IFRS 16 - Leigusamningar
Gerð nýs leigustaðals hefur verið langt ferðalag og Alþjóðlega reikningsskilaráðið (IASB) hefur millilent nokkrum sinni á leiðinni áður en það komst að lokum á áfangastað í janúar 2016 með útgáfu IFRS 16 Leigusamningar. Staðallinn sem tekur gildi fyrir reikningsskilatímabil sem hefjast 1. janúar 2019 eða síðar mun leysa af hólmi IAS 17 Leigusamningar. Evrópusambandið hefur ekki samþykkt staðalinn, en þess er að vænta að hann verði samþykktur á síðari hluta árs 2017. Innleiðing fyrir gildistökudag verður heimil (eftir samþykki EU) fyrir félög sem einnig hafa innleitt IFRS 15 Tekjur af samningum við viðskiptavini.
Samkvæmt núgildandi staðli IAS 17 getur reikningshaldsleg meðferð leigusamninga verið á tvo vegu eftir því hvort samningur fellur undir skilgreiningu á rekstrar- eða fjármögnunarleigu. Flokkunin veltur á því hvort verulegur hluti áhættu og ávinnings af leigueigninni flytjist til leigutaka og gefur staðallinn leiðbeiningar um til hvaða atriða skuli horfa við slíkt mat. Ef verulegur hluti áhættu og ávinnings af leigueigninni flyst með skilmálum leigusamnings til leigutaka, er um fjármögnunarleigu að ræða. Allir aðrir leigusamningar eru svo skilgreindir sem rekstrarleiga.
Í IFRS 16 eru settar fram nýjar leiðbeiningar um reikningshaldslega meðferð leigusamninga í reikningsskilum leigutaka og leigusala. Mest verður breytingin fyrir leigutaka sem gert hafa rekstrarleigusamninga samkvæmt skilgreiningu IAS 17. Með innleiðingu IFRS 16 verður leigutökum nefnilega gert skylt að færa alla leigusamninga í efnahagsreikning þar sem núvirði lágmarksleigugreiðslna er eignfært sem nýtingarréttur á móti leiguskuld. Reikningshaldsleg meðferð eftir upphaflega skráningu er svo lík þeirri sem beitt er fyrir fjármögnunarleigusamninga samkvæmt IAS 17, þ.e. nýtingarrétturinn er afskrifaður á samningstímanum og vextir vegna leigugreiðslna eru gjaldfærðir með fjármagnskostnaði. Tvær undanþágur eru þó frá því að færa skuli leigusamninga í efnahagsreikning, en þær eru fyrir leigusamninga til skemmri tíma en 12 mánaða og þegar leigueignir teljast hafa lágt virði (e. low value assets). Staðallinn setur ekki fram nánari skilgreiningu á því hvað teljist vera eignir með lágt virði, en IASB hefur gefið til kynna að æskilegt viðmið sé 5.000 bandaríkjadollarar.
Samkvæmt staðlinum eru það yfirráð leigutaka yfir leigueign sem skilja milli þess hvort um er að ræða leigusamning eða þjónustusamning. IFRS 16 fjallar ekki um reikningshaldslega meðferð á þjónustusamningum sem verða eftir sem áður gjaldfærðir á því tímabili sem þjónustan er þegin. Ekki er þó búist við því að þessi nýja skilgreining leiði til þess að samningar sem flokkaðir eru sem leigusamningar samkvæmt IAS 17 verði flokkaðir sem þjónustusamningar samkvæmt IFRS 17. Þó getur komið til þess í tilfellum þar sem leiguverð er ákvarðandi þáttur við flokkun í fjármögnunarleigusamninga samkvæmt IAS 17 (núvirði lágmarks leigugreiðslna er að minnsta kosti það sama og gangvirði leigðu eignarinnar).
Fyrir félög sem gert hafa rekstrarleigusamninga mun IFRS 16 hafa áhrif á flokkun gjalda í rekstrarreikningi. Í stað þess að gjaldfæra þá samninga sem núna flokkast til rekstrarleigu línulega á meðal rekstrargjalda yfir líftíma þeirra verður nýtingarrétturinn gjaldfærður með afskriftum á líftíma samningsins og vextir gjaldfærðir meðal fjármagnsliða. Nýtingarrétturinn er yfirleitt afskrifaður línulega, en vaxtakostnaðurinn er mestur í upphafi og lækkar eftir því sem líður á samninginn samhliða því sem núvirði lágmarksleigugreiðslna (höfuðstóllinn) lækkar. Gjaldfærslan mun því skiptast í rekstrar- og fjármagnskostnað sem verður framhlaðinn.
Áhrif innleiðingar staðalsins á sjóðstreymi leigutaka fyrir rekstrarleigusamninga eru að hluti leigugreiðslna mun koma fram í fjárfestingarhreyfingum í stað rekstrarhreyfinga. Þetta er vegna þess að samkvæmt IAS 17 sýndu félög greiðslur af leigusamningum með rekstrarhreyfingum, en samkvæmt IFRS 16 verða greiðslur af höfuðstól sýndar meðal fjárfestingarhreyfinga og vaxtagreiðslur flokkaðar með rekstrarhreyfingum eða fjárfestingarhreyfingum (valkvætt samkvæmt IFRS).
Nýjar reikningsskilaaðferðir IFRS 16 mun hafa áhrif á marga frammistöðumælikvarða og kennitölur. Gjaldfærsla færist að hluta til yfir í fjármagnsliði sem mun hækka rekstrarafkomu, EBITDA og EBIT félaga með rekstrarleigusamninga. Með því að færa alla leigusamninga í efnahagsreikning mun eiginfjárhlutfall lækka. Fyrir félög þar sem slíkir mælikvarðar í reikningsskilum hafa áhrif á lánaskilmála er mikilvægt að meta áhrif af innleiðingunni tímanlega svo ekkert komi óþægilega á óvart og allar upplýsingar séu tiltækar þegar samið (eða endursamið) er um fjármögnun. Það má gera ráð fyrir því að áhrifa staðalsins gæti einna helst hjá félögum sem gert hafa marga rekstrarleigusamninga eða fyrir háar fjárhæðir og til skamms tíma (t.a.m. verslanakeðjur sem leigja húsnæði undir verslanir og flugfélög með flugvélar í rekstrarleigu).
Við innleiðingu IFRS 16 verður ekki breyting á reikningshaldslegri meðferð leigusamninga í reikningsskilum leigusala, ef undan eru skildir framleigusamningar (e. sublease). Leigusali sem framleigir þarf að færa bæði upphaflega leigusamninginn og framleigusamninginn í reikningsskil sín, þ.e. bæði sem leigutaki og leigusali. Því verður breyting á reikningshaldslegri meðferð ef upphaflegi samningurinn hefur verið flokkaður sem rekstrarleiga. Þá gerir staðallinn ríkari skýringarkröfur um leigusamninga í reikningsskilum leigusala.
Ljóst er að þessi nýi staðall muna auka gagnsæi í reikningsskilum. Sem dæmi má taka að sum flugfélög eiga meirihlutann af sínum flota á meðan önnur leigja stóran hluta hans. IFRS 16 mun gera það að verkum að í báðum þessum tilvikum mun flugflotinn koma fram í efnahagsreikningi.
Að lokum má velta því upp hvort að þessi nýi staðall muni ekki einnig hafa áhrif á félög sem semja reikningsskil sín í samræmi við lög um ársreikninga. Í 29. gr. laganna er vísað til þess að fjármögnunarleigusamningar skuli færðir í efnahagsreikning í samræmi við settar reikningsskilareglur (IFRS). Þar sem ekki verður lengur gerður greinarmunur á fjármögnunarleigu og rekstrarleigu í reikningsskilum leigutaka má draga þá ályktun að vísan ársreikningalaga eigi við um alla leigusamninga samkvæmt skilgreiningu IFRS 16.