Samspil innri og ytri endurskoðunar
Ínnri og ytri endurskoðendur gegna mikilvægu eftirlitshlutverki hjá fyrirtækjum og stofnunum. Ýmislegt er líkt með þessum stéttum en báðar hafa þær eftirlit með innra eftirliti.
Í lögum um fjármálafyrirtæki er gerð krafa um að fjármálafyrirtæki starfræki innri endurskoðunardeildir. Smærri fjármálafyrirtæki geta þó fengið heimild til að útvista innri endurskoðun til móðurfélags eða til utanaðkomandi sérfræðings svo sem endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis, þó ekki til þess sama sem sinnir ytri endurskoðun. Þrátt fyrir að það ekki sé krafa í lögum, er það að verða algengara að önnur fyrirtæki en fjármálafyrirtæki starfræki slíkar deildir. Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um opinber fjármál. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að innri endurskoðun skuli framkvæmd hjá ríkisaðilum í A-hluta. Mikilvægi innri endurskoðunar endurspeglast í greinargerð með frumvarpinu en þar kemur fram að „tilgangur innri endurskoðunar er að stuðla að bættum rekstri ríkisaðila og auka líkur á því að markmiðum þeirraverði náð með því að meta með kerfisbundnum hætti skilvirkni áhættustýringar, eftirlitsaðferða og stjórnarhátta“.
Mikilvægt er að stjórnir og stjórnendur fyrirtækja og stofnana, sem ekki ber skylda samkvæmt lögum til að starfrækja innri endurskoðunardeildir, íhugi vel kosti þess að ráða starfsmann/starfsmenn til að sinna innri endurskoðun eða útvista innri endurskoðun til fagaðila. Flest fyrirtæki og stofnanir hafa formlega eða óformlega skilgreint stefnu og markmið og vinna ötullega að því að ná markmiðum sínum. Innri endurskoðun getur staðfest á óháðan og hlutlægan hátt að fyrirtækið hafi skilgreint þá þætti sem hugsanlega gætu komið í veg fyrir að árangur náist og hafi á kerfisbundinn hátt stýrt þessum þáttum. Þannig geta fyrirtæki byggt upp virkt innra eftirlit grundvallað á markmiðum fyrirtækisins.
Í lögum um endurskoðendur er löggiltur endurskoðandi skilgreindur sem „sá sem hefur þekkingu til að gefa hlutlaust og áreiðanlegt álit á reikningsskilum og öðrum fjárhagsupplýsingum, hefur löggildingu til starfa við endurskoðun …“ Í lögunum er ytri endurskoðun skilgreind á eftirfarandi hátt:
„Óháð og kerfisbundin öflun gagna og mat á þeim í þeim tilgangi að láta í ljós rökstutt og faglegt álit endurskoðanda um áreiðanleika og framsetningu í samræmi við lög, settar reikningsskilareglur eða önnur skilyrði sem fram koma í álitsgerðinni.“
Í þeim fyrirtækjum og stofnunum þar sem bæði fer fram innri og ytri endurskoðun er ljóst að vinna innri og ytri endurskoðenda getur skarast þar sem báðir þessir aðilar eru að prófa virkni innra eftirlits. Ytri endurskoðendur beina þó sjónum sínum fyrst og fremst að innra eftirliti með fjárhagsupplýsingum á meðan sýn innri endurskoðanda er mun víðtækari og þarf að beinast að öllum þáttum starfseminnar, þ.m.t. fjárhagsupplýsingum en einnig stjórnarháttum og áhættustýringu. Innri og ytri endurskoðendur þurfa að eiga góð samskipti og fara yfir áhættumat sameiginlega til að forðast tvíverknað. Þessi samskipti eru talin það mikilvæg að settur hefur verið sérstakur staðall fyrir ytri endurskoðendur með kröfum og leiðbeiningum um hvernig þeir geti reitt sig á störf innri endurskoðenda og hvernig ytri endurskoðandi á að bera sig að við að yfirfara og prófa vinnu innri endurskoðenda. Ytri endurskoðandi getur þó ekki útvistað ábyrgð sinni til innri endurskoðanda og því þarf hann að yfirfara vel hæfni innri endurskoðanda og hvort vinna innri endurskoðanda geti nýst í ytri endurskoðun.
Með aukinni þekkingu og reynslu á innri endurskoðun reynir nú enn meira á samskipti innri og ytri endurskoðenda. Saman gegna þessir aðilar mikilvægu eftirlitshlutverki með innra eftirliti og áhættustýringu og innbyrðis samskipti þeirra skipta miklu máli til að bæta innra eftirlitskerfi og styðja þannig fyrirtæki í að ná enn betri árangri.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 18. desember 2014 bls. 12.