MISSKILNINGUR Í SEXTÍU ÁR
Nú við ævilok vinar míns, starfsbróður og alnafna, Guðmundar Rúnars Óskarssonar, löggilts endurskoðanda, rifjast upp fyrir mér margt skrítið og skoplegt vegna misskilningsins sem tengdist okkur nöfnunum.
En áður en ég segi frá því vil ég þakka nafna fyrir samfylgdina í um sextíu ár. Nafni minn var einstaklega þægilegur og geðfelldur samferðamaður, stilltur og prúður. Hvíl í friði nafni minn. Ástvinum nafna sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og bið hinn hæsta að veita þeim styrk og huggun í sorginni.
Þetta byrjaði allt fyrir tæpum sextíu árum. Ég var þá 13-15 ára og nafni árinu eldri. Ég réði mig í sumarvinnu í Ísbirninum á Seltjarnarnesi og tók út í sjoppunni gúmmívettlinga, gúmmísvuntu, kók, Lindubuff og fleira. Þegar kom að útborgun voru þessar úttektir ekki dregnar af kaupinu mínu, sem ég var ekkert að spekúlera frekar í. Taldi að þetta kæmi þá bara næst. Aftur á móti voru allar mínar sjoppuúttektir dregnar af öðrum starfsmanni, alnafna mínum sem ég hafði ekki hugmynd um að starfaði líka hjá Ísbirninum. Nafni vissi heldur ekkert af mér og fór á skrifstofuna og vildi fá skýringu á allri þessari úttekt sem dregin var af laununum hans. Þeir á skrifstofunni voru ekki í neinum vafa, Guðmundur Rúnar Óskarsson hafði tekið út allar þessar vörur. Misskilningurinn var svo leiðréttur en þarna fékk ég fyrst að vita af tilvist nafna.
Síðan gerist það að ég fer á Samvinnuskólann á Bifröst og þar er nafni í öðrum bekk þegar ég er í fyrsta bekk. Þar heldur misskilningurinn áfram en við reyndum að aðgreina okkur með því að hann væri Guðmundur Rúnar Óskarsson senior en ég junior.
Á Bifröst var símstöð og í gegnum hana fóru öll símtöl, bæði þau sem hringt var frá og að skólanum. Símaklefi var við símstöðina og þangað var nemendum vísað, þegar þeir þurftu að tala í símann. Þar réði ríkjum Guðlaug Einarsdóttir, húsmóðir skólans og eiginkona skólastjórans. Guðlaug áttaði sig ekki á að það voru tveir með þessu nafni í skólanum og þegar kærastan mín hringdi og bað um að fá að tala við Guðmund Rúnar Óskarsson kom nafni, oftar en ekki, í símann og kannaðist bara ekkert við þessa konu, hvað þá kærastan við manninn. Svona í framhjáhlaupi er ekki úr vegi að segja frá því að þegar hringt var frá skólanum þurfti að skrá hver hringjandinn væri, hver væri móttakandi símtalsins og í hvaða númer ætti að hringja. Eitt sinn ætlaði ég að hringja í kærustuna en gleymdi að setja inn símanúmerið. Kristleifur Indriðason, endurskoðandi, bekkjarfélagi minn sá sér leik á borði að sprella svolítið og færði inn símanúmerið 04, sem er símanúmerið hjá fröken klukku. Það næsta sem gerist er að Guðríður, væn kona og hrekklaus, sem var símamær seinna árið mitt á Bifröst, lætur senda eftir mér og tjáir mér að hún nái engu vitrænu sambandi við konuna sem svaraði í símann, hvort þetta væri örugglega rétt símanúmer?
