Í þessu sambandi má einnig hafa í huga að þar sem útleiga húsnæðis til ferðamanna telst vera atvinnurekstur þá er húsnæði það sem notað er atvinnuhúsnæði. Af því leiðir að sveitarfélögum er heimilt að miða álagningu fasteignagjalda við atvinnuhúsnæði.

Skattlagning húsaleigutekna

Alexander G. Eðvardsson sviðstjóri Skatta- og lögfræðisviðs KPMG

Í þessu sambandi má einnig hafa í huga að þar sem útleiga húsnæðis til ferðamanna telst vera atvinnurekstur þá er húsnæði það sem notað er atvinnuhúsnæði. Af því leiðir að sveitarfélögum er heimilt að miða álagningu fasteignagjalda við atvinnuhúsnæði. Fasteignagjöld geta því þrefaldast á viðkomandi húsnæði.

Í þeim breytingum á lögum sem boðaðar eru í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2016 er að finna áhugaverða breytingu á skattlagningu húsaleigutekna. Þar er lagt til að veittur verði 50% afsláttur af fjármagnstekjuskatti á húsaleigutekjur og verður skattur á þær því 10%. Skattur á húsaleigutekjur er nú 14% og því um verulega lækkun að ræða ef breytingin nær fram að ganga.
Með tillögunni er einnig áréttað að framangreind skattlagning eigi einungis við þegar leigt er til lengri tíma til einstaklinga sem búsettir eru í viðkomandi húsnæði, eða eins og segir í frumvarpinu, til búsetu leigjenda. Fram kemur í greinargerð með frumvarpinu að breytingin sé liður í stuðningi ríkisstjórnarinnar við almennan leigumarkað og tilgangurinn að lækka leiguverð og auka framboð leiguíbúða. Áréttað er að einungis sé átt við tekjur af útleigu íbúðarhúsnæðis til varanlegrar búsetu en ekki skammtímaleigu til ferðamanna eða annarra sem fellur undir gistiþjónustu í atvinnuskyni.

Tekjur af útleigu til ferðamanna er ekki heimilt er að skattleggja með framangreindum hætti. Þess í stað er um að ræða atvinnurekstur sem lýtur almennum skattlagningarreglum atvinnurekstrar. Í því felst að frá tekjum af útleigu er heimilt að draga allan almennan rekstrarkostnað sem gengur til að afla þeirra. Hagnaður af slíkum rekstri hjá einstaklingum er skattlagður eins og aðrar launatekjur, eða um 37 – 46% og fer skattlagningin eftir heildarlaunatekjum viðkomandi einstaklings.

Einnig er rétt að hafa í huga að útleiga hótel- og gistiherbergja, svo og önnur gistiþjónusta, telst virðisaukaskattsskyld þegar leigt er til skemmri tíma en eins mánaðar. Slík þjónusta verður virðisaukaskattsskyld í lægra þrepi virðisaukaskatts, 11%, þegar tekjur á 12 mánaða tímabili ná 1.000.000 króna.

Í þessu sambandi má einnig hafa í huga að þar sem útleiga húsnæðis til ferðamanna telst vera atvinnurekstur þá er húsnæði það sem notað er atvinnuhúsnæði. Af því leiðir að sveitarfélögum er heimilt að miða álagningu fasteignagjalda við atvinnuhúsnæði. Fasteignagjöld geta því þrefaldast á viðkomandi húsnæði. Fram hefur komið í fréttum að sveitarfélög eru hvött til að huga að þessum tekjustofni og hækka fasteignagjöld á húsnæði sem leigt er út til ferðamanna. Fullyrt hefur verið að sveitarfélög séu ekki að fá sanngjarna hlutdeild í þeim miklu tekjum af ferðamönnum sem renna að mestu til ríkisins. Framangreind hækkun fasteignagjalda er einföld leið til að rétta hlut sveitarfélaga að einhverju marki.

Þegar litið er til framangreindra skattareglna er ljóst að það er ekki sjálfgefið að útleiga húsnæðis til ferðamanna sé hagkvæmari kostur en að leigja einstaklingum í langtímaleigu. Vert er að hafa í huga þegar lagt er mat á þessa valkosti að ef ferðamenn geta fundið upplýsingar um gistingu, á netinu eða með öðrum hætti, þá geta skattyfirvöld það einnig.

Hér er hægt að nálgast greinina sem birtist 8. okt. 2015 á Mbl.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 8. okt. 2015
08.10.2015