Hvernig fylgist endurskoðandi með? Hver fylgist með honum?
Endurskoðendur eru ein fárra stétta sem ber lögbundin skylda til endurmenntunar. Samkvæmt lögum um endurskoðendur er þeim skylt að sækja endurmenntun sem tryggir að þeir viðhaldi fræðilegri þekkingu, faglegri hæfni og faglegum gildum. Endurmenntun endurskoðanda þarf að fara fram með reglulegum hætti og þarf að telja að lágmarki til 120 klukkustunda á hverju þriggja ára tímabili. Þetta þýðir að endurskoðendur þurfa að jafnaði að leggja stund á endurmenntun í 40 klukkustundir á ári. Þannig fer minnst ein vinnuvika árlega í lögbundna endurmenntun hjá hverjum endurskoðanda. Endurmenntun þessi þarf að vera á sviði endurskoðunar, reikningsskila, fjármála, skatta- og félagaréttar og á sviði siðareglna og faglegra gilda. Efnahags- og viðskiptaráðuneytið hefur gefið út reglugerð sem fjallar nánar um það hvað telst til endurmenntunar og hvað ekki. Núgildandi reglugerð tók gildi árið 2011 og byggist hún á danskri fyrirmynd. Í reglugerðinni voru endurmenntunarkröfur auknar frá því sem áður var og sett var þrengri umgjörð utan um það hvað telst til endurmenntunar og hvað ekki. Hver endurskoðandi þarf að skrá endurmenntun sína jafnóðum í rafræna gagnaskrá sem Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) hefur látið útbúa.
Þeir sem starfa við endurskoðun ársreikninga eru einnig undir ströngu gæðaeftirliti en mismunandi er hve oft endurskoðandi lendir í slíku. Þeir endurskoðendur sem endurskoða einingar tengdar almannahagsmunum skulu sæta gæðaeftirliti að minnsta kosti á þriggja ára fresti en aðrir starfandi endurskoðendur á sex ára fresti.
Á grundvelli laga um endurskoðendur skipar ráðherra fimm menn í endurskoðendaráð til fjögurra ára í senn og jafnmarga til vara. Hlutverk endurskoðendaráðs er meðal annars að fylgjast með endurmenntun endurskoðenda. Ráðið fær reglulega upplýsingar frá FLE um stöðu endurmenntunar hjá hverjum endurskoðanda. Endurskoðendaráð er einnig ábyrgt fyrir því að áðurnefnt gæðaeftirlit fari fram með reglulegum hætti. En hvað gerist ef endurskoðandi sinnir ekki lögbundnum skyldum sínum varðandi endurmenntun eða ef hann stenst ekki gæðaeftirlit?
Teljist endurskoðandi ekki hafa uppfyllt skyldur um endurmenntun eða ef hann stenst ekki gæðaeftirlit getur endurskoðendaráð farið fram á úrbætur innan hæfilegs tímafrests, áminnt viðkomandi eða jafnvel lagt til við ráðherra að réttindi hans verði felld niður. Ljóst er af ofantöldu að miklar kröfur eru settar endurskoðendum á herðar er varðar endurmenntun og gæði vinnu.
Rétt er að minnast á að auk gæðaeftirlits af hálfu endurskoðendaráðs þá eru flestar af stóru alþjóðlegu endurskoðunarskrifstofunum með sitt eigið innra og ytra gæðaeftirlit. Í því felst til dæmis að erlendir sérfræðingar koma og gera ítarlegar úttektir á vinnu íslenskra endurskoðenda. Á móti halda íslenskir endurskoðendur utan til gæðaúttekta á störfum kollega sinna erlendis. Loks eru stofurnar með sitt eigið innra gæðaeftirlit hérlendis. Allt ferlið stuðlar að aukinni fagþekkingu, samræmdum vinnubrögðum og auknum gæðum.
Einhverjir gætu sagt að áhersla á gæði og endurmenntun í stéttinni sé of mikil, að kröfurnar séu of miklar í faginu. Þessum kröfum ber að taka fagnandi. Fagmönnum ætti að þykja eftirsóknarvert að starfa í umhverfi þar sem kröfur eru gerðar til að fylgst sé með hröðum breytingum og að stöðug símenntun sé áskilin. Gæðaeftirlit gerir það að verkum að regluleg endurgjöf fæst á verkin sem innt eru af hendi og þar sem gæðaeftirlitið er framkvæmt af fagfólki má líta á það sem gott tækifæri til að bæta gæði, þekkingu og ekki síst vinnubrögð. Af ofantöldu má sjá að störf endurskoðenda eru í stöðugri þróun í átt til aukinnar fagmennsku, en það ættu einmitt að vera einkunnarorð endurskoðenda.