Alþjóðlega fjármálakreppan og skuldavandræði margra þjóða sem fylgdu í kjölfar hennar hefur sýnt að léleg fjármálastjórn og skortur á gagnsæi hins opinbera getur stefnt í hættu getu ríkja til að standa undir mikilli skuldasöfnun eða mæta lögbundnum útgjöldum til velferðarmála eða öðrum skuldbindingum.

Verulegar breytingar á reikningsskilum ríkisins

Guðmundur Snorrason, löggiltur endurskoðandi og meðeigandi hjá PwC

Alþjóðlega fjármálakreppan og skuldavandræði margra þjóða sem fylgdu í kjölfar hennar hefur sýnt að léleg fjármálastjórn og skortur á gagnsæi hins opinbera getur stefnt í hættu getu ríkja til að standa undir mikilli skuldasöfnun eða mæta lögbundnum útgjöldum til velferðarmála eða öðrum skuldbindingum. Meðal þjóða heims er nú vaxandi skilningur á mikilvægi þess að byggt sé á alþjóðlegum reikningsskilareglum í opinbera geiranum, meðal annars til að tryggja sjálfbærni í ríkisfjármálum.

Almennt er viðurkennt að reikningsskil sem byggð eru á rekstrargrunni hafi mikla yfirburði umfram reikningsskil á greiðslugrunni. Reikningsskil á greiðslugrunni hafa lengst af verið meginreglan við uppgjör ríkissjóða í flestum löndum en þá er miðað við að viðskipti séu færð þegar greiðslur eiga sér stað. Þegar reikningsskil byggjast á rekstrargrunni eins og almennt gerist hjá fyrirtækjum í einkageiranum eru viðskipti og skuldbindingar hins vegar skráð þegar til þeirra er stofnað, óháð því hvenær greiðslur eiga sér stað. Reikningsskil á rekstrargrunni gefa víðtækt yfirlