Innleiðing og áhrif IFRS 9
Nýr alþjóðlegur staðall um fjármálagerninga leit dagsins ljós í júlí 2014. Margrét Pétursdóttir, löggiltur endurskoðandi, hefur gert aðdraganda og innihaldi staðalsins góð skil í greinum í ViðskiptaMogganum dagana 9. október og 4. desember 2014. Fá fjármálafyrirtæki sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) hafa skýrt frá tölulegum áhrifum af innleiðingu staðalsins, en ljóst er að áhrifin verða töluverð á reikningsskil fjármálafyrirtækja við innleiðingu.
IFRS 9 staðallinn á rætur sínar að rekja til ársins 2002, en tilgangur hans var sá að samræma reglur alþjóðlega staðlaráðsins (IASB) í Evrópu og staðlaráðs Bandaríkjanna (FASB) varðandi reikningsskil fjármálagerninga. Vinnu við staðalinn var flýtt í kjölfar efnahagshruns á árunum 2007 og 2008 og í kjölfar gagnrýni á að reikningsskil endurspegluðu ekki raunveruleikann og tap væri bókfært of seint þar sem einungis mætti taka tillit til sögulegs taps en ekki væntra tapsatburða. IASB og FASB unnu náið saman við gerð staðals en að lokum náðist ekki samkomulag um sameiginlega útgáfu.
Íslandi, sem hluti af Evrópska efnahagssvæðinu (EES) og með tilvísun í lögum um ársreikninga, er skylt að taka upp þá IFRS staðla sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samþykkt. Framkvæmdastjórn ESB hefur ekki enn samþykkt IFRS 9, en ráðgert er að staðallinn verði samþykktur á fyrri hluta árs 2016 og taki gildi frá og með 1. janúar 2018. Fjármálafyrirtækjum sem beita IFRS er þó skylt að greina frá áhrifum allra staðla sem alþjóðlega staðlaráðið hefur samþykkt óháð samþykki framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Afar fá alþjóðleg fjármálafyrirtæki skýrðu frá tölulegum áhrifum innleiðingar staðalsins í reikningsskilum sínum fyrir árið 2014 vegna þess hve skammt á veg þau voru komin í mati á áhrifum og innleiðingu. Nú eru liðnir 18 mánuðir frá útgáfu staðalsins og má vænta þess að stærri alþjóðleg fjármálafyrirtæki greini frá tölulegum áhrifum en minni fjármálafyrirtæki greini frá væntum áhrifum, stöðu og áætlun innleiðingar en án tölulegra skýringa.
Endurskoðunarfyrirtæki keppast við að greina möguleg áhrif staðalsins á fjármálafyrirtæki. EY gerir ráð fyrir að niðurfærsla fjármálafyrirtækja aukist við innleiðingu en að áhrifin verði ólík á milli aðila. Þannig verði áhrifin minni hjá fjármálafyrirtækjum sem lána til skemmri tíma, eða þar sem gæði útlána eru almennt mikil. Einnig muni gæta áhrifa í meira mæli hjá fjármálafyrirtækjum þar sem ótryggð lán eru fyrirferðarmikil en minna hjá þeim sem lána með hæfilegri veðsetningu t.d. í íbúðarhúsnæði. Í könnun frá Deloitte sem gefin var út í september sl. gerir meirihluti banka ráð fyrir að niðurfærsla aukist um allt að 50% með innleiðingu IFRS 9.
Megináhersla í umræðu um IFRS 9 hefur verið á fjármálafyrirtæki en því fer fjarri að þau séu einu aðilarnir sem verða fyrir áhrifum af nýjum staðli. Flokkun fjármálagerninga og meðhöndlun í reikningsskilum ásamt niðurfærslu á viðskiptakröfum eru dæmi um þætti sem verða fyrir beinum áhrifum hjá öðrum fyrirtækjum en fjármálafyrirtækjum. Við mat á niðurfærsluþörf viðskiptakrafna hafa fyrirtæki oftar en ekki litið til sögulegrar tapreynslu út frá fjölda daga í vanskilum. Helsta breyting frá núgildandi staðli (IAS 39) er að ekki nægir eingöngu að byggja á sögulegu tapi heldur verður að taka framtíðarhorfur með í matinu. Hér væri hægt að hugsa sér að flokka mótaðila viðskiptakrafna eftir landsvæðum, geira, o.s.frv. og taka tillit til spáa um hagvöxt, atvinnuleysi, verðlagsþróun og vexti, eftir því sem við á hverju sinni.
Það er ljóst að nýr staðall breytir verklagi við flokkun og mat á fjármálagerningum og krefst þess að stjórnendur fyrirtækja líti í kristalskúluna og spái fyrir um framtíðina. Þetta getur leitt til þess að sveiflur verði meiri í mati á niðurfærslu ásamt því að forsendur verði ólíkar á milli aðila. Hagsmunaaðilar um allan heim eru áhugasamir um áhrif innleiðingar IFRS 9 á reikningsskil fyrirtækja vegna ársins 2015 og er Ísland þar engin undantekning.