Flokkunarreglugerð ESB
Ekki þarf lengur að rökræða um áhrif loftslags- og umhverfisbreytinga á heiminn þar sem þau eru orðin greinileg, og stjórnmálaleiðtogar, sérfræðingar og almenningur keppast um að leggja sitt af mörkum til að draga úr losun og halda hlýnun jarðar innan byggilegra og lífvænlegra marka. Áhættan sem fylgir þessum breytingum ógnar ekki einungis vistkerfi og félagslegum þáttum heldur einnig hagkerfinu. Til þess að ná fram skuldbindingum Parísarsamningsins og því markmiði að verða fyrsta kolefnishlutlausa heimsálfan, kom Evrópusambandið (ESB) fram með svokallaðan Green Deal sáttmála árið 2019 um sjálfbært hagkerfi, sem byggir í stuttu máli á þeim meginmarkmiðum að engin nettólosun gróðurhúsalofttegunda muni eiga sér stað, að hagvöxtur verði ekki beintengdur auðlindanotkun og að enginn yrði skilinn eftir þegar umbreytingin yfir í sjálfbærara hagkerfi mun eiga sér stað. Til þess að fjármagna sáttmálann og auðvelda nauðsynlega umbreytingu yfir í grænt og kolefnishlutlaust hagkerfi hefur ESB komið fram með ýmsar áætlanir. Sú fyrsta snýr að flokkunarkerfi fyrir sjálfbæra starfsemi (e. EU Taxonomy) og var sett fram í reglugerð árið 2020.
Hvað er flokkunarreglugerð ESB?
Flokkunarreglugerð ESB snýst í stuttu máli um að skilgreina hvaða atvinnustarfsemi telst vera umhverfislega sjálfbær með það að markmiði að hjálpa fjárfestum og fyrirtækjum að taka upplýstar fjárfestingarákvarðanir, stuðla að gagnsæi í upplýsingagjöf og koma í veg fyrir grænþvott. Til þess að hægt sé að markaðssetja fjármálaafurðir sem sjálfbærar þurfa sjálfbærniviðmið að vera samræmd (e. aligned). Reglugerðin tekur til sex umhverfismarkmiða; mildun loftslagsbreytinga, aðlögun að loftslagsbreytingum, sjálfbæra notkun og verndun vatns og auðlinda sjávar, umskipti yfir í hringrásarhagkerfi, mengunarvarnir og eftirlit, og vernd og endurheimt líffræðilegrar fjölbreytni og vistkerfa. Frekari útlistun á markmiðunum felst í svokölluðum tæknilegum matsviðmiðum sem birtar eru í framseldum reglugerðum með flokkunarreglugerðinni. Til þess að starfsemi teljist vera umhverfislega sjálfbær þarf hún í fyrsta lagi að tilheyra atvinnugrein sem fellur undir reglugerðina. Dæmi um starfsemi sem nú þegar fellur undir er hráframleiðsla, framleiðsla, geymsla og flutningur orku, vatns-og fráveita, byggingastarfsemi og flutningastarfsemi. Sýna þarf fram á að í starfseminni felist verulegt framlag til einhvers af umhverfismarkmiðunum, en hún má að sama skapi ekki valda umtalsverðu tjóni á öðrum markmiðum. Að lokum þarf að vera hægt að sýna fram á að starfsemin sé í samræmi við lágmarksverndarráðstafanir alþjóða félags- og vinnuréttar, auk mannréttinda.
Birting upplýsinga
8. grein flokkunarreglugerðarinnar mælir fyrir um upplýsingaskyldu fyrirtækja. Fyrirtæki skulu birta upplýsingar um hlutfall veltu, fjárfestingarútgjalda (e. Capex) og rekstrarútgjalda (e. Opex) sem tengjast afurð eða þjónustu sem annars vegar fellur undir reglugerðina, óháð sjálfbærnistöðu starfseminnar og hins vegar hversu mikið hlutfall uppfyllir skilyrðin um að vera umhverfislega sjálfbær, auk allra viðbótarupplýsinga sem fylgja. Birta skal upplýsingarnar í skýrslu eða samstæðuskýrslu yfir ófjárhagsleg atriði og ef að fyrirtæki birta ófjárhagslegar upplýsingar í sérstakri skýrslu, t.d. sjálfbærniskýrslu, skulu upplýsingarnar vera birtar þar.
