Reglur um milliverðlagningu
Í janúar 2014 komu til framkvæmda á Íslandi sérstakar milliverðsreglur sem gilda um viðskipti tengdra lögaðila bæði yfir landamæri og innanlands. Íslenskar milliverðsreglur kveða á um að í viðskiptum tengdra lögaðila sé verð sambærilegt því verði sem hefði myndast á markaði milli ótengdra lögaðila. Skattyfirvöld hafa heimild til að meta og leiðrétta viðskipti tengdra lögaðila ef verðlagning og/eða skilmálar í viðskiptum milli tengdra lögaðila eru ekki sambærileg því sem almennt gerist í viðskiptum milli ótengdra lögaðila.
Milliverðsreglurnar taka sérstaklega til lögaðila sem hafa rekstrartekjur eða eiga eignir yfir einum milljarði á reikningsári þar sem sérstök skjölunar-skylda hvílir á slíkum aðilum. Í nýlegu nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar og eftir samskipti við fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur komið fram að ekki stofnist til hinnar sérstöku skjölunarskyldu fyrr en frá og með 1. janúar 2015 ef milljarðsmarkinu er náð á árinu 2014.
Í skjölunarskyldunni felst að ríkar kröfur eru gerðar til skjölunar viðskipta við tengda lögaðila, svo sem varðandi eðli og umfang viðskiptanna. Í lok desember 2014 var birt reglugerð um skjölun og milliverðlagningu í viðskiptum tengdra lögaðila sem hefur að geyma ákvæði er kveða á um hvaða upplýsingar íslensk skattyfirvöld gera kröfur um að séu tiltækar á grundvelli hinnar sérstöku skjölunarskyldu. Ljóst er af reglugerðinni að þær kröfur sem íslensku reglurnar gera til skjölunar eru umtalsvert ríkari en hjá þeim ríkjum sem við kjósum almennt að bera okkur saman við. Slíkar kröfur eru til þess fallnar að auka kostnað íslenskra fyrirtækja og skerða samkeppnishæfni þeirra. Rétt er þó að taka fram að samkvæmt reglugerðinni getur skjölunar-skyldur lögaðili valið að skjala í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í starfsreglum Evrópu- sambandsins (ESB) um skjölun í viðskiptum milli tengdra aðila innan ESB (e. EU code of conduct on transfer pricing documentation for associated enterprises in the European Union 2006/C 176/01) í stað þess að skjala í samræmi við íslensku reglu-gerðina. Skjölun samkvæmt starfsreglum ESB er umtalsvert minna íþyngjandi en ákvæði íslensku reglugerðarinnar. Er því erfitt að sjá fyrir þau tilvik að aðili kjósi að skjala í samræmi við íslensku reglu-gerðina fremur en starfsreglur Evrópusambandsins.
Frumvarp til laga um breytingar á milliverðsreglum var lagt fram á Alþingi í nóvember en ekki náðist að afgreiða það fyrir þinghlé í desember. Það sem ef til vill er markverðast við frumvarpið er að í því skuli ekki vera mælt fyrir um undanþágu frá hinni sérstöku skjölunarskyldu fyrir lögaðila sem eingöngu eiga í viðskiptum við innlenda aðila. Þrátt fyrir að fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi lagt fram minnisblað fyrir efnahags- og viðskiptanefnd þar sem tillaga þess efnis var sett fram. Þetta vekur sérstaka athygli í ljósi þess að mikilvægt er að íþyngja slíkum aðilum ekki með óþarfa skjölunarskyldu enda er almennt markmið reglna um milliverðlagningu að hindra að skattstofnar séu flutti milli landa.
Staðan er því sú að þeir lögaðilar sem fóru fram úr milljarðsmarkinu á árinu 2014 og stunda viðskipti við tengda aðila, hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir, þurfa að skjala viðskiptin í samræmi við hinar sérstöku skjölunarreglur.
Þess má þó geta að KPMG hefur haft spurnir af því að vilji sé fyrir því að undanþiggja viðskipti aðila sem stunda einungis viðskipti við innlenda aðila frá hinni sérstöku skjölunarskyldu. Mikilvægt er því að gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu og lögfesta það sem fyrst til að koma í veg fyrir að félög sem einungis eiga í viðskiptum við innlenda aðila þurfi að leggja út í óþarfa vinnu og kostnað.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 22. janúar 2015 bls. 12.