Skattaívilnanir fyrir sprotafyrirtæki
Sprotafyrirtæki er hugtak sem notað hefur verið yfir nýstofnuð og ung fyrirtæki sem venjulega eru sprottin upp úr rannsókna- eða þróunarverkefnum einstaklinga, hópa eða fyrirtækja sem eru á því stigi að þróa viðskiptahugmynd og rannsaka markaðinn fyrir hana. Ívilnanir geta skipt miklu fyrir slík fyrirtæki fyrstu árin á meðan þau eru að komast af stað og vinna sig í átt að því að fara að skila hagnaði og þar með skatttekjum fyrir þjóðfélagið síðar meir. Það getur reynst dýrmætt að skipuleggja verkefni fram í tímann þannig að fyrirtækið geti átt þess kost að njóta góðs af ívilnunum sem í boði eru. Í skattamálum, líkt og mörgu öðru, gildir hið fornkveðna að í upphafi skyldi endinn skoða.
Í gildi eru lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 152/2009 sem sprotafyrirtæki eiga kosta á að nýta sér að vissum skilyrðum uppfylltum. Stuðningurinn er fólginn í frádrætti frá álögðum tekjuskatti. Ef tekjuskattur er lægri en frádrátturinn, eða ef ekki lagður tekjuskattur á sprotafyrirtækið vegna skattalegs taps, er frádrátturinn greiddur til félagsins. Frádráttur er því ekki lýsandi heiti þar sem komið getur til útgreiðslu úr ríkissjóði. Frádrátturinn miðast við 20% af útlögðum kostnaði vegna nýsköpunarverkefnis sem hefur fengið staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands (Rannís), þó að hámarki 100 m.kr. á ári (20 m.kr. ívilnun) eða 150 m.kr.(30 m.kr. ívilnun) ef um aðkeypta rannsóknar- eða þróunarvinnu er að ræða. Njóti verkefnið annarra styrkja frá opinberum aðilum getur það leitt til lækkunar á ívilnun eftir ákvæðum laganna um hámark opinbers stuðnings.
Sprotafyrirtæki þarf að vera á félagaformi sem vísað er til í lögunum, t.d. einkahlutafélag, til að skattívilnun komi til greina. Strax við stofnun sprotafyrirtækis er því mikilvægt að velja rétt félagaform. Til að verkefni geti hlotið staðfestingu Rannís þarf það að teljast rannsóknar- eða þróunarverkefni samkvæmt lögunum og að verkefnið sé hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu. Nú í mars var gefin út reglugerð nr. 247/2015 sem breytti gildandi reglugerð um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki nr. 758/2011. Í reglugerðinni eru rannsóknir og þróun skilgreind ítarlegar auk þess sem tiltekið er hvaða starfsemi telst ekki til þróunar heldur hluti af almennum rekstri sem er til bóta.
Sprotafyrirtæki þurfa sjálf að verja a.m.k. 1 milljón króna til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili og starfsmenn eiga að hafa hlotið þjálfun, menntun eða búa yfir reynslu á því sviði sem hugmynd að virðisaukandi vöru eða þjónustu byggist á, til að verkefni fái staðfestingu. Það stóð til að hækka lágmarkið í 5 milljónir króna en hætt var við það sem verður að teljast jákvætt enda nýtist skattívilnunin sérstaklega litlum félögum.
Rétt er að hafa í huga að fyrirtæki í fjárhagsvanda og félög sem ríkið á endurkröfurétt á vegna ólögmætrar ríkisaðstoðar eiga þess ekki kost að fá staðfestingu verkefna hjá Rannís. Í reglugerðinni er skilgreint hvenær fyrirtæki telst eiga í fjárhagsvanda. Þar kemur m.a. fram að félag með takmarkaðri ábyrgð, s.s. einkahlutafélag, telst félag í fjárhagsvanda ef bókfært eigið fé þess fer undir ákveðið viðmið. Skilyrði um eigið fé eru nokkuð stíf en þó hjálpar til að lítil og meðalstór fyrirtæki (færri en 250 starfsmenn) eru undanþegin þessu viðmiði í þrjú ár frá upphafi starfseminnar. Það má velta því fyrir sér hvort það sé of skammur tími, sérstaklega fyrir lítil sprotafyrirtæki sem geta þurft lengri tíma til að byggja upp eigi fé sitt.
Rétt er að geta þess að öll fyrirtæki, ný sem gömul, stór sem lítil, sem vinna að verkefnum sem rúmast innan ramma laganna geta sótt um framangreinda skattívilnun, ekki bara sprotafyrirtæki. Umsóknarfrestur til Rannís er til 1. október ár hvert (var áður 1. september) en umsókn um árlega framlengingu staðfestingar vegna framhaldsverkefnis þarf að skila fyrir 1. apríl ár hvert.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 19. mars 2015 bls. 12.