltra endurskoðenda

Félag löggiltra endurskoðenda stofnaði sérstakan námsstyrkjasjóð vorið 2003 til þess að treysta menntunargrundvöll endurskoðenda og veita styrki til framhaldsnáms í endurskoðun og reikningsskilum. Við veitingu námsstyrkja skal við það miðað að styrkþegar hafi lokið bóklegu námi til löggildingar sem endurskoðendur og ætli sér framhaldsnám á því sviði. Styrkir til stofnana skulu tengjast doktorsnámi. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór fram haustið 2010 en þá hlaut Markús Ingólfur Eiríksson veglegan styrk úr sjóðnum til doktorsnáms.

Hlutverk sjóðsins var svo útvíkkað árið 2014 til þess að geta stutt við rannsóknir á sama sviði. Styrkir úr sjóðnum eru því nú af tvennum toga; námsstyrkir og rannsóknarstyrkir. Við veitingu námsstyrkja skal við það miðað að styrkþegar hafi lokið bóklegu námi til löggildingar sem endurskoðendur og ætli sér framhaldsnám á því sviði. Styrkir til stofnana skulu tengjast doktorsnámi. Styrkir til stofnana geta einnig verið í þeim tilgangi að kosta að hluta til eða í heild einstaklinga við kennslu eða fræðastarf innan háskólasamfélagsins enda samræmist slík styrkveiting markmiðum sjóðsins. Við veitingu rannsóknarstyrkja skal horfa til þess að vísindalegt gildi fyrirhugaðra rannsókna skal vera ótvírætt og tengsl verkefnisins við markmið sjóðsins augljós.
Markmið Námsstyrkja- og rannsóknarsjóðsins er að:


• Styrkja bóklega menntun endurskoðenda með því að veita ýmist styrki til einstaklinga sem stunda framhaldsnám í endurskoðun og reikningsskilum eða styrkja stofnanir sem standa fyrir slíku námi.
• Veita styrki til eflingar rannsókna á sviði reikningshalds og endurskoðunar í þeim tilgangi að efla faglega umræðu um efnið, viðhalda og auka faglega þekkingu endurskoðenda eða styrkja rannsóknir sem snerta beint hagsmuni FLE eða lögbundið hlutverk þess.

Vorið 2015 auglýsti stjórn Námsstyrkja- og rannsóknarsjóðs eftir umsóknum í sjóðinn. Stjórn sjóðsins mat síðan umsóknir eftir þar til gerðu matsferli og ákvað að styrkja tvo aðila að þessu sinni.

Fyrra verkefnið er styrkur til HÍ vegna rannsóknarverkefnis um gæði reikningsskila og mikilvægra forsenduþátta fyrir gæðum endurskoðunar sem Ásgeir B. Torfason lektor við Háskólann í Reykjavík og Sigurjón G. Geirsson löggiltur endurskoðandi, standa að. Heildarfjárhæð styrksins er tvær milljónir.

Verkefni þeirra Ásgeirs og Sigurjóns byggist á rammaumgjörð Alþjóðlega staðlaráðsins (IAASB) um gæði endurskoðunar. Einnig verður byggt á skilgreiningum IFAC á hlutverki og ábyrgð þeirra ólíku aðila sem mynda keðju sem ætlað er að tryggja að fjárhagsupplýsingar séu áreiðanlegar, nýtist við ákvarðanatöku og gefi rétta mynd af fjárhagsstöðu og rekstrarhæfi fyrirtækja. Markmiðið er að nýta umgjörð IAASB um gæði endurskoðunar og skilgreiningar IFAC um þætti sem áhrif geta haft á gæði reikningsskila og rannsaka í ljósi íslenskra aðstæðna. Á grundvelli rannsóknarinnar verður tekið saman efni sem nýtt verður í kennslu á háskólastigi hérlendis.

Seinna verkefnið er styrkur til Háskólans á Bifröst vegna samanburðarrannsóknar á endurskoðunarnefndum, starfsumhverfi þeirra og umfangi sem Einar Guðbjartsson og Jón Snorri Snorrason standa að. Einar er dósent og forstöðumaður meistaranáms í reikningsskilum og endurskoðun við viðskiptafræðideild HÍ og Jón Snorri er lektor í Háskólanum á Bifröst. Heildarfjárhæð styrksins er ein og hálf milljón. Meginmarkmið verkefnis Einars og Jóns Snorra er að safna gögnum um starfshætti endurskoðunarnefnda hjá fyrirtækjum, sem skylt er að hafa slíkar nefndir samkvæmt lögum.

Samningarnir voru nýlega undirritaður af formanni FLE, Margréti Pétursdóttur og styrkþegum. Styrkþegar skuldbundu sig til að fjalla um rannsóknir sínar á vettvangi FLE væri þess óskað. Stjórn sjóðsins bindur miklar vonir við að styrkirnir verði til þess að styrkja fræðasamfélagið og háskólana þannig að endurskoðendur njóti góðs af. Nánari upplýsingar um Námsstyrkja- og rannsóknarsjóð FLE má finna á heimasíðu félagsins www.fle.is

 

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 18. feb. 2016
18.02.2016