Frekar um nýjan staðal um fjármálagerninga
Þann 4. desember s.l. ritaði ég grein í Morgunblaðið sem fjallaði um nýjan staðal um fjármálagerninga sem Alþjóðlega reikningsskilaráðið samþykkti þann 24. júlí 2014 og tekur gildi 1. janúar 2018. Þar kom fram að staðallinn skiptist í þrjá hluta; flokkun, mat og virðisrýrnun eigna sem mun, skv. nýja staðlinum sem ber heitið IFRS 9, gera ráð fyrir að meta eigi vænt tap í stað þess að gera eingöngu ráð fyrir áföllnu tapi og er það grundvallarbreyting frá fyrri reglum. Gert er ráð fyrir að breytingin auki niðurfærslurnar frá því sem verið hefur og að tap verði fært í reikningsskilin fyrr en skv. eldri reglum.
Þann 9. janúar s.l. setti Evrópusambandið það á dagskrá að taka staðalinn til samþykktar á seinni hluta þessa árs þannig að nú má vænta þess að hann muni hafa lagalegt gildi á Íslandi fyrir lok árs 2015. Það þýðir að félög sem beita IFRS við samningu ársreiknings þurfa hið minnsta að áætla áhrifin af upptöku staðalsins við samningu ársreiknings vegna ársins 2015, en einnig er heimilt að innleiða staðalinn fyrr óski félög þess. Bankar í Evrópu og víðar eru um þessar mundir að hefja undirbúning innleiðingar-innar sem krefst í mörgum tilvikum viðamikillar vinnu, ekki eingöngu á sviði útreikninga, heldur einnig hvað varðar söfnun upplýsinga, hönnun líkana, endurbóta á upplýsingakerfum og endurhönnun innri ferla varðandi ábyrgðir, yfirferð og samþykki væntrar niðurfærslu.
Hinn nýi staðall gerir mun ríkari kröfur til semjenda reikningsskilanna en sá sem hann leysir af hólmi þar sem gert er ráð fyrir að við mat á niðurfærslu beri að leggja mat á líkur á framtíðartapi og er mikið rými til túlkana innan staðalsins. Til að bregðast við þessu og auka samræmingu í innleiðingu hefur Baselnefndin tilkynnt að gefnar verði út leiðbeiningar um það hvernig á að beita staðlinum og eru fyrstu drög þeirra nú þegar komin út. Leiðbeiningunum er ekki beint til banka heldur til eftirlitsstofnana þeirra, eins og Fjármálaeftirlitsins (FME), en í reglunum eru gefnar leiðbeiningar um hvernig eftirlitinu skuli hagað. Leiðbeiningarnar eru ætlaðar svokölluðum „internationally active banks“ og því ekki ljóst hvort þær muni hafa áhrif hér á landi en ætla má að FME líti til þeirra við sitt eftirlit.
Í reglunum er gert ráð fyrir að strax í upphafi beri að færa vænt útlánatap vegna næstu 12 mánaða og ef breyting verður á áhættuflokkun lánsins til hins verra frá því að lánveitingin átti sér stað ber að færa vænt tap á líftíma lánsins. Þeir sem beita staðlinum þurfa því í upphafi að áætla hverjar eru taldar líkurnar á framtíðartapi og hvaða fjárhæð gæti tapast, áætla líkur á hinum ýmsu niðurstöðum og vega þær saman.
Sumir bankar búa nú þegar yfir kerfum og líkönum sem notuð hafa verið við útreikninga skv. Basel sem hægt er að vinna áfram og aðlaga en aðrir búa ekki yfir neinu slíku og þurfa því að finna lausnir til að fylgja staðlinum án óheyrilegs tilkostnaðar. Það er ljóst að hin ýmsu líkön, hvort sem þau verða flókin eða einföld, geta leitt til mismunandi niðurstöðu þrátt fyrir að vera beitt á sömu gögn og er ástæðan sú að hægt er að gefa sér misjafnar forsendur í matinu. Þetta leiðir til þess að samanburður á milli banka verður meira krefjandi. Alþjóðanefndinni er þetta ljóst og hefur vegna þessa gert auknar kröfur til skýringa og þurfa félög að huga að því tímanlega að hægt verði að nálgast upplýsingar til að semja skýringarnar sem gerð er krafa um.
EY í Bretlandi hefur gert grófa greiningu á áhrifum innleiðingarinnar á fjóra stóra banka þar í landi og er niðurstaða þeirrar greiningar sú að um töluverða hækkun á niðurfærslu verði að ræða við innleiðinguna sem er í takt við væntingar um að niðurfærslur muni hækka. Bankar hér á landi hafa hafið undirbúning innleiðingarinnar en of snemmt er að segja til um vænt áhrif innleiðingarinnar að svo stöddu.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 26. febrúar 2015 bls. 12.