Án sjálfsgagnrýni verður þróun stéttarinnar takmörkunum háð. En slík gagnrýni þarf ávallt að vera gerð á málefnalegum grunni, með hagsmuni stéttarinnar og almannahagsmuni að leiðarljósi.

Siðareglur endurskoðenda

Sturla Jónsson endurskoðandi hjá Grant Thornton og formaður Félags löggiltra endurskoðenda

Í lögum um endurskoðendur er að finna ákvæði þess efnis að endurskoðendur skuli starfrækja störf sín af kostgæfni og samviskusemi í hvívetna, beri að fylgja siðareglum sem settar hafa verið af Félagi löggiltra endurskoðenda og teljist opinberir stjórn-sýslumenn við framkvæmd endurskoðunarstarfa. Á löggiltum endurskoðendum hvíla því skyldur umfram þær sem hvíla á öðrum ráðgjöfum eða almennum starfsmönnum. Sem opinberum stjórnsýslumönnum má líkja endurskoðendum við opinbera starfsmenn og njóta þeir réttinda og bera skyldur í samræmi við lög um opinbera starfsmenn. Í því felst að brot í starfi getur varðað refsingu í samræmi við almenn hegningarlög.

Forsenda þessarar skyldu er hinn eiginlegi tilgangur endurskoðunarstarfsins, að starfa í þágu almannahagsmuna og skapa þannig traust í viðskiptum. Af þessu leiðir að ábyrgð endurskoðandans felst ekki eingöngu í því að uppfylla þarfir einstaks viðskipta-vinar eða vinnuveitanda, heldur samfélagsins alls.

Árið 2010 samþykktu félagsmenn í Félagi löggiltra endurskoðenda siðareglur sem síðar voru staðfestar af efnahags- og viðskiptaráðherra í febrúar 2011. Þessar reglur byggjast á siðareglum alþjóðasamtaka endurskoðenda (IFAC) „Code of Ethics for Professional Accountants“ og eru í raun bein þýðing þeirra reglna. Hafa reglurnar staðið óbreyttar síðan. Allir endur-skoðendur sem hafa virk réttindi til löggildingarstarfa eru þannig skyldugir að fylgja þessum siðareglum.

Siðareglum Félags löggiltra endurskoðenda er skipt í þrjá hluta, þar sem einn hluti er sérstaklega sniðinn að endurskoðunarfyrirtækjum og þeim endur-skoðendum sem starfa við endurskoðun, meðan hinir tveir ná til allra endurskoðenda. Þegar rýnt er í félagatal FLE má sjá að um fjórðungur þeirra endur-skoðenda sem hafa virk réttindi er ekki starfandi við endurskoðun heldur eru þeir starfandi í atvinnulífinu við margvísleg störf. Einnig verður að leiða að því líkum að nokkuð stór hluti annarra löggiltra endurskoðenda áriti ekki ársreikninga með endurskoðunar-áritun heldur starfi fyrst og fremst við frágang á bókhaldi, ársreikningagerð, skattaráðgjöf eða við önnur ráðgjafarstörf. Engu að síður ber þessum endurskoðendum að þekkja siðareglurnar og fylgja þeim þar sem við á. Siðareglur Félags löggiltra endur-skoðenda eru nokkuð ítarlegar og snerta ótal fleti endurskoðunarstarfsins og starfs endurskoðandans sem fagmanns. Áhugavert er að velta fyrir sér ákvæðum eins og reglunni um faglega hegðun:

Reglan um faglega hegðun leggur þá skyldu á alla endurskoðendur að þeir fari eftir viðkomandi lögum og reglum og forðist allt sem endurskoðandi veit eða ætti að vita að geti kastað rýrð á starfsgrein hans. Þetta nær til atferlis þar sem óvilhallur og upplýstur þriðji aðili er líklegur til að álykta, að teknu tilliti til sérstakra staðreynda og aðstæðna endurskoðandans á þeim tíma, að atferlið hefði neikvæð áhrif á orðspor starfsgreinarinnar.“ (grein 150.1, bls. 16 í Siðareglum FLE)

Reglan felur í sér að endurskoðandi skuli í athöfnum sínum, jafnt innan sem utan starfsins, forðast það sem gæti kastað rýrð á stéttina og haft neikvæð áhrif á orðspor hennar í augum þriðja aðila. Athafnir hans skulu í einu orði vera faglegar og stéttinni til sóma.
Við lestur þessa ákvæðis vakna áleitnar spurningar. Skulu endurskoðendur þá ávallt sitja stilltir og prúðir og forðast opinbera umræðu til að eiga ekki á hættu að kasta rýrð á orðspor stéttar sinnar? Og hvað með almenna gagnrýni á aðra endurskoðendur eða stéttina í heild sinni? Hún gæti vissulega verið til þess fallin að kasta rýrð á stéttina og hafa neikvæð áhrif. Geta endurskoðendur þá ekki haldið uppi gagnrýni á eigin stétt eða störf annarra endurskoðenda?

Reglunni um faglega hegðun er ekki ætlað að koma í veg fyrir sjálfsgagnrýni innan stéttarinnar eða almenna gagnrýni yfirhöfuð. Hún gerir þó skýra kröfu um að slík gagnrýni sé faglega framsett, málefnaleg og byggð á staðreyndum en ekki sögusögnum. Ómál-efnaleg og ómakleg gagnrýni á opinberum vettvangi á hendur öðrum endurskoðendum er ekki stéttinni til framdráttar. Hún er einfaldlega ekki fagleg.

Sjálfsgagnrýni er hverri fagstétt einstaklega mikilvæg og endurskoðendur sem aðrir þurfa að beina henni í jákvæðan og uppbyggilegan farveg. Án sjálfsgagnrýni verður þróun stéttarinnar takmörkunum háð og líklegt að aðrir hagsmunaaðilar taki í stjórnartaumana í þeim efnum og þá í gegnum lagasetningar og breytingar á regluverki. En slík gagnrýni þarf ávallt að vera gerð á málefnalegum grunni, með hagsmuni stéttarinnar og almannahagsmuni að leiðarljósi.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 15. október 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 15. okt. 2015
15.10.2015