Hvar eru endurskoðendur?
Endurskoðendur á Íslandi hafa með sér fagfélag sem nefnist Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) og er öllum endurskoðendum skylt að vera þar félagsmenn samkvæmt 12. gr. laga um nr. 79/2008 um endurskoðendur. FLE heldur skrá á heimasíðu sinni yfir þá sem í félaginu eru og er þar með mjög aðgengilegum hætti hægt að fletta um einstökum endurskoðendum og hvar þeir starfa.
Töluvert er um það í daglegu tali að orðið endur-skoðandi sé notað yfir bæði bókara, reiknings-haldara, endurskoðendur og aðra aðila sem veita þjónustu er varðar reikningsskil félaga og ekki gera allir sér grein fyrir að um misjafnar stéttir er að ræða með mismunandi menntun og bakgrunn. Til þess að öðlast réttindi sem löggiltur endurskoðandi þarf að uppfylla ýmsar skyldur og að þeim uppfylltum gefur ráðherra út löggildingu til endurskoðunarstarfa.
Til þess að fá úr því skorið hvort um endurskoðanda er að ræða eða ekki er handhægt að fletta upp í fyrrnefndri skrá á heimasíðu félagsins og kanna hvort aðili sem gefur sig út fyrir að vera endurskoðandi sé þar skráður. Bókarar annast almennt séð bókhald og gerð ársreikninga en geta líka tekið að sér að skatt-framtöl og aðra tengda þjónustu. Endurskoðendur endurskoða og árita hins vegar ársreikninga og er mikill munur þar á, bæði hvað varðar lagalega skyldu og ábyrgð. Endurskoðendur taka jafnframt að sér alla almenna bókhaldsaðstoð sem og ýmsa sérfræði-ráðgjöf sem tengist fjármálum einstaklinga og fyrirtækja.
Félagsmenn FLE voru í lok síðasta starfsárs 406, þar af 21 nemi, en nemar hafa aukaaðild að félaginu. Af þessum 385 félagsmönnum sem eru löggiltir endurskoðendur eru karlar í meirihluta eða 289 talsins en konurnar eru 96 eða fjórðungur félags-manna. Konur sækja í sig veðrið í þessari stétt, en þess má geta að félagið var stofnað 1935 en fyrsta konan fékk löggildingu til endurskoðunarstarfa og inngöngu í félagið árið 1975.
Flestir félagsmenn vinna hjá endurskoðunar- fyrirtækjum eins og gefur að skilja eða um 260 eða 68% félagsmanna. Það er athyglisvert þegar kynjahlutfallið er skoðað að 73% kvenna í stéttinni starfa hjá endurskoðunar fyrir-tækjum miðað við 66% karla. Á Íslandi starfa nokkur alþjóðleg endurskoðunarfyrirtæki – stærst þeirra eru: KPMG, Deloitte, PricewaterhouseCoopers og (EY) Ernst & Young. Um 60 prósent starfandi endurskoðenda eru í vinnu hjá þessum fjórum stærstu endurskoðunar-fyrirtækjunum og því um 40% hjá öðrum endur-skoðunarfyrirtækjum. Það er áhugavert að sjá þá þróun að minni endurskoðunarfyrirtækin fara stækkandi því undanfarin ár hafa þau verið að sameinast og færa út kvíarnar og hefur því fækkað nokkuð.
Þá eru ótaldir þeir félagsmenn sem starfa eða eru utan endurskoðunarfyrirtækja en þeir voru í lok síðasta starfsárs 124 talsins eða 32% félagsmanna. Löggiltir endurskoðendur eru eftirsóttur starfskraftur hjá fyrirtækjum landsins og gegna þeir oft stöðu fjár-málastjóra fyrirtækja eða sem innri endurskoðendur. Sumir starfa einnig sem forstjórar fyrirtækja enda búa þeir yfir góðri greiningarhæfni og eru að sjálfsögðu vel læsir á kennitölur og rekstur sem allt eru góðir hæfileikar í slík störf. Það má segja að nánast öll fjármálafyrirtæki og flest stóru fyrirtækin hafi endurskoðanda í vinnu hjá sér. Þá starfa endurskoðendur einnig hjá hinu opinbera og ber þar að sjálfsögðu hæst Ríkisendurskoðun. Þá eru endurskoðendur hjá öðrum stofnunum eins og Fjármálaeftirlitinu og Fjársýslu ríkisins svo fátt eitt sé nefnt.
Nýliðun í stéttinni er háð því hversu margir standast löggildingarprófin sem haldin eru á hverju hausti. Undanfarin ár hafa að jafnaði um 30% þeirra sem þreyta prófin náð lágmarkseinkunn, enda prófin erfið og krafan um lágmarkseinkunn há. Það eru því um 10 löggiltir endurskoðendur sem bætast í hópinn árlega. Helst það nokkurn veginn í hönd við stöðuna í atvinnumálum endurskoðenda.
Að lokum er rétt að nefna þá félagsmenn sem hafa lagt inn réttindi sín en það geta menn gert bæði tímabundið og í lok starfsferils ef þeir óska þess. Þeir eru margir sem halda tryggð við félagið og halda áfram veru sinni þar þótt þeir hafi aldurs eða einhverra hluta vegna hætt störfum.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 9. júlí 2015 bls. 12.