Útboð á endurskoðunarþjónustu
Um endurskoðendur og störf þeirra er sífellt verið að setja strangari og ítarlegri reglur. Það nýjasta í þessu sambandi eru nýlegar reglur Evrópusambandsins varðandi starfstíma endurskoðenda og takmarkanir á hvaða þjónustu aðra en endurskoðun þeir geta veitt einingum tengdum almannahagsmunum, en þessar reglur munu taka gildi innan evrópska efnahagssvæðisins innan fárra ára. Ljóst er að í kjölfar þeirra mun útboðum á endurskoðunarþjónustu fjölga verulega frá því sem verið hefur hjá þeim fyrirtækjum sem undir reglurnar falla, en mikill fjöldi slíkra fyrirtækja innan evrópusambandsins mun innan fárra ára þurfa að slíta áratugalöngum tengslum við endurskoðendur sína og velja sér nýja.
Gagnvart endurskoðendum hefur því ein af afleiðingum bankahrunsins verið gjörbreytt landslag þegar kemur að starfstíma og ráðningu endurskoðenda. Annars vegar kemur þar til bein lagasetning eins og í tilfelli fjármálafyrirtækja sem þurfa að skipta um endurskoðendur á 5 ára fresti, en einnig og ekki síður breytt viðhorf sem hefur haft það í för með sér að skipti á endurskoðendum og útboð á þjónustu endurskoðenda eru orðin mun algengari en áður var. Allskonar fyrirtæki eru farin að biðja endurskoðendur um að gera tilboð í þá þjónustu sem þeir veita, bæði opinberir aðilar sem og einkaaðilar af öllum stærðum og gerðum.
Gagnvart opinberum aðilum gilda reglur um opinber innkaup sbr. lög nr. 84/2007 en gagnvart öðrum aðilum gilda lög nr. 65/1993 um framkvæmd útboða. Engar sérreglur gilda um framkvæmd útboða á endurskoðunarþjónustu, en þó verður að hafa í huga að í flestum félögum er það þannig að aðalfundur hefur ákvörðunarvaldið yfir því hver er kjörinn endurskoðandi og útboð á vegum stjórnar taka ekki það vald af þeim sem hafa atkvæðarétt á aðalfundi að kjósa endurskoðendur.
Hvað felst svo í þessum leikreglum? Lög nr. 65/1993 eru ekki löng lög, í lögunum er einungis 21 grein og lögin komast fyrir á einni blaðsíðu þegar þau eru prentuð út. Leikreglurnar sem lögin setja eru mjög einfaldar. Þannig kveða lögin á um lágmarks gagnsæi þegar þau gera ráð fyrir að öll tilboð séu opnuð á sama tíma í viðurvist bjóðenda. Í lokuðum útboðum (eins og nær undantekningarlaust útboð einkaaðila á endurskoðunarþjónustu eru) ber kaupanda að taka hagstæðasta tilboði og sé hagstæðasta tilboð ekki það sama og það lægsta ber kaupanda að senda þeim sem áttu lægra tilboð rökstuðning fyrir því af hverju hærra tilboð en þeirra var metið hagstæðara. Í sem allra stystu máli sagt felst löglegt útboðsferli í því að gera boð um tilboð, opna innsend tilboð í viðurvist allra bjóðenda og tilkynna svo um niðurstöðuna.
Út frá sjónarhóli endurskoðenda er reynslan af öllum þeim útboðum sem hafa átt sér stað mjög misjöfn. Minnihluti þeirra sem ekki falla undir reglur um opinber innkaup virðist telja sig þurfa að hafa hliðsjón af þeim leikreglum sem finna má í lögum nr. 65/1993 um útboð. Þannig telst það til undantekninga að tilboð séu opnuð í viðurvist bjóðenda eða bjóðendur upplýstir á annan hátt um það hverjir tóku þátt og hvað hver bauð. Oft ber tilkynning um niðurstöðu aðeins það með sér hver vann útboðið en sjaldan upplýsingar um hvað réð valinu. Sumir virðast líta svo á að með því að kalla þetta eitthvað annað (t.d. óformlega verðkönnun) og standa öðru vísi að þessu þá séu lögin einfaldlega ekki lengur viðeigandi, enn aðrir virðast bara ekki vera meðvitaðir um tilvist þessara laga. Í þessu sambandi sker enginn hópur kaupenda endurskoðunarþjónustu sig frá öðrum.
Í júlí 2013 gaf Félag löggiltra endurskoðenda (FLE) út vegvísi um útboð á endurskoðunarþjónustu, en í ljósi fyrirspurna til félagsins sem og þeirra útboða sem áttu sér stað á fyrstu árunum eftir hrun þótti ljóst að veruleg þörf væri á leiðbeiningum og fyrirmyndum til að stuðla að meiri fagmennsku í útboðum á endurskoðunarþjónustu. Bækling þennan má nálgast á skrifstofu FLE auk þess sem hann er aðgengilegur hér á heimasíðu félagsins (www.fle.is). Vill ég hvetja alla sem fá það verkefni að framkvæma útboð á endurskoðunarþjónustu til að kynna sér efni þessa vegvísis.