Óhæði og hlutverk endurskoðenda
Óhæði er einn af hornsteinum endur-skoðunarstarfsins. Sérstök ákvæði um persónulegt og fjárhagslegt óhæði endurskoðenda er að finna í lögum um endurskoðendur og siðareglum stéttarinnar. Siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda (FLE) eru í raun hluti af lögum um endurskoðendur, en samkvæmt þeim skulu allir íslenskir endurskoðendur hlíta ákvæðum siðareglnanna. Endurskoðandi verður að vera óháður því fyrirtæki sem hann endurskoðar bæði í reynd og ásýnd. Miklar takmarkanir eru á því hvernig endurskoðandinn má tengjast því félagi sem hann endurskoðar og stjórnendum þess.
Í Siðareglum endurskoðenda er m.a. að finna eftirfarandi reglur um óhæði við endurskoðun:
• Endurskoðendum er óheimilt að eiga fjárhagslegra hagsmuna að gæta svo sem að eiga hlut í fyrirtæki sem þeir endurskoða.
• Ef endurskoðandi á mikinn hluta tekna sinna undir einum og sama viðskiptavininum þá skapast eiginhagsmunaógnun sem þarf að leggja mat á.
• Endurskoðendum eru sett ákveðin takmörk fyrir því hvaða viðbótar þjónustu þeim er heimilt að veita endurskoðuðu félagi.
• Endurskoðendur eininga tengdum almanna-hagsmunum þurfa að taka sér hlé frá endurskoðun þeirra eftir tiltekinn tíma.
• Endurskoðendum sem árita endurskoðaðan ársreikning eininga tengdum almannahagsmunum eru settar reglur sem takmarka möguleika þeirra á að taka við áhrifastöðu hjá viðkomandi einingu.
Framangreint er ekki tæmandi upptalning á þeim óhæðisreglum sem gilda um endurskoðendur. Á vef FLE er hægt að nálgast siðareglur endurskoðenda í heild sinni. Óhæðiskafli siðareglna endurskoðenda er mjög ítarlegur en frekari ákvæði um óhæði endur-skoðenda má t.d. finna í lögum um fjármálafyrirtæki. Almennt má segja að endurskoðendur þurfi að gæta þess að stofna dómgreind sinni ekki í hættu vegna hlutdrægni, hagsmunaárekstra eða óviðeigandi áhrifa frá öðrum. Endurskoðandinn þarf því að forðast samskipti sem brengla eða hafa óviðeigandi áhrif á dómgreind hans.
Hlutverk og ábyrgð endurskoðenda ákvarðast í lögum og alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum (ISA). Hlutverk endurskoðenda er að staðfesta upplýsingar sem birtast í ársreikningum og felst ábyrgð þeirra í því áliti sem þeir láta í ljós á ársreikningnum á grundvelli endurskoðunarinnar.
Niðurstaða endurskoðanda er sett fram í áliti sem fram kemur í áritun á ársreikninginn. Í endurskoðun felst ekki staðfesting á innra eftirliti né mat á þeim ákvörðunum sem stjórnendur taka í rekstri. Það er einmitt grundvallaratriði að endurskoðandi komi ekki á neinn hátt að ákvarðanatöku hjá því fyrirtæki eða stofnun sem hann endurskoðar.
Reikningsskilaaðferðir eru ákvarðaðar í lögum um ársreikninga og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Endurskoðendur eru óháðir aðilar sem staðfesta upplýsingar en eru ekki þeir aðilar sem ákveða hvernig upplýsingar eru settar fram í ársreikningi.
Telji endurskoðandi að ársreikningur sé ekki í samræmi við þær reglur sem um gerð hans gilda ber honum að geta um það í áritun sinni á ársreikninginn.
Alþjóðlegir endurskoðunarstaðlar (ISA) eru gefnir út af alþjóðasamtökum endurskoðenda (IFAC) sem Félag löggiltra endurskoðenda er aðili að. Í lögum um endurskoðendur kemur fram að endurskoðendur skuli rækja störf sín í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla og alþjóðlega staðla um gæðaeftirlit.
Samkvæmt alþjóðlegum endurskoðunarstöðlum ber endurskoðendum að fara eftir settum siðareglum og skipuleggja og haga endurskoðuninni þannig að nægjanleg vissa fáist um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka. Alþjóðlegir staðlar um endurskoðun eru vel á fjórða tuginn og fjalla þeir m.a. um meginreglur endurskoðunar, hinar ýmsu skyldur endurskoðenda, áhættumat við endurskoðun, endurskoðunargögn, endurskoðunaraðgerðir og niðurstöður endurskoðunar, s.s. áritanir endurskoðenda.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 20 ágúst 2015 bls. 12.