Þróun endurskoðunar
Í sífellt flóknara viðskiptaumhverfi þarf hefðbundin endurskoðun að breytast til að ná að fylgja eftir þeirri þróun sem á sér stað.
Þörfin fyrir endurskoðun hefur aldrei verið meiri og þar leika endurskoðendur stórt samfélagslegt hlutverk. Þeirra hlutverk er að mæta þörf fjárfesta fyrir áreiðanlegar upplýsingar um bæði stjórnarhætti fyrirtækja og fjárhagsupplýsingar. Þessi þörf leiðir til þess að endurskoðunarstarfsstéttin þarf að bjóða upp á fjölbreyttari þjónustu til að mæta þörfum markaðsins en ekki eingöngu einblína á fjárhagsupplýsingar. Endurskoðun á fjárhagsupplýsingum fyrirtækja verður alltaf forgangsatriði hjá endurskoðendum. Samt sem áður þurfa endurskoðendur að eyða meiri tíma í að auka skilning sinn á stjórnarháttum og hegðun fyrirtækjanna til að skilja betur starf stjórnenda og þá mælikvarða sem ná út fyrir reikningsskilastaðla.
Það eru nokkur atriði sem hafa áhrif á þróun endurskoðunar og störf endurskoðandans, sem dæmi má nefna nýjan ISA-staðal, rauntímaendurskoðun og nýjungar í tækni. Í kjölfar hrunsins þurfti að auka traust almennings bæði á háttsemi fjármálafyrirtækja og starfsemi fjármálamarkaðsins. Við uppbyggingu trausts þarf að vera skýrt hvar hin raunverulega áhætta er. Í dag hefur Alþjóðlega staðlaráðið (IAASB) brugðist við þessari kröfu og gefið út nýjan staðal, ISA 700-áritun endurskoðanda, sem hefur nú þegar verið notaður í Bretlandi og Hollandi. Þessi nýi staðall verður til þess að endurskoðandinn þarf að veita upplýsingar sem gefa frekari innsýn í áherslur og umfang hans í endurskoðuninni og hvaða áhættuatriði hann hefur komið auga á.
Talið er að rauntímaendurskoðun muni leika veigamikið hlutverk í framtíðarendurskoðun. Þetta felur í sér notkun forrita sem keyrð eru samhliða fjárhagskerfum fyrirtækja og geta komið auga á frávik, greint mynstur í fjárhæðum og prófað eftirlitsaðgerðir. Í framtíðinni þurfa endurskoðendur að vera í þeirri stöðu að þeir hafi meiri innsýn í þær lykilupplýsingar sem stjórnendur gefa frá sér, þau gögn sem markaðurinn notar.
Tæknin leikur lykilhlutverk í að endurskapa endurskoðunarferlið. Þetta er mikilvægt fyrir bæði stór og lítil fyrirtæki, sem þurfa öll að berjast við sömu lykilatriðin eins og t.d. sviksemi. Gömlu úrtaksaðferðinni sem hefur verið hjartað í endurskoðun í áratugi er nú ögrað af greiningum. Greiningarnar gera endurskoðendum kleift að greina milljónir færslna á stuttum tíma og myndræn forrit sem geta meðtekið gífurlegt magn af gögnum gera upplýsingarnar auðlesanlegar fyrir bæði endurskoðandann og viðskiptavininn. Þetta gerir endurskoðendum betur kleift að koma auga á sviksemi og rekstraráhættu félagsins. Endurskoðendur geta því hannað endurskoðunaraðgerðir sínar og unnið endurskoðun sína með þeim hætti að hún dragi fram þau atriði sem mestu máli skipta. Í stað þess að beita úrtaksaðferðum á tekjur geta endurskoðendur til dæmis skoðað allar tekjufærslur og mótbókanir til að koma auga á ósamræmi í færslum fyrir allt fyrirtækið eða frávik hjá einstaka viðskiptavinum. Þetta auðveldar endurskoðandanum einnig að koma auga á færslur sem falla út fyrir viðmið og kalla á frekari skoðun og prófanir.
Með aukinni innsýn og rauntímaendurskoðun verður endurskoðunarferillinn mun framsýnni með áherslu á að koma auga á framtíðaráhættu. Þetta kemur heim og saman við þá þróun sem á sér stað á markaðnum, þar sem endurskoðun og eftirlitsaðilum er umhugað um hegðun frekar en að einblína eingöngu á fjárhæðir. Þróun á starfsemi endurskoðandans er því mikilvæg til að geta mætt þörfum hluthafa og endurbyggja og viðhalda trausti á virkni fjármálamarkaða. Allt þetta hvetur endurskoðendur til þess að vera gangsærri í störfum sínum og nýja ISA 700-staðlinum er einmitt ætlað að knýja á um nákvæmari áritun. Þegar þessar breytingar hafa náð fótfestu, sem mun taka tíma, munum við sjá fjölbreyttari og ítarlegri upplýsingar í áritun endurskoðanda sem ætti að verða til hagsbóta fyrir alla.