Fjármálafyrirtæki þekkja vel kostnaðinn sem fylgir því að fara gegn settum reglum en gríðarlegar fjárhæðir hafa verið greiddar vegna sátta í málum fjármálafyrirtækja.

Sviksemi og spilling – auðvelda leiðin til vaxtar?

Sveinn Rafn Eiðsson löggiltur endurskoðandi hjá Ernst & Young ehf.

Fyrirtæki standa frammi fyrir sífellt flóknara viðskiptaumhverfi og harðnandi samkeppni, en samhliða hafa kröfur um vöxt fyrirtækja aukist. Á tímum efnahagslegs óstöðugleika getur þrautin reynst erfið fyrir stjórnendur fyrirtækja. En eru siðferðilega rangar aðferðir auðvelda leiðin til að auka vöxt undir slíkum kringumstæðum?

Nýverið birti EY niðurstöður könnunar á sviksemi og spillingu á EMEIA-svæðinu, (Evrópa, Mið-Austurlönd, Indland og Afríka) sem beint var til 3.800 starfsmanna stærri fyrirtækja í 38 löndum. Helstu niðurstöður könnunarinnar verða reifaðar í þessari grein.

Áhætta vegna sviksemi og spillingar er útbreidd og enn hafa fyrirtæki ekki náð að lágmarka þessa áhættu á áhrifaríkan hátt:

• Meira en helmingur svarenda könnunarinnar telur að mútur og spilling séu útbreidd í þeirra landi. Þrátt fyrir þetta segja 42% svarenda að það séu ekki til staðar eða vita ekki til þess að það séu til staðar verklagsreglur sem eiga að koma í veg fyrir mútur á þeirra vinnustað.
• 37% svarenda eru þeirra skoðunar að fjárhagsframmistaða fyrirtækja á þeirra markaði sé ofmetin. Einnig telja um 20% svarenda að stjórnendateymi fyrirtækja skilji ekki viðskipta-umhverfið sem þau starfa í nægjanlega vel.

Mútur og önnur sviksemi uppgötvast oftast fyrir tilstilli ábendinga frá þriðja aðila. Þrátt fyrir það segir tæplega fjórðungur svarenda að ekki séu til staðar leiðir til að tilkynna sviksemi innan fyrirtækja þeirra.

Að því sögðu verður að teljast líklegt að fyrirtæki séu að stunda viðskipti við aðila sem ekki hafa nægjanlega sterkt eftirlitsumhverfi til að mæta áhættunni á sviksemi eða spillingu með beinum eða óbeinum hætti og kann það að vera áhættusamt. Kröfur um stöðugan vöxt og ný tækifæri til að auka arðsemi leiða til þess að stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja leita áhættusamari og einfaldari leiða sem kunna að koma niður á siðferðisgildum þeirra.

Undanfarin misseri hefur verið mikið verið rætt um spillingu og sviksemi innan fjármálageirans, bæði í Evrópu og Ameríku (s.s. Libor málið). Fjármála-fyrirtæki þekkja vel kostnaðinn sem fylgir því að fara gegn settum reglum en gríðarlegar fjárhæðir hafa
verið greiddar vegna sátta í málum fjármálafyrirtækja. Könnun EY bendir til þess að fjármálafyrirtæki eru að bregðast við. Auknum fjármunum hefur verið varið til uppbyggingar á regluverki og er það að hafa jákvæð áhrif. Allt bendir til þess að fjármálafyrirtæki séu að innleiða verklagsreglur, sérstaklega sniðnar að mútum og spillingu.

Viðhorf og hegðun (e. tone at the top) æðstu stjórnenda er mest afgerandi þátturinn þegar breytingar á fyrirtækjamenningu og siðferði eru gerðar. Það hefur verið í umræðunni að viðhorf og hegðun millistjórnenda sé það sem mestu máli skiptir en stjórnendur þurfa að leggja sitt af mörkum. Niðurstöður EY sýna að æðstu stjórnendur ofmeta áhrifin sem þeir telja sig vera að senda innan fyrirtækja, þ.e. áhrif þeirra eru ekki eins sterk og þeir vilja halda.

Heilt yfir benda niðurstöður EY til þess að heilbrigðir viðskiptahættir og hátt siðferðisgildi haldist í hendur við tekjuvöxt. Fyrirtæki sem aukið hafa vöxt í tekjum undanfarin tvö ár eru líklegri til þess að teljast með góð siðferðisgildi að mati starfsmanna sinna heldur en ekki. Þetta segir okkar að góðir viðskiptahættir eru ekki hindranir gegn vexti eða byrði gegn aukinni velgengni. Að mati EY eru góðir viðskiptahættir grunnur að viðvarandi árangri fyrirtækja til lengri tíma litið.

Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 11. júní 2015 bls. 12.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 11. júní 2015
11.06.2015