Nýr staðall um fjármálagerninga lítur dagsins ljós
Stærri bankar á Íslandi beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við samningu reikningsskila sinna og í þeim efnum skiptir mestu máli sá staðall sem fjallar um fjármálagerninga þ.m.t. flokkun, mat og niðurfærsluþörf þeirra. Staðall þessi ber heitið IAS 39 og hefur bæði fyrir og eftir hrun verið gangrýndur mjög, bæði fyrir að vera svo flókinn að notendur hans eigi erfitt með að skilja hann og einnig fyrir það að með því að beita honum hafi bankar verið of seinir að færa niðurfærslur vegna útlána og því ofmetið eignir sínar í efnahagsreikningi. Megininntakið í reglum um niðurfærslur útlána í þeim staðli er það að ekki ber að færa tap fyrr en það er áfallið og að ekki skuli undir nokkrum kringumstæðum færa framtíðartap og skipti þá ekki máli hversu líklegt það var talið. Misjöfn sjónarmið hafa komið fram eftir hrun um hvernig beri að túlka þessa reglu og eru ýmsir á þeirri skoðun að semjendur reikningsskila og endurskoðendur hafi túlkað þessa reglu of bókstaflega.
Eftir hrun jókst þrýstingur mjög á Alþjóðlega reikningsskilaráðið (IASB) og bandaríska reikningsskilaráðið (FASB) að semja nýjar samræmdar og einfaldari reglur um fjármálagerninga og í apríl 2009 hvöttu ýmsir hagsmunaðilar þ.á.m. leiðtogar G-20 ríkjanna ráðin tvö til að sameinast um að leggja fram samræmda staðla um efnið fyrir lok árs 2009. Í þeim tilgangi að flýta fyrir, skipti IASB ferlinu niður í nokkra þætti, flokkun og mat fjáreigna, niðurfærslur, áhættuvarnarreikningsskil, fjárskuldir og afskráningu og lögð var fram áætlun sem gekk út á að hafa nýjan staðal tilbúinn í lok árs 2010.
Alþjóðlega reikningsskilaráðið (IASB) og bandaríska reikningsskilaráðið (FASB) unnu saman að verkefninu í þeim tilgangi að ná fram samræmdum reglum og í nóvember 2009 lagði IASB fram fyrsta hluta staðalsins sem fjallar um flokkun og mat fjáreigna og náðist samræming á milli aðila um þann hluta staðalsins og síðan fleiri eftir því sem leið á. Áfram hélt verkefnið og við tók meira krefjandi þáttur þess eða mat á niðurfærsluþörf útlána en aðilar í báðum nefndum, auk hagsmunaaðila voru sammála um að megininntakið ætti að breytast frá IAS 39 úr því að vera áfallið tap (e.incurred loss) í það að vera vænt tap (e. expected loss) og er það grundvallarbreyting frá því sem áður var. Þessi þáttur reyndist erfiður í fæðingu og hefur verkefnið stöðugt dregist á langinn og það var ekki fyrr en 24. júlí 2014, eða 5 árum eftir að verkefnið hófst, sem lokaútgáfa staðalsins, sem ber heitið IFRS 9, leit dagsins ljós og hafði þá slitnað upp úr samstarfinu við FASB um niðurfærsluhluta staðalsins og því náðist markmiðið um samræmdar reglur um fjármálagerninga ekki nema að hluta til. Hér er aðeins stiklað á stóru í umfjöllun en miklar umræður hafa verið á þessum tíma um niðurfærsluhlutann og það var ekki fyrr en í þriðju tilraun sem IASB náði að leggja fram endanlegar reglur um þann þátt.
IFRS 9 mun taka gildi á Íslandi þann 1. janúar 2018 að því gefnu að Evrópusambandið verði búið að samþykkja hann en m.v. reynsluna verður að teljast líklegt að svo verði en sambandið hefur ekki viljað samþykkja hann í hlutum heldur viljað bíða eftir endanlegri útgáfu hans í heild sinni. Bankar sem beita IFRS hafa haldið að sér höndum með undirbúning upptöku staðalsins og er skýringin að mestu sú að ekki hefur verið vilji hjá þeim til að leggja í undirbúningsvinnu fyrr en ljóst væri hver niðurstaðan yrði. Nú liggja reglurnar hins vegar fyrir og bankar hafa hafið undirbúning. Ekki er hægt að segja fyrir á þessari stundu hver verða áhrif hinna nýju reglna á reikningsskil íslensku bankanna en það hefur verið í umræðunni að sveiflur í niðurfærslum muni aukast þar sem horfa þarf til framtíðar sem eykur óvissuna og dregur á sama tíma úr samanburðarhæfni á milli banka. Einnig er rætt um að niðurfærslur muni líklega aukast og eigið fé þar af leiðandi dragast saman. Að lokum er rétt að nefna að nýju reglurnar minnka bilið sem hefur verið á milli Baselreglnanna um mat á útlánatapi og reikningsskilareglnanna þar sem báðar gera nú ráð fyrir væntu tapi útlána.