Vangaveltur um Reikningsskilaráð
Árið 1991 var sérstakt reikningsskilaráð sett á laggirnar með breytingum á lögum um bókhald. Ráðinu var ætlað að stuðla að mótun góðrar reikningsskilavenju með útgáfu og kynningu samræmdra reglna, sem farið skyldi eftir við gerð reikningsskila sem og að gefa álit á því hvað teldist til góðrar reikningsskilavenju á hverjum tíma.
Árið 1994 komu svo út lög um ársreikninga og var í þeim að finna vísan til reikningsskilaráðsins. Helsta ástæða þess að reikningsskilaráð var stofnað var sú að það þótti vanta aðila sem hafði vald til þess að setja fram álit um góða reikningsskilavenju þar sem löggjöfin skyldi eftir töluvert svigrúm til túlkunar við gerð reikningsskila. Auknar leiðbeiningar reikningsskilaráðs áttu því að stuðla að meiri samræmingu í reikningshaldslegri meðferð, sem myndi auka notagildi reikningsskila fyrir hagsmunaaðila þeirra.
Reikningsskilaráð var starfandi frá árinu 1991 til ársins 2003 (engar heimildir um starfsemi þess eftir þann tíma fundust við skrifin), en þrátt fyrir það er enn að finna vísun til þess í lögum um ársreikninga frá 17. janúar 2006 (nr. 3/2006) og kemur þar skýrt fram í 118. gr. að ráðherra skuli skipa í það. Samkvæmt 119. gr. er hlutverk reikningsskilaráðs einnig óbreytt frá upphaflegri stofnun þess. Í tíð sinni gaf reikningsskilaráð út fimm leiðbeinandi reglur um reikningshaldslega meðferð og eru þær taldar hér upp í röð: Regla 1 fjallar um grundvöll reikningsskila, regla 2 um birgðir, regla 3 um sjóðstreymi, regla 4 um tekjuskatt og regla 5 um reglulega og óreglulega rekstrarliði.
Í 11. tl. 2. gr. í lögum um ársreikninga eru settar reikningsskilareglur skilgreindar á eftirfarandi hátt: „reglur sem reikningsskilaráð gefur út, sbr. 119. gr., og alþjóðlegir reikningsskilastaðlar, sbr. 12. tölul.“
Í 5. gr. sömu laga er vísað til þess að útbúa skuli ársreikninga í samræmi við lögin, viðeigandi reglugerðir og settar reikningsskilareglur. Hvergi kemur þó fram í lögunum hvort taki hinu fram, reglur reikningsskilaráðs eða alþjóðlegir reikningsskilastaðlar. Alþjóðlegir reikningsskilastaðlar eru í sífelldri þróun og hafa tekið einhverjum breytingum frá útgáfu reglna reikningsskilaráðs. Einmitt og ekki síst vegna þess þá greinir alþjóðlega reikningsskilastaðla á við reglur reikningsskilaráðs um reikningshaldslega meðferð í einhverjum tilfellum. Dæmi um slíkt er að samkvæmt reglu reikningsskilaráðs nr. 2 um birgðir er heimilt að eignfæra gengismun í birgðum. Alþjóðlegur reikningsskilastaðall IAS 2 heimilar það hinsvegar ekki.
Annað dæmi er framsetning óreglulegra rekstrarliða, en samkvæmt reglu reikningsskilaráðs nr. 5 skal sérgreina slíka liði í „kjallara“ rekstrarreiknings. Slík framsetning er hinsvegar ekki heimil samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastaðli IAS 1. Því er óljóst hvort regluverkið eigi að styðjast við þegar þau greinir á hvort við annað. Það er ljóst að nefndarmenn tóku mið af alþjóðlegum reikningsskilareglum við mótun þeirra reglna sem ráðið gaf út, en sökum þess að lítil eða engin starfsemi hefur verið hjá ráðinu síðan 2003, þá hefur enginn samræming átt sér stað við breytingar á alþjóðlegum stöðlum.
Eins og fram kemur hér að ofan þá skipar ráðherra (iðnaðar- og viðskiptaráðherra) reikningsskilaráð, en í því eiga að sitja fimm sérfróðir menn. Félag löggiltra endurskoðanda, samstarfsnefnd háskólastigsins og Viðskiptaráð Íslands tilnefna hvert um sig einn nefndarmann, en ríkisendurskoðandi skipar þann fjórða ásamt því að ráðherra skipar einn nefndarmann án tilnefningar. Þá skipar ráðherra formann úr hópi nefndarmanna.
Reikningsskilaráð hefur ekki starfað svo vitað sé frá árinu 2003 þegar þáverandi formaður ráðsins sagði sig frá því. Ástæðu fyrir uppsögn sinni sagði formaðurinn vera óánægju með stefnu stjórnvalda varðandi endurskoðun á lögum um ársreikninga. Formaðurinn taldi að athugasemdir reikningsskilaráðs þar að lútandi hefðu verið hunsaðar í fjármálaráðuneytinu. Það er bagalegt að allar götur frá því að reikningsskilaráð lagðist í dvala hefur verið vísað til þess í lögum sem reglusetjandi aðila. Það er einnig bagalegt með tilliti til vísunar úr lögum í reglur ráðsins hversu óaðgengileg öll útgáfa ráðsins frá þeim tíma sem það starfaði er í dag. Grundvöllur þess að hlutaðeigandi aðilar geti farið að settum lögum og reglum er að viðkomandi lög og reglur séu þeim aðgengilegar. Höfundar þessarar greinar gátu ekki með góðu móti fundið nema tvær af reglum reikningsskilaráðs á netinu, og hvergi vísan til þess hvar sé hægt að nálgast hinar.
Nýlega voru birt á heimasíðu atvinnuvega– og nýsköpunarráðuneytis drög að frumvarpi að breytingum á lögum um ársreikninga þar sem er að finna samskonar vísun til reikningsskilaráðs og er að finna í núverandi lögum sem og að í fjárlögum 2016 kemur fram að næstu tvö ár verði samtals 10 milljónum varið til reikningsskilaráðs. Það hlýtur því að vera ætlun löggjafans að endurreisa reikningsskilaráð. Eðlilegt er þó að velta fyrir sér hvort ekki væri réttara að leggja það niður og vísa til alþjóðlegra reikningsskilastaðla þegar þær leiðbeiningar sem fram koma í lögunum teljast ekki fullnægjandi. Eins og horfir við í dag virðist það þó ekki vera ætlunin og þó að naumt sé skammtað er ljóst að þeim sem veljast til starfans bíður ærið verkefni.