Nú verður endurskoðun skemmtileg á ný
Mikilvægi endurskoðunar ársreikninga er ótvírætt. Endurskoðaður ársreikningur gefur notendum reikningsskilanna vissu um að hann sé án verulegra skekkna og gefi glögga mynd af rekstri, efnahag og fjárhagsstöðu viðkomandi fyrirtækis, enda er endurskoðun framkvæmd af óháðum aðila í samræmi við viðurkennda aðferðafræði.
Góð endurskoðunarvenja um hinn vestræna heim tekur í nær öllum tilfellum mið af alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum (ISA), útgefnum af alþjóðlega staðlaráðinu (IAASB). Eftir því sem hinir alþjóðlegu endurskoðunarstaðlar verða ítarlegri og flóknari verður notkun þeirra við endurskoðun lítilla fyrirtækja erfiðara og tímafrekara verkefni.
Norræna endurskoðunarsambandið (NRF) hefur haldið þeirri skoðun á lofti að ISA staðlarnir og þær kröfur sem þar eru gerðar taki í raun mið af stærri og flóknari fyrirtækjum og henti illa við endurskoðun lítilla fyrirtækja. Þessi þróun staðlanna hefur leitt til þess að miklum tíma er eytt í að uppfylla hinar ítarlegu skráningarkröfur og þá oft á kostnað þess tíma sem verja ætti í að skrá og framkvæma endurskoðunaraðgerðir byggðar á faglegu mati endurskoðandans hverju sinni. Að margra mati hefur endurskoðun þróast í þá átt að áhersla er á að merkja í reiti vinnuskjala og svara spurningalistum í stað þess að áhersla sé á eiginlegar endurskoðunaraðgerðir. Þessi nálgun kann að henta fyrirtækjum þar sem flækjustig er mikið en ekki einföldum fyrirtækjum.
Úr varð að NRF hóf í ársbyrjun 2014 þróun á staðli vegna endurskoðunar lítilla fyrirtækja, Standard for audits of small entities (SASE). Staðallinn er samstarfsverkefni NRF sem samanstendur af samtökum endurskoðenda í Svíþjóð, Danmörku, Finnlandi, Noregi og á Íslandi.
Að mati NRF mun hinn nýi staðall helst gagnast eigendum og stjórnendum þeirra fyrirtækja sem munu falla undir gildissvið hans. Minni áhersla verður á fylgni við staðla og aukin áhersla á faglegt mat og samskipti við stjórnendur og stjórn. Þessi áherslubreyting mun að öllum líkindum leiða til þess að reyndari endurskoðendur munu þurfa að koma að endurskoðuninni í auknum mæli og stjórnendur njóta því góðs af nálægð þeirra. Að öðru jöfnu ætti skilvirkni endurskoðunar að aukast fyrir vikið með tilheyrandi fækkun vinnustunda.
Þessu til viðbótar gerir NRF ráð fyrir eftirfarandi ábata af hinum nýja staðli:
- Með aukinni áherslu á beitingu faglegs mats við endurskoðun í stað fylgni við staðla eykst faglegt gildi endurskoðunarstarfsins, endurskoðun verður skemmtileg á ný.
- Áherslubreytingar við endurskoðun kunna að gera fagið meira aðlaðandi í augum ungs fólks við upphaf námsferils og endurskoðunarstéttin laðar þannig til sín hæft fólk.
- Með aukinni áherslu á faglegt mat endur-skoðandans hvað varðar áhættu á rangfærslum í ársreikningum, skráningu á faglegu mati og verulegum álitaefnum mun gagnrýnið hugarfar endurskoðandans styrkjast, það sem jafnan hefur verið nefnt faglegur efi (e. professional scepticism).
- Sú viðhorfsbreyting verður að endurskoðun lítilla fyrirtækja sé ekki bara lagakrafa sem þarf að uppfylla heldur gagnsöm og verðmæt þjónusta sem verður eftirsóknarverð fyrir viðskiptavininn.
- Þau endurskoðunarfyrirtæki sem þjónusta sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki og hafa til þessa barist í bökkum við að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru til endurskoðunar geta styrkt samkeppnisstöðu sína á endurskoðunarmarkaðnum.
Nýverið sendi Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) út drög að SASE-staðlinum til umsagnar ýmissa hagsmunaaðila hér á landi en þess er að vænta að staðallinn verði fullbúinn og tilbúinn til notkunar undir lok ársins.
Enn er þó ýmsum spurningum ósvarað um notagildi staðalsins, nauðsynlegar lagabreytingar eða til hvaða fyrirtækja staðallinn ætti að ná. FLE óskar eftir viðbrögðum fyrir 19. október frá umsagnaraðilum og er öllum frjálst að tjá sig um tilurð og efni staðalsins. Frekari upplýsingar fást á skrifstofu FLE.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 23. júlí 2015 bls. 12.