Milliverðlagning
Um þessar mundir eru aðilar í viðskiptalífinu að búa sig undir að framfylgja reglum um milliverðlagningu. Reglurnar leggja þær skyldur á herðar lögaðila, sem eiga í viðskiptum við tengda aðila, að verðlagningu sé hagað með tilteknum hætti og að forsendur verðlagningarinnar séu skjalaðar á þann veg sem nánar er kveðið á um í lögum 90/2003 um tekjuskatt og reglugerð 1180/2014 um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum tengdra aðila.
Á fundum með fyrirsvarsmönnum lögaðila sem skjölunarskylda laganna tekur til hafa komið fram margar spurningar um málefnið, en ein spurning er gegnumgangandi – hverju megum við búast við? Það liggur því fyrir að það ríkir ákveðið óöryggi og óvissa meðal skattþegna um það hvernig skattyfirvöld munu ganga til verks nú í haust þegar heimild skattyfirvalda til að krefjast skoðunar á skjölunarskyldum gögnum tekur gildi.
Af því tilefni er ekki úr vegi að líta til reynslu nágrannaríkja okkar sem þegar hafa öðlast víðtæka reynslu á sviði milliverðlagningar. Danir riðu á vaðið og innleiddu reglur um skjölunarskyldu á árinu 1999, Finnar og Svíar árið 2007 og Norðmenn árið 2008.
Á heildina litið hafa skattyfirvöld ekki einblínt á ákveðnar atvinnugreinar heldur frekar beint athyglinni að ákveðnum tegundum viðskipta. Í því sambandi hafa viðskipti með óefnislegar eignir og þá sérstaklega sala á slíkum eignum verið efst á lista skattyfirvalda allra Norðurlandanna. Þar á eftir koma fjármálagerningar og hvers kyns endurskipulagning fyrirtækja. Skattyfirvöld flestra Norðurlandanna byggja val sitt á fyrirtækjum til endurskoðunar á áhættumati. Bæði Danmörk og Svíþjóð leggja hins vegar áherslu á fleiri þætti eins og endurskipu-lagningu fyrirtækja, umfang viðskipta við tengda aðila og þá líta þeir sérstaklega til arðsemi félaga og einbeita sér að fyrirtækjum sem eru búin að vera í taprekstri í nokkur ár.
Þegar kemur að samanburðargreiningum þá samþykkja öll Norðurlöndin greiningar byggðar á evrópskum félögum. Í Danmörku og Noregi ganga innlendar samanburðargreiningar framar, en séu slíkar greiningar ekki tækar eru greiningar fyrir Norðurlöndin teknar fram yfir samevrópskar greiningar.
Öll Norðurlöndin fylgja leiðbeiningarreglum OECD þegar kemur að vali á aðferðum við verðlagningu. Í dag eru Danmörk og Svíþjóð einu löndin sem bjóða upp á samkomulag um aðferð við verðlagningu (Advanced Pricing Agreement/APA) en Noregur mun bætast í hópinn á þessu ári. Ef til vill þróast íslenskur réttur í sömu átt, enda hagsmunirnir af þeirri vissu sem hlýst með slíku samkomulagi augljósir.
Hjá nágrannaþjóðum okkar fást yfirvöld að meðaltali við 15 til 30 mál á ári þar sem unnið er að því að ná gagnkvæmu samkomulagi (Mutual Agreement Procedure) varðandi ágreining um skattlagningarrétt ríkis. Þetta ferli getur verið langt og strangt, tekið frá einu ári upp í fjölda ára og er mjög kostnaðarsamt fyrir skattgreiðandann. Sem dæmi þá eru um það bil 70 mál til meðferðar hjá finnskum yfirvöldum, 83 hjá norskum og um 100 hjá þeim sænsku.
Eins og fyrr segir hefur íslenskum skattyfirvöldum nú verið fengin bein heimild til að endurákvarða skattstofna í þeim tilvikum sem verð hefur verið vanmetið eða ofmetið í viðskiptum milli tengdra aðila. Á árunum 2011-2013 var endurákvarðað í 191 máli í Danmörku sem leiddu til gjaldabreytinga upp á 44.782 milljónir danskra króna samanlagt og í Noregi var á sama tíma endurákvarðað í 69 málum og hljóðuðu gjaldabreytingarnar upp á 4.789 milljónir norskra króna samanlagt. Af þessum tölum að dæma er erfitt að spá um það hversu ötul íslensk skattyfirvöld kunna að verða við endurákvörðun skattstofna á grundvelli rangrar verðlagningar. Það hefur sýnt sig að í slíkum málum er það lykilatriði við vörn á verðlagningu í viðskiptum við tengda aðila að fyrirtæki búi yfir fullnægjandi skjölun og öðrum greiningum.
Milliverðlagning er einn helsti áhættuþátturinn í rekstri alþjóðlegra fyrirtækja í dag. Samkvæmt alþjóðlegri könnun EY leggja skattyfirvöld sífellt meirafjármagn í milliverðlagningu sem bendir til þess að málum muni fjölga á alþjóðavísu. Við höfum enga ástæðu til að ætla að annað verði uppi á teningnum hér á landi.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 22. janúar 2015 bls. 12.