Staðfesta þarf með gögnum að starfsemin falli undir reglugerðina, þ.e. nauðsynlegt er að skjala gögn til sönnunar á réttri flokkun, sem kallar á ítarlega og greinagóða gagnasöfnun. Nauðsynlegt er að hægt sé að rökstyðja mat og aðferðafræði skjölunarinnar, og verður þetta krafa þegar tilskipun ESB um sjálfbærniskýrslugerð fyrirtækja tekur gildi (Corporate Sustainability Reporting Directive, CSRD). CSRD gerir kröfu um staðfestingu upplýsinga af hálfu óháðs ytri aðila (endurskoðanda). CSRD tilskipunin tók gildi innan ESB í janúar 2023 og er nú til skoðunar hjá sameiginlegu EES nefndinni, svo búast má við innleiðingu hér á landi áður en langt um líður.
Á Íslandi tók flokkunarreglugerðin gildi með lögum nr. 25/2023 í júní sl. og gildir frá og með fjárhagsárinu 2023 til birtingar árið 2024. Undir hana falla sömu aðilar og þeim sem ber skylda til að skila upplýsingum skv. gr. 66 d laga um ársreikninga nr. 3/2006. Seðlabanki Íslands er lögbært stjórnvald í skilningi reglugerðarinnar, ársreikningaskrá fer með eftirlit eftir fyrirtækjum sem eru ekki á fjármálamarkaði.
Áskoranir og næstu skref
Þegar reglugerð, sem fjallar um eins vítt málefni og umhverfislega sjálfbærni, og fer þvert á atvinnustarfsemi, lítur dagsins ljós er óhjákvæmilegt að henni fylgi ákveðnar áskoranir. Flækjustig reglugerðarinnar hefur reynst vera hátt og fyrirtæki hafa átt í erfiðleikum með að túlka hana upp á sitt einsdæmi. Á sama tíma er til staðar hætta á óbeinum grænþvotti meðan upplýsingagjöfin er ekki staðfest af þriðja aðila, þó svo að líkurnar séu e.t.v. ekki miklar ef fyrirtæki vill ekki eiga á hættu að miklar breytingar verði á upplýsingagjöf eftir að endurskoðun kemur til sögunnar. Að endingu hafa komið upp áskoranir tengdar túlkun, bæði um hvað telst vera hæf starfsemi í skilningi reglugerðarinnar og hvernig túlka beri tæknileg matsviðmið ef þau eru byggð á megindlegri upplýsingagjöf.
Hér á Íslandi bætist svo við að stór hluti tæknilegu matsviðmiðanna byggir á Evrópulöggjöf, sem í mörgum tilfellum hefur annað hvort ekki verið tekin upp í EES-samninginn eða ekki verið innleidd hér á landi. Það skapar tvöfalda áhættu, í fyrsta lagi að fyrirtæki birti ekki upplýsingar um umhverfislega hæfa starfsemi í ljósi lagalegs ómöguleika, sem síðan smitar út frá sér til annarrar sjálfbærniupplýsingagjafar aðila á fjármálamarkaði og gæti dregið úr fjármögnunarmöguleikum og -kjörum þeirra. Í öðru lagi er hætta á að fyrirtæki taki uppá sitt einsdæmi að koma fram með staðgengilsrök sem ekki hafa verið staðfest af stjórnvöldum. Sé stuðst við slík rök er aftur gengið gegn tilgangi flokkunarreglugerðarinnar, þar sem ekki næst að uppfylla þá samræmingu sem hún gerir kröfu á, sem einnig eykur líkur á grænþvotti.
Æskilegast væri að stjórnsýslan tæki sig saman þvert á málaflokka og kæmi fram með leiðbeiningar til fyrirtækja og veitti upplýsingar, eins og t.d. hefur verið gert í Noregi, til að íslensk fyrirtæki geti fullvissað sig um að þau séu í raun og veru í fylgni við reglugerðina þrátt fyrir að lagalegir vankantar séu til staðar.
Fleiri tæknileg matsviðmið, sem taka til annarra umhverfismarkmiða en loftslagsbreytinga, tóku gildi innan ESB fyrir árið 2023 og því má vænta innleiðingar hér á landi fyrr en síðar. Í því felst að upplýsingagjöfin mun ná til fleiri sviða atvinnulífsins, til dæmis hótelreksturs, sölu varahluta, framleiðslu á lyfjavörum og flugsamgangna. Að auki er hafin vinna við að koma á fót stöðluðu félagslegu flokkunarkerfi, sem mun horfa frekar til félagslega sjálfbærra fjárfestingakosta, auk vinnu við að útvíkka umhverfislegu flokkunarreglugerðina enn frekar svo hún taki jafnt á starfsemi sem ekki er fyrirséð að verði nokkurn tímann umhverfislega sjálfbær, sem og starfsemi sem hefur lítil umhverfisáhrif. Það er því ljóst að flokkunarreglugerðin og sjálfbær fjármál eru komin til að vera og munu áhrif hennar einungis aukast í komandi framtíð, sem vonandi skilar sér í umhverfisvænni starfsemi og lífvænlegri heimi fyrir okkur öll.