Hvað þarf til þess að verða endurskoðandi?
Endurskoðun sem starfsgrein á sér rétt rúmlega 90 ára sögu á Íslandi. Flestir telja að byrjunina mega rekja til þess þegar Niels Manscher hóf rekstur endurskoðunarskrifstofu í eigin nafni í Reykjavík árið 1924 en fyrirtæki með hans nafni var með rekstur í Reykjavík allt til ársins 1992 þegar nafninu var breytt í Coopers & Lybrand. Starfsumhverfi endurskoðanda hefur breyst mikið á undanförnum áratugum þó svo að hlutverk þeirra sé það sama í dag og fyrir 90 árum.
Í lögum um endurskoðendur nr. 79/2008 er endurskoðandi skilgreindur sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til starfa við endurskoðun og fullnægir að öðru leyti skilyrðum laga um endurskoðendur.
Til að hljóta löggildingu sem endurskoðandi þarf einstaklingur að hafa lokið meistaranámi í endurskoðun og reikningsskilum sem viðurkennt er af endurskoðunarráði. Þá verður viðkomandi aðili að hafa lokið þriggja ára starfsþjálfun, þar sem hann starfar undir handleiðslu endurskoðanda við endurskoðun ársreikninga og annarra reikningsskila hjá endurskoðunarfyrirtæki. Einnig er það skilyrði fyrir veitingu löggildingar að aðili hafi staðist sérstakt löggildingarpróf en próf til löggildingar í endurskoðun eru að jafnaði haldið einu sinni á ári sem er í höndum prófnefndar sem skipuð er af endurskoðunarráði.
Önnur skilyrði sem gerð eru fyrir löggildingu í lögum nr. 79/2008 um endurskoðendur eru að aðili þarf að eiga lögheimili hér á landi, eða vera ríkisborgari aðildarríkis að Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríkis stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyja, vera lögráða og hafa forræði á búi sínu síðastliðin þrjú ár, hafa óflekkað mannorð, svo sem áskilið er til kjörgengis til Alþingis og hafa starfsábyrgðartryggingu.
Til að verða endurskoðandi í dag þarf fólk því að byrja á því að klára BS próf í viðskiptafræðum eða öðrum álíka greinum og leggja svo fyrir sig meistaranám á sviði endurskoðunar og reikningsskila. Bæði Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík bjóða upp á meistaranám á þessu sviði sem lýkur með prófgráðunni M.Acc. Til viðbótar þessu þarf svo viðkomandi aðili að komast í þriggja ára starfsþjálfun hjá endurskoðunarfyrirtæki eða endurskoðanda. Algengt er að nemendur séu í hlutastarfi með meistaranáminu og er mikil aðsókn eftir slíkum störfum hjá öllum endurskoðunarfyrirtækjum. Þegar viðkomandi aðili telur sig reiðubúinn skráir hann sig í löggildingarprófin sem eru venjulega haldin á haustin. Ef að viðkomandi nær prófinu og hlýtur þar með löggildingu sem endurskoðandi á hann fimm ára háskólanám og að lágmarki þriggja ára starfsreynslu að baki. Það að verða endurskoðandi er því bæði langur og strangur ferill sem tekur að lágmarki 6-8 ár.
Eftir að aðili hefur öðlast löggildingu til endurskoðunarstarfa er honum skylt að sækja endurmenntun sem tryggir að hann viðhaldi reglulega fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og faglegum gildum. Endurmenntun skal að lágmarki svara til 20 klukkustunda á ári og samtals 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili, Endurmenntunin liggur á fjórum sviðum sem eru: Endurskoðun, reikningsskil og fjármál, skatta- og félagaréttur og siðareglur og fagleg gildi.
Samkvæmt opinberri skrá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins yfir endurskoðendur eru starfandi um 320 aðilar sem hafa hlotið löggildingu sem endurskoðendur á Íslandi.