Samtímaendurskoðun skapar verðmæti
Á síðustu árum hefur starf innri og ytri endurskoðenda verið að breytast umtalsvert. Fyrir um 20 árum snerust störf ytri endurskoðenda að mestu um gerð ársreikninga og staðfestingarvinnu tengt efnahagsliðum ársreiknings en innri endur-skoðendur gerðu úrtakskannanir á ferlum og kerfisbundnum þáttum í rekstrinum. Með aukinni reikningsskilaþekkingu innan fyrirtækja og bættri tækni færðist gerð ársreikninga frá endurskoðendum til fjármáladeilda fyrirtækjanna. Samhliða jókst áhersla innri og ytri endurskoðenda á sjálfstæðar eftirlitsaðgerðir sem gætu leitt í ljós áreiðanleika reikningsskilanna og þeirra ferla sem mynda upplýsingar í þeim.
Þrátt fyrir að val á endurskoðunaraðgerðunum byggist á áhættumati og beinist að áhættusömustu þáttum rekstrarins hafa niðurstöður endurskoðunar skilið eftir nokkra óvissu. Hún stafar af því að endurskoðunaraðgerðirnar byggjast á mati á gæðum innra eftirlits í verklagi innan fyrirtækja og það hefur lengst af verið sannreynt með úrtakskönnunum og ályktunum út frá þeim. Þetta á einkum við um það sem endurskoðendur kalla „kerfisbundnar færslur“. Með aukinni tækni hefur reynst mögulegt að útfæra eftirlitsaðgerðir sem ná utan um meira magn af færslum, kalla fram öll frávik í lykil-skráningum tekna, gjalda, eigna og skulda og varpa þannig skýrara ljósi á veikleika í rekstri og gagnaskráningu. Tæknin gerir ekki aðeins mögulegt að ná utan um heildargagnasöfn heldur gefst tækifæri til að vinna endurskoðunaraðgerðir tíðar og jafnvel í rauntíma. Endurskoðunaraðgerð sem leiðir fram frávik eða villur í rauntíma eða innan einstakra reikningstímabila getur því komið í veg fyrir tjón í stað þess að leiða aðeins fram tjón sem ekki verður bætt.
Vel heppnuð endurskoðunaraðgerð sem skilar verðmætum upplýsingum til stjórnenda um veikleika í kerfislægri skráningu getur í framhaldinu verið sett upp sem áframhaldandi eftirlitsþáttur fyrir stjórnendur og þannig byggst upp vaxandi grunnur af samtímaeftirlitsaðgerðum í rekstri. Endurskoðandi getur því látið nægja að lesa úr tölfræði og niðurstöðum sjálfvirka eftirlitsins til að meta áreiðanleika fjárhagsupplýsinga en varið tíma sem annars hefði farið í úrtakskannanir í að meta áhættuþætti að nýju. Í kjölfarið getur hann skilgreint nýjar áherslur við skipulagningu endurskoðunarinnar og sett upp nýjar rafrænar endurskoðunaraðgerðir. Með þessu móti verða til sífellt fleiri eftirlitsþættir úr endurskoðunarvinnunni sem breyta má í reglubundnar eftirlits-aðgerðir innan fyrirtækjanna.
Smæð íslenskra fyrirtækja hentar vel til að koma á virku samtímaeftirliti og samtímaendurskoðun. Reynslan hér á landi hefur sýnt að hægt er að koma því á með hóflegum tilkostnaði og sú fjárfesting skilað sér margfalt til baka. Mörg íslensk fyrirtæki hafa á síðustu fimm árum sett upp kerfisbundið eftirlit með þessum hætti og sum þeirra náð eftirtektarverðum árangri við að uppræta skekkjur og draga úr óvissu í tæknilega flóknum rekstri, jafnvel í rekstri þar sem alþjóðleg viðmið gera ráð fyrir tilteknum frávikum vegna kerfislægra galla. Eitt slíkt dæmi hefur nú verið unnið sem Case Study í samstarfi við prófessor við Rutgers-háskólann í New Jersey og verður birt í kennslubók í fyrir löggilta endurskoðendur í Bandaríkjunum síðar á þessu ári.
Mikil þörf er fyrir kerfisbundna rýni á starfsemi og verklagi fyrirtækja í þeim hröðu tæknibreytingum sem eiga sér stað í nútímarekstri og þá nýtist gagnrýnin hugsun þjálfaðra endurskoðenda vel. Samtímaendurskoðun og samtímaeftirlit getur að mínu mati aukið verðmæti í þjónustu endurskoðenda og hjálpað stjórnendum og hluthöfum að sjá með skýrum hætti hvaða fjármuni hægt er að koma í veg fyrir að tapist vegna veikleika í kerfum og skipulagi starfseminnar, samhliða því meginmarkmiði endurskoðunarinnar að auka áreiðanleika reikningsskila fyrir notendur þeirra.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 28. maí 2015 bls. 12.