Allar þessar kröfur gætu leitt til þess að markaðurinn færðist í þá átt að til staðar væri mun staðlaðra og einfaldara vöruframboð en nú er.

MiFID II

Endurskoðun á regluverki um markaði með fjármálagerninga
Hafdís B. Stefánsdóttir sérfræðingur á ráðgjafasviði Ernst & Young ehf. og Margrét Pétursdóttir löggiltur endurskoðandi hjá Ernst & Young ehf

Á árinu 2007 var tilskipun Evrópusambandsins um markaði með fjármálagerninga (e. Markets in Financial Instruments Directive eða MiFID) innleidd í íslenskan rétt. Markmiðið með innleiðingunni á MiFID var að samræma regluverk og umgjörð evrópskra fjármálamarkaða auk þess að auka vernd fjárfesta. Unnið hefur verið að endurskoðun regluverksins, reynslunni af MiFID I ásamt því að horfa til þess sem læra mátti af fjármálakreppunni. Gert er ráðfyrir að MiFID II-tilskipuninverði tekin inn í EES samninginn á næstu misserum og í kjölfarið innleidd í íslenskan rétt samkvæmt upplýsingum á vef Fjármálaeftirlitsins.

MiFID II mun hafa í för með sér viðamiklar breytingar á evrópska fjármálamarkaðnum og verða ein af grunnstoðum umbóta á fjármálamarkaði. Áhrifin á markaðinn eins og við þekkjum hann í dag verða töluverð og ætti markaðurinn þegar til lengri tíma er litið að vera gagnsærri, samræmdari og stöðugri en áður. Í umræðunni um MiFID, til að mynda í Bretlandi, hefur áherslan verið á skipulag markaðarins og breytingar tengdar gagnsæi hans. Það er hins vegar mikilvægt að horfa ekki framhjá þeim miklu breytingum sem MiFID II mun hafa á háttsemi fyrirtækja á markaði og hvernig þau munu haga sér gagnvart viðskiptavinum sínum. 

Það er ekki einungis unnið að innleiðingu á MiFID II á fjármálamarkaði um þessar mundir. Önnur umfangsmikil regluverk eru jafnframt í burðarliðnum og má sem dæmi nefna Basel III, CRD IV (Capital Requirements Directive), EMIR (European Market Infrastructure Regulation) og MAD II (Market Abuse Directive). Mörg fjármálafyrirtæki í Evrópu vinna nú að samræmdri yfirferð á regluverkum þessum og horfa á það sem eitt og sama innleiðingarverkefnið í stað þess að horfa á hvert regluverk fyrir sig sem sér innleiðingarverkefni.

Sú ráðstöfun að horfa með heildstæðum hætti á þessi umfangsmiklu regluverk mun hafa í för með sér skipulagðari, áreiðanlegri og skilvirkari nálgun við innleiðingu þeirra í starfsemi fyrirtækjanna. Auk þess kemur slíkt í veg fyrir tvíverknað og hefur í för með sér kostnaðarhagræði. Kostnaðurinn við að uppfylla lagalegar kröfur á fjármálamarkaði, til að mynda vegna MiFID II, verður án vafa töluverður og til viðbótar bætist svo við kostnaður vegna innleiðingar á t.d. Basel II og CRD-IV. Allar þessar kröfur gætu leitt til þess að markaðurinn færðist í þá átt að til staðar væri mun staðlaðra og einfaldara vöruframboð en nú er.

Miðað við umfang og efni MiFID II er ljóst að aðilar að verðbréfamarkaði þurfa að vera vel undirbúnir fyrir gildistöku tilskipunarinnar. Fyrirtæki á fjármálamarkaði þurfa að meta áhrif MiFID II á starfsemi sína ásamt því að horfa með heildrænum hætti yfir önnur regluverk sem í gildi eru eða eru væntanleg með skilvirkni að markmiði. Meta þarf áhrifin á starfsemina og ekki síður á markaðinn í heild ásamt því að fara yfir hvort viðskiptatækifæri séu fólgin í breytingunni. Viðskiptatækifærin liggja eflaust í kringum nýjan viðskiptavettvang sem kallaður er OFT (Organised Trading Facility). MiFID II mun hafa mikil áhrif á viðskipti markaðarins, kerfi, gögn, fólk og ferla ásamt því að hafa í för með sér auknar kröfur hvað skýrslugjöf varðar. Fyrirtæki þurfa því að yfirfara núverandi stefnu sína og viðskiptalíkön og meta hvar umbóta er þörf.

Tilskipunin getur haft í för með sér markaðstækifæri og samkeppnisforskot fyrir þá aðila á markaði sem grípa til viðeigandi aðgerða í tíma en gæti jafnframt leitt til taps fyrir þá aðila sem ekki bregðast við fyrr en um síðir.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 26. mars 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 26. mars 2015