Báðir fengum við nafni bókfærslubikarinn við útskrift og var því nafnið okkar grafið á bikarinn tvö ár í röð. Þeir sem ekki þekkja til gætu haldið að þessi Guðmundur Rúnar Óskarsson væri bókhaldsnörd sem fallið hafi á lokaprófi og þurft að fara aftur í annan bekk, en verið með svona sérgáfu í bókhaldsfræðum. Næsta sem gerist er að ég fæ löggildingu sem endurskoðandi og nafni þremur árum seinna. Þá heldur þessi misskilningur áfram. Endurskoðendur þurftu, allt til ársins 2000, að færa allar upplýsingar sjálfir inn á framtöl umbjóðanda sinna. Þá gerðist það iðulega að menn hringdu í mig og byrjuðu að telja upp innistæður sínar á bankareikningum og vaxtatekjurnar af þeim, því það vantaði þessar upplýsingar til að klára framtalið þeirra. Ég reyndi að fara fínt í að finna út hver viðmælandinn væri, ef ég áttaði mig ekki á honum, þar til ég áttaði mig á að viðmælandinn var að tala við „vitlausan“ Guðmund og sagði viðmælandanum það. Oft brá mönnum við eftir að hafa þulið upp fyrir ókunnum manni bankainnistæður sínar, sem viðkomandi sagði ekki einu sinni maka sínum frá hverjar væru, og urðu heldur vandræðalegir. Svona símhringingar voru margar þar sem okkur var ruglað saman og menn að ræða við „vitlausan“ Guðmund um sín málefni. Ég hafði bara gaman af þessum uppákomum, leiðrétti misskilninginn við viðmælandann, gaf honum upp símanúmerið hjá nafna og bað um kveðju til hans.
Við nafni reyndum að slá á þennan misskilning og sömdum okkar á milli um að ég hætti að nota Rúnars nafnið eða R-ið í mínu nafni en hann að halda sér við R-ið eða Rúnars nafnið. Það hafði örugglega eitthvað að segja en var fjarri því að koma í veg fyrir áframhaldandi misskilning.
Svo voru það jólakortin. Í mörg ár fékk hann jólakort sem ég átti að fá, jafnvel frá náskyldum frænda mínum og vini, en ég fékk jólakort ætluð honum. Það var nokkuð skondið þegar ég –KR-ingur af betri gerðinni- var að fá jólakort frá Knattspyrnufélaginu Víkingi með hugheilum (ekki hughálfum) óskum um gleðileg jól og gæfuríkt nýtt ár auk þess sem mér var þakkað fyrir samstarfið og vel unnin störf á árinu. Það kom fyrir að við skiptumst á jólakortum, sem send höfðu verið á rangt heimilisfang, þegar við hittumst á skattadegi FLE.
Þrátt fyrir að nafni minn sé látinn heldur misskilningurinn enn áfram. Skáfrænka mín ein hringdi í Þórð bróður minn fyrir stuttu og vottaði honum samúð sína vegna fráfalls Guðmundar bróður hans. Vinur minn og skólabróðir frá Bifröst, Ögmundur sem býr á Spáni, hringdi í mig fyrir stuttu og var alltaf að tala um við mig hvað hann væri ánægður með að heyra í mér og heyra röddina mína. Ég afgreiddi þetta tal hans bara með því að líklegast væri Ögmundur kominn í glas og orðinn meyr og tilfinninganæmur, þar til ég fattaði að hann var að hringja í mig til að kanna hvort ég væri á lífi. Hann hafði þá fengið hringingu frá skólabróður okkar í Noregi, Auðunni, sem hélt því fram, statt og stöðugt, að ég væri látinn.
Nú er bara vita hvort misskilningurinn nær út yfir gröf og dauða. Verður það ef til vill þannig að þegar ég banka upp á Gullna hliðið, hjá Lykla Pétri - en eins og allir vita að þá fara endurskoðendur til himna - að þá fer hann í bókhaldið hjá sér og segir: Látum okkur nú sjá, heitir Guðmundur Rúnar Óskarsson, vann í Ísbirninum, var á Samvinnuskólanum á Bifröst, fékk bókhaldsbikarinn, fékk löggildingu sem endurskoðandi og starfaði fyrir íþróttafélag. Nei góði minn þessi maður hefur þegar skráð sig inn í himnaríki. Þú ert að villa á þér heimildir og átt heima í neðra. Og þar verð ég að dúsa þar til misskilningurinn verður leiðréttur, innan um suma gömlu kúnnanna sem alltaf voru að biðja mig um að aðstoða sig við að svindla á skattinum. Úff.
Hafnarfirði, 9. september 2020.
Guðmundur Rúnar Óskarsson