Fyrir hvað stendur Félag löggiltra endurskoðenda?
Félag löggiltra endurskoðenda var stofnað hinn 16. júlí 1935 og er því áttatíu ára á þessu ári.Félags-menn eru um 400 og þar af eru um 25% konur. Í lögum um endurskoðendur ( 79/2008) er kveðið á um að endurskoðendur hafi með sér fagfélag og er öllum endurskoðendum skylt að vera þar félagsmenn. Lagalegt hlutverk félagsins er að stuðla að faglegri framþróun í endurskoðun og skyldum greinum en í lögunum kemur einnig fram að félagið komi fram fyrir hönd endurskoðenda gagnvart dómstólum og stjórnvöldum um þau málefni sem stétt þeirra varða. Auk þess fer félagið með ýmis verkefni í samráði við Endurskoðendaráð svo sem; að setja siðareglur fyrir endurskoðendur að fenginni staðfestingu ráðherra á reglunum; halda reglulega námskeið sem fullnægja kröfum um endurmenntun; halda skrá yfir endurmenntun endurskoðenda; annast gæðaeftirlit með störfum þeirra; halda skrá yfir gildandi starfsábyrgðartryggingu endurskoðenda og að lokum halda skrá um þá starfsmenn sem eru í starfsþjálfun.
Tilgangur félagsins samkvæmt samþykktum þess er margvíslegur og snýr að því að viðhalda og auka faglega þekkingu félagsmanna og samræma vinnubrögð þeirra. Því er ætlað að vinna að bættri þjónustu félagsmanna við viðskiptavini sína og vinna að því að almennt aðhald sé með starfsemi og framkvæmd starfa endurskoðenda. Félaginu er líka ætlað að vera í forsvari fyrir félagsmenn sem heild á opinberum vettvangi, vinna að kynningu á starfssviði félagsmanna og gæta hagsmuna félagsmanna sem tengjast störfum þeirra sem endurskoðenda og fleira mætti upp telja.
Innan félagsins starfa sex fastanefndir og er hlutverk þeirra eftirfarandi:
- Álitsnefnd, sem hefur það hlutverk að láta uppi fyrir félagsins hönd rökstutt álit um hvers konar fyrirspurnir varðandi starfssvið endurskoðenda, sem fyrir félagið kunna að verða lagðar af Alþingi, framkvæmdavaldi ríkisins, dómstólum, samtökum, einstökum félagsmönnum eða viðskiptamönnum þeirra.
- Endurskoðunarnefnd, hefur það hlutverk að fylgjast með þróun endurskoðunar hér á landi sem erlendis og vinna að samræmingu á þeim störfum félagsmanna, sem varða endurskoðun almennt. Jafnframt skal nefndin fylgjast með þróun siðareglna endurskoðenda á alþjóða-vettvangi og gera tillögur að breytingum á siðareglum FLE ef tilefni er til.
- Reikningsskilanefnd, hefur það hlutverk að fylgjast með þróun reikningsskila hérlendis og erlendis og vinna að samræmingu á þeim störfum félagsmanna, sem varða reikningsskil almennt.
- Menntunarnefnd, hefur það hlutverk að fylgjast með menntun og endurmenntun á starfssviði endurskoðenda og hlutast til um að nægilegt framboð sé á hverjum tíma til endurmenntunar, samkvæmt lögum um endurskoðendur, í samráði við stjórn félagsins og fagnefndir.
- Skattanefnd, hefur það hlutverk að fylgjast með meiriháttar breytingum á skattalöggjöf og reglugerðum og kynna fyrir félagsmönnum sem og að sjá um samskipti við skattyfirvöld í samráði við stjórn félagsins.
- Gæðanefnd, hefur það hlutverk að annast gæðamál félagsins þar á meðal að stýra gæðaeftirliti sem félaginu er gert að framkvæma samkvæmt lögum um endurskoðendur.
Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil alþjóðavæðing og samræming á vinnu endurskoðenda. Félag löggiltra endurskoðenda hefur verið þar í lykilhlutverki í því að koma upplýsingum frá erlendum fagfélögum til félagsmanna sinna og stuðla þannig að faglegri framþróun í endurskoðun á Íslandi. Félagið er aðili að alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) en þau samtök gefa út alþjóðlega endurskoðunarstaðla sem endurskoðendum ber að fara eftir. Félagið er einnig aðili að Evrópusambandi endurskoðenda (FEE) og Norræna endurskoðendasambandinu (NRF) og tekur virkan þátt í því samstarfi sem þar fer fram.
Á heimasíðu félagsins má finna ýmsar fróðlegar upplýsingar um félagið sem og ýmislegt faglegt efni og greinar. Þar er jafnframt að finna skrá yfir alla endurskoðendur á landinu.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 19. febrúar 2015 bls. 12.