Siðareglur endurskoðenda og gæðaeftirlit
Í lögum um endurskoðendur kemur fram að Félag löggiltra endurskoðenda skuli, í samráði við Endurskoðendaráð, setja siðareglur fyrir endurskoðendur. Samkvæmt lögunum skulu endurskoðendur fylgja siðareglum þeim sem settar hafa verið af félaginu og hlotið staðfestingu ráðherra.
Félag löggiltra endurskoðenda hefur sett siðareglur fyrir endurskoðendur á Íslandi og byggjast þær á siðareglum alþjóðasamtaka endurskoðenda (IFAC). Siðareglurnar skiptast í þrjá hluta:
A hluti - Almenn notkun reglnanna
B hluti - Starfandi endurskoðendur
C hluti – Endurskoðendur sem starfa við annað en endurskoðun
Í siðareglunum eru fimm grundvallarreglur sem endurskoðendur skulu hlíta:
1. Heilindi. Endurskoðandi skal vera hreinskiptinn og heiðarlegur í öllum samskiptum.
2. Hlutlægni. Endurskoðandi skal ekki láta hlutdrægni, hagsmunaárekstra eða óviðeigandi áhrif annarra ráða dómgreind sinni.
3. Fagleg hæfni og varkárni. Endurskoðanda er ætíð skylt að viðhalda faglegri þekkingu og hæfni sinni til að tryggja að viðskiptavinur eða vinnuveitandi fái fullnægjandi faglega þjónustu í samræmi við nýjustu framþróun í starfsgreininni, lagasetningu og starfsaðferðir. Endurskoðandi skal starfa af kostgæfni og í samræmi við viðurkennda staðla þegar hann veitir faglega þjónustu.
4. Trúnaður. Endurskoðandi skal gæta trúnaðar í faglegum og viðskiptalegum samskiptum sínum og ekki veita þriðja aðila upplýsingar án sérstakrar heimildar nema það sé réttmætt eða skylt samkvæmt lögum eða faglegum kröfum. Slíkar upplýsingar skulu hvorki notaðar í eigin þágu endurskoðandans né þriðja aðila.
5. Fagleg hegðun. Endurskoðandi skal fara eftir lögum og reglugerðum og forðast allt sem kastað gæti rýrð á endurskoðendastéttina.
Í siðareglunum er ítarleg umfjöllun um óhæði endurskoðenda, hvað kann að ógna óhæði endurskoðenda og hvernig koma megi í veg fyrir að óhæði endurskoðenda sé ógnað. Siðareglur fyrir endurskoðendur er að finna í heild sinni á heimasíðu félagsins, www.fle.is.
Samkvæmt lögum um endurskoðendur er endurskoðunarfyrirtækjum og endurskoðendum sem þar starfa og sjálfstætt starfandi endurskoðendum skylt að sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á sex ára fresti. Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum skulu þó sæta gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti.
Markmið gæðaeftirlits með störfum endurskoðenda er að tryggja að endurskoðendur og endurskoðunarfyrirtæki ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga um endurskoðendur, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.
Gæðaeftirlit nær til allra endurskoðenda sem bera ábyrgð á endurskoðunarverkefnum en eftirlitið getur beinst að endurskoðunarfyrirtæki í heild sinni ef um sameiginlegt gæðastjórnunarkerfi er að ræða í fyrirtækinu. Gæðaeftirlitið felur í sér könnun á gæðakerfi endurskoðunarfyrirtækis og gæðastjórnun endurskoðenda sem tryggir að endurskoðunarfyrirtæki og endurskoðendur ræki störf sín í samræmi við ákvæði laga um endurskoðendur, siðareglur Félags löggiltra endurskoðenda og aðrar reglur sem taka til starfa endurskoðenda.
Félag löggiltra endurskoðenda skal annast gæðaeftirlit í samráði við Endurskoðendaráð og Endurskoðendaráð skal árlega birta upplýsingar um heildarniðurstöðu gæðaeftirlitsins.
Endurskoðendur eða endurskoðunarfyrirtæki sem annast endurskoðun eininga tengdra almannahagsmunum þurfa að sæta opinberu gæðaeftirliti eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti en almenna krafan er á sex ára fresti. Þeim er jafnframt skylt að birta árlega skýrslu um gagnsæi þar sem m.a. koma fram ýmsar upplýsingar um viðkomandi endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki.