Skýrslur um samfélagsábyrgð fyrirtækja
Alþjóðlega fjármálakreppan er einn af þeim þáttum sem varð til þess að kröfur hafa aukist á fyrirtæki um að þau vinni á kerfisbundinn hátt að áhrifum sínum á samfélagið og umhverfið og móti stefnu sína í samstarfi við hagsmunaaðila sína. Á alþjóðavettvangi snýst umræðan um þessar mundir ekki lengur um hvort fyrirtæki eigi að huga að samfélagsábyrgð sinni heldur hvaða upplýsingar um samfélagsleg áhrif fyrirtækja eigi að birta og hvernig eigi að miðla þeim. Á síðustu árum hafa orðið ríkari kröfur á gagnsæi í starfsemi fyrirtækja en samkvæmt nýlegri könnun birta 95% af 250 stærstu fyrirtækjum heims skýrslur um samfélagsábyrgð árið 2013 en þau voru örfá árið 2008.
Í nokkrum löndum hefur verið sett löggjöf um samfélagsábyrgð fyrirtækja. Árið 2001 voru sett lög í Frakklandi sem gerðu öllum skráðum fyrirtækjum á markaði skylt að upplýsa hvernig þau vinna að samfélagsábyrgð sinni. Í umróti fjármálakreppunnar var lögunum breytt og taka þau nú til mun fleiri fyrirtækja en áður. Í Danmörku voru sett lög árið 2009 sem krefja 1.100 stærstu fyrirtækin um að fjalla um samfélagsábyrgð í ársskýrslu sinni eða í sérstakri skýrslu um samfélagsábyrgð. Í Svíþjóð, Þýskalandi og Finnlandi er gerð krafa um að ríkisfyrirtæki birti opinberlega skýrslur. Þrátt fyrir að ekki sé lagaleg krafa á einkafyrirtækjum í þessum löndum hafa öll helstu fyrirtækin mótað sér stefnu í samfélagsábyrgð og birta árlega skýrslur um samfélagsábyrgð.
Í huga margra tengist samfélagsábyrgð kostnaði og óþarfa skriffinnsku sem skilar ekki áþreifanlegum árangri. Alþjóðlegar rannsóknir sýna að ávinningurinn er mikill meðal annars á sviði áhættustýringar, nýtingar náttúruauðlinda, vöruþróunar og nýsköpunar. Óumdeilt er að orðspor og samskipti við hagsmunaaðila hefur áhrif á virði fyrirtækja. Með því að leggja áherslu á samfélagsleg gildi hafa fyrirtæki góð áhrif á viðskiptavini, stjórnendur og starfsmenn, birgja, fjárfesta og fjölmiðla sem getur leitt til þess að viðkomandi aðilar verða jákvæðari gagnvart fyrirtækinu og vörum og þjónustu þess og um leið haft jákvæð áhrif á samfélagið og umhverfi.
Skýrslur um samfélagsábyrgð eru orðnar hluti af árlegri upplýsingamiðlun fyrirtækja um heim allan. Þetta hefur leitt til þess að þróaður hefur verið alþjóðlegur staðall um samfélagsábyrgð fyrirtækja og alþjóðleg viðmið fyrir gerð samfélagsskýrslna. GRI-staðallinn er oftast notaður við skýrslugerð um samfélagsábyrgð en einnig eru aðrar leiðir og staðlar sem notaðir eru við gerð samfélagsskýrslna. GRI-staðlinum er ætlað að hjálpa fyrirtækjum að setja sér markmið, mæla árangur og stýra breytingum í átt til sjálfbærari reksturs. Staðallinn leggur áherslu á að skýrslurnar fjalli um það sem mestu máli skiptir fyrir viðkomandi fyrirtæki og hagsmunaaðila þess.
Í nokkrum löndum er lagaskylda að óháður aðili staðfesti upplýsingar sem birtast í samfélagsskýrslum. Árið 2013 voru 40% sjálfbærniskýrslna sem notuðu GRI-staðalinn staðfestar af óháðum aðila. Þetta er gert til að auka traust hagsmunaaðila og tryggja að skýrslugjöfin þjóni raunverulegu hlutverki sínu. Nú er unnið að því að samþætta skýrslugerð (integrated reporting) fyrirtækja þar sem fjallað er um samfélagsábyrgð og fjárhagsupplýsingar í sömu skýrslu. Samþættar skýrslur eru taldar gefa hagsmunaaðilum betri heildarmynd af stöðu og horfum fyrirtækisins. Nú þegar birtir yfir helmingur alþjóðlegra stórfyrirtækja upplýsingar um samfélagsábyrgð í ársreikningi sínum.
Nokkur íslensk fyrirtæki hafa tekið forystu við að innleiða samfélagsábyrgð í rekstur sinn og birta árlega árangur sinn í samfélagsskýrslu. Fjölmörg önnur fyrirtæki eru byrjuð að huga að þessum málum og má benda á að meðlimir í Festu – miðstöð um samfélagsábyrgð á Íslandi, hefur fjölgað hratt frá stofnun hennar árið 2011 en nú eru meðlimir orðnir um 60 talsins. Íslendingar telja sig vera framsækna þjóð og því kæmi það ekki á óvart ef sjálfbærniskýrslur fyrirtækja yrði fljótlega regla frekar en undantekning í íslensku viðskiptalífi.