Vægari kröfur til smáfyrirtækja í nýrri tilskipun ESB
Samkvæmt núgildandi lögum um ársreikninga eiga þau meðal annars við um öll hlutafélög, einkahlutafélög, samlagshlutafélög og samvinnufélög sem og sameignarfélög ef félögin eru í eigu framangreindra félaga eða ef þau fara yfir stærðarmörk eigna, veltu og ársverka sem tiltekin eru í 2. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna án tillits til eignaraðildar.
Í ársreikningalögum eru síðan gerðar ítarlegri kröfur til stærri félaga, þ.e. félaga sem eru yfir tvennum af þeim stærðarmörkum sem skilgreind eru í 2. tölul. 1. mgr. 1 gr. tvö næstliðin reikningsár en stærðarmörkin eru eftirfarandi:
- Eignir nema 300 milljónum króna
- Rekstrartekjur nema 600 milljónum króna
- Fjöldi ársverka á reikningsári er 50
Kröfur um gerð og innihald ársreikninga eru því þær sömu hjá fyrirtæki sem er með 500 milljónir króna í tekjur og fyrirtæki sem er með 25 milljónir króna í tekjur.
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/34/EB um ársreikninga, samstæðureikninga o.fl., sem gefin var út í júní 2013 og innleiða á í löggjöf aðildarríkja Evrópusambandsins fyrir 20. júlí 2015 og varðar ársreikninga fjárhagsára frá og með 1. janúar 2016, gæti þó leitt til breytinga á þessum viðmiðunum í íslenskri löggjöf. Tillögur að breytingum lúta að því að tilgreind verði sérstök viðmið og kröfur fyrir smáfyrirtæki (e. micro undertakings) en í tilskipuninni, sem sett er til breytingar á eldri tilskipun, eru nú í fyrsta sinn tilgreind stærðarmörk fyrir smáfyrirtæki.
Stærðarmörkin sem um ræðir fela í sér að fyrirtæki þurfi að falla undir tvö af eftirfarandi þremur skilyrðum tvö ár í röð til að teljast smáfyrirtæki:
- Eignir nemi ekki meira en 55 milljónum króna (350.000 evrur),
- Hrein velta fari ekki yfir 110 milljónir króna (700.000 evrur),
- Fjöldi ársverka á reikningsári sé að meðaltali 10 eða færri.
Stór hluti íslenskra fyrirtækja er undir þessu stærðarviðmiði, en þó er augljóslega stærðarmunur á smáfyrirtækjamarkaðinum á Íslandi og hjá milljónaþjóðum Evrópu. Íslensk stjórnvöld geta að einhverju leyti aðlagað stærðarmörkin að aðstæðum á Íslandi en það mun ráðast á næstu misserum hvaða leið íslensk stjórnvöld ákveða að fara í þessum efnum.
Í tilskipuninni greinir frá því að smáfyrirtæki hafi takmarkaða burði til þess að mæta þeim íþyngjandi reglum sem um félögin gilda, þar sem ekki séu fyrir hendi reglur og viðmið sem sérsniðin eru þessum fyrirtækjum og þau hafi af þeim sökum þurft að
fylgja reglum sem einkum eru sniðnar stærri fyrirtækjum.
Í tilskipuninni er því greint frá tillögum að einföldun reikningsskilaaðferða þessara smáfyrirtækja. Tillögurnar snúa meðal annars að því að heimila þessum félögum að útbúa samandregnari og einfaldari rekstrar- og efnahagsreikning auk þess sem opnað er á þann möguleika að færa reikningsskilin að einhverju leyti nær greiðslugrunni. Að færa eignir á gangvirði yrði þá ekki heimilt. Enn fremur er í tillögum tilskipunarinnar fallið frá þeirri kröfu um að smáfyrirtæki semji skýrslu stjórnar sem fylgir með ársreikningi og til viðbótar er fallið frá kröfum um að skýringar skuli fylgja með ársreikningi að því gefnu að greint hafi verið frá tilteknum atriðum, svo sem fjárhagslegum skuldbindingum og ábyrgðum, neðanmáls í efnahagsreikningi. Þá er sett fram tillaga um að smáfyrirtæki þurfi ekki að birta opinberlega allan ársreikning sinn, heldur eingöngu efnahagsreikninginn. Áréttað skal að tillögur tilskipunarinnar um einföldun reikningsskilareglna smáfyrirtækja eru valkvæðar. Löggjafanum verður því í sjálfsvald sett að hve miklu leyti hann innleiðir þessar tillögur að einföldun. Ljóst er þó að stór hluti íslenskra fyrirtækja fellur undir fyrrgreinda skilgreiningu tilskipunarinnar á smáfyrirtækjum og geta viðkomandi félög haft af því talsverða hagsmuni að ofangreindar tillögur að einföldun reikningsskilareglna verði innleiddar í íslensk lög.
Birt í Viðskipta Mogganum fimmtudaginn 29. janúar 2015 bls. 12.