Lög um endurskoðendur stopp í þinginu vegna FME
Frumvarp til nýrra heildarlaga um endurskoðendur og endurskoðun hefur verið pikkfast í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í um hálft ár. Ástæðan er sú að erfiðlega hefur gengið að ná sátt um hver eigi að hafa eftirlit með störfum endurskoðenda.
Núgildandi lög um endurskoðendur eru frá árinu 2009 en í talsverðan tíma hefur legið fyrir að Ísland þyrfti að innleiða í landslög tilskipun Evrópusambandsins. Innleiðingunni átti að vera lokið fyrir miðjan júní 2016 en dróst á langinn. Starfshópur um málið, sem samanstóð af fulltrúum frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu (ANR), endurskoðendaráðinu, FLE og Fjármálaeftirlitinu (FME), skilaði af sér síðasta sumar og var frumvarpið lagt fram í samráðsgátt í september í fyrra.
Í frumvarpinu var stefnt að því að eftirlit með endurskoðendum og störfum þeirra yrði fært til Fjármálaeftirlitsins. Slíkt fyrirkomulag hefur lengi verið við lýði í Noregi og reynst vel. Eftir að frumvarpsdrögin voru kynnt í samráðsgáttinni var tilkynnt að stefnt væri að því að sameina Seðlabanka Íslands og FME og þá kom annað hljóð í skrokkinn.
„Starfshópurinn var nýbúinn að skila af sér frumvarpsdrögum í samráð þegar þessi tilkynning berst. Þá runnu náttúrulega tvær grímur á ýmsa og þá sérstaklega FME,“ segir Sigurður B. Arnþórsson, framkvæmdastjóri FLE og fulltrúi félagsins í starfshópnum.
Heyrir ekki undir ANR
Frumvarpið var lagt fram á þingi í nóvember og var þá ennþá gert ráð fyrir því að FME tæki við eftirliti með stéttinni. Stofnunin hafði í millitíðinni lagst harðlega gegn því að svo yrði. Álag á starfsmenn hennar væri þegar orðið mikið við að vinna að og undirbúa sameiningu við Seðlabankann.
„Stjórn og forstjóri FME telja afar óheppilegt að stofnuninni verði falið að taka við þeim tiltölulega umfangsmiklu verkefnum sem umrædd frumvarpsdrög gera ráð fyrir við þessar aðstæður,“ segir í bréfi sem sent var ráðherra áður en frumvarpið var lagt fram á þingi. Þessi sjónarmið voru ítrekuð í umsögn FME við frumvarpið og bætt við að „heppilegra [væri] að umræddu eftirliti væri komið fyrir innan annarrar stofnunar sem jafnvel heyrði undir það ráðuneyti sem fer með málaflokkinn,“ segir í umsögninni. FME heyrir undir fjármála- og efnahagsráðuneytið á meðan endurskoðendur og störf þeirra heyra undir ANR.
Samkvæmt gildandi lögum er eftirlit með endurskoðendum í höndum endurskoðendaráðs. Það er skipað fimm mönnum, tveir þeirra eru tilnefndir af FLE, einn af Viðskiptaráði og tveir af ráðherra án tilnefningar. Þá er kveðið á um að meirihluti ráðsins skuli skipaður öðrum en þeim sem starfað hafa við endurskoðun á síðustu þremur árum. „Þegar lögin árið 2009 tóku gildi þá var FLE skikkað til þess að hafa ýmiss konar eftirlit með störfum endurskoðenda. Félagið fylgist meðal annars með endurmenntun þeirra fyrir hönd ráðsins og að hafa eftirlit með því að allir endurskoðendur hefðu lögbundna ábyrgðartryggingu. Til að geta haft uppi slíkt eftirlit varð að setja skylduaðild að félaginu í lög,“ segir Sigurður.
„Það felst í tilskipun ESB að félagasamtök mega ekki koma að eftirliti með félögum tengdum almannahagsmunum og að þeir sem kveða upp úrskurði megi ekki vera starfandi endurskoðendur. Við höfðum náð þeirri lendingu að þetta myndi færast til FME en í ljósi umræðunnar undanfarið virðist liggja fyrir að slíkt sé ekki vilji hins opinbera,“ segir Sigurður.
Sjálfstæð stjórnsýslunefnd
Frá því að fyrstu umræðu um málið lauk á þingi, strax í fyrstu viku nóvember, hefur það verið tekið fimm sinnum fyrir hjá efnahags- og viðskiptanefnd. Í apríl var lagt fyrir nefndina minnisblað frá ANR þar sem vikið var að helstu athugasemdum við frumvarpið og hvort tilefni væri til að mæta þeim. Í ljósi aðstæðna var talið álitlegast að breyta endurskoðendaráði þannig að allir ráðsmenn yrðu skipaðir án tilnefningar og að starfandi endurskoðendur ættu ekki sæti þar.
„Úr því sem komið er þá teljum við að breytt endurskoðendaráð sé heppilegast en það yrði að skoðast sem algert bráðabirgðaúrræði,“ segir Sigurður. Í umsögn endurskoðendaráðsins sjálfs er tekið í sama streng, eina raunhæfa lausnin eins og staðan sé nú er að fela sjálfstæðri stjórnsýslunefnd eftirlitið.
„Það er mjög bagalegt hve lengi hefur dregist að afgreiða umrætt frumvarp og ekki síst sú óvissa sem skapast hefur við að ekki sé lengur vilji til að hafa eftirlitið hjá FME,“ segir Sigurður.
Leggur til nýja stofnun
Í minnisblaði ARN er vikið að því hvort unnt væri að koma á fót sérstakri eftirlitsstofnun með viðskiptatengdri starfsemi sem heyrir undir ráðuneytið en slíkt eftirlit hefur hingað til verið á víð og dreif hjá hinum ýmsu aðilum. Nefnt er til sögunnar eftirlit og leyfisveitingar endurskoðenda, fasteignasala og bifreiðasala en það hefur nú ýmist verið hjá sérstökum eftirlitsnefndum og sýslumönnum. Einnig mætti fækka verkefnum RSK meðal annars með því að færa skráningu fyrirtækja, ársreikningaskrá og IFRS-eftirlit þaðan. „Við tökum undir að slík stofnun væri vænlegasta leiðin til að hafa eftirlit með fjármála- og viðskiptaumhverfinu. Þangað mætti einnig færa eftirlit með lögmönnum og peningaþvætti og fleira. Eftirlitinu er núna dreift út um víðan völl sem einhvers konar aukaverkefni hjá öðrum stofnunum. Með þessum hætti næðust samlegðaráhrif,“ segir Sigurður.
Slík stofnun verður þó ekki dregin fram úr erminni þegar nokkrar vikur eru í að þingið fari í sumarfrí. Tillaga Sigurðar hljóðar upp á að skipaður verði starfshópur um efnið sem fyrst sem gæti skilað af sér á næsta ári. Með því móti gæti slík stofnun tekið til starfa innan þriggja ára.