Nýjar reglur um ársreikninga lífeyrissjóða
Fjármálaeftirlitið setti nýlega nýjar reglur um ársreikningar lífeyrissjóða. Tóku þær gildi þann 11. mars síðastliðinn og eru nr. 335/2015. Nýju reglurnar komu í stað eldri reglna frá árinu 2000 og er um heildarendurskoðun að ræða á reglunum en nokkrar veigamiklar breytingar eru gerðar sem hafa áhrif á framsetningu og mat á ýmsum liðum í ársreikningum lífeyrissjóða.
Ekki er hægt að fjalla um allar breytingarnar í þessari stuttu umfjöllun heldur verður stiklað á stóru og reynt að draga fram þær markverðustu.
Aðalbreytingin er að nú gildir sú meginregla að meta skuli öll verðbréf (fjármálagerninga) í ársreikningum lífeyrissjóða á gangvirði. Þó eru útlán til sjóðfélaga og önnur bein útlán færð miðað við ávöxtunarkröfu á kaupdegi. Einkenni meginreglna eru sú að þær hafa undantekningar. Stærsta undantekningin frá gangvirðisreglunni er að lífeyrissjóðum er heimilt er að meta skuldabréf, sem ætlunin er að eiga út líftíma bréfsins, miðað við ávöxtunarkröfu en ekki á gangvirði. Strangar reglur gilda ef lífeyrissjóðir ætla að færa skuldabréf miðað við ávöxtunarkröfu í stað gangvirðis. Ákvörðunin um að eiga skuldabréf út líftíma þess skal byggja á skjalfestri áætlun, stefnum og verklagsreglum sem lífeyrissjóðir setja vegna fjárfestinga í skuldabréfum. Lífeyrissjóðir eiga á kaupdegi skuldabréfs að tilgreina hvort þeir ætla að eiga það til gjalddaga og meta í ársreikningi miðað við ávöxtunarkröfu. Óheimilt er að meta skuldabréf á gangvirði eftir að búið er að taka ákvörðun um að meta það miðað við ávöxtunarkröfu. Ennfremur er óheimilt að færa skuldabréf miðað við upphaflega ávöxtunarkröfu eftir að búið er að taka ákvörðunum að færa það á gangvirði.
Það vekur að vissu leyti athygli að sjá í nýju reglunum framangreinda undantekningu frá gangvirðisreglunni. Þessi undantekning leiðir til þess að samanburður á reikningsskilum lífeyrissjóða getur orðið erfiðari.
Samhliða breytingum á reglunum um mat á fjármálagerningum þá eru gerðar auknar kröfur um upplýsingar í skýringum sem tengjast gangvirði. Veita skal upplýsingar um helstu forsendur sem liggja að baki matslíkönum og matsaðferðum þegar gangvirði er ákvarðað og hverjar breytingar eru á gangvirði fyrir hvern flokk fjármálagerninga. Jafnframt eru gerðar ríkari kröfur um upplýsingar tengdar fjárhagslegri áhættu og áhættustýringu í ársreikningum lífeyrissjóða.
Við gildistöku nýju reglnanna er lífeyrissjóðum heimilt að endurflokka verðbréf sín til samræmis við breyttar matsreglur.
Í nýju reglunum er gerð breyting á flokkun tekna í yfirlitinu um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris þannig að tekjuflokkar og eignaflokkar eru samtengdir. Í yfirlitinu um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris eru hreinar tekjur af viðkomandi eignaflokki í efnahag sýndar á einum stað.
Auknar kröfur eru gerðar í nýju reglunum um upplýsingagjöf um fjárfestingargjöld. Í yfirliti um breytingar á hreinni eign til greiðslu lífeyris á að flokka undir liðnum fjárfestingargjöld öll fjárfestingargjöld og allar þóknanir fjármálafyrirtækja og sjóða um sameiginlega fjárfestingu vegna umsýslu og stjórnunar á fjárfestingum. Í skýringum á að veita nánari upplýsingar um þennan lið. Ef kostnaðarupplýsingar liggja ekki fyrir, t.d. þegar upplýsingar um slíkar þóknanir liggja ekki fyrir eða eru innifaldar í gengismun eða vaxtatekjum viðkomandi fjárfestingasjóða, skal greina frá áætlaðri umsýsluþóknun í skýringum.
Yfirlit um tryggingafræðilega stöðu, sem áður var skýring í ársreikningum lífeyrissjóða, verður núna sérstakt yfirlit. Ársreikningar lífeyrissjóða samanstanda því af yfirliti um breytingu á hreinni eign, efnahagsreikningi, sjóðstreymi, yfirliti um tryggingafræðilega stöðu samtryggingardeildar og skýringum. Þess skal þó getið að nýja reglurnar hafa ekki sérstök áhrif á mat á tryggingafræðilegri stöðu sjóðanna því um það mat gilda ákveðnar reglur sem byggjast á lífeyrissjóðalögunum og reglugerð þar að lútandi.
Nýju reglurnar öðluðust þegar gildi og koma til framkvæmda við gerð ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2015. Lífeyrissjóðir þurfa að huga tímanlega að þeim breytingum sem eru samfara þessu nýju reglum. Til dæmis þarf að taka ákvörðun um það hvort lífeyrissjóðir nýta sér heimild reglnanna til að endurflokka verðbréf sín, hvaða matsaðferð eigi að nota við mat á skuldabréfum og skjalfesta reglur og verklagsreglur vegna fjárfestinga í skuldabréfum.
Yfirfara þarf upplýsingakerfi til að meta það hvort hægt sé að nálgast nauðsynlegar upplýsingar sem krafa er gerð um í nýju reglunum til dæmis upplýsingar um fjárfestingargjöld og þóknanir til fjármálafyrirtækja.
Lífeyrissjóðir þurfa einnig að endurgera ársreikninga sína fyrir árið 2014 miðað við nýju reglurnar ef nýtt er heimild til þess að endurflokka verðbréf sín þannig að fjárhæðirnar fyrir árið 2014 séu samanburðarhæfar við ársreikning 2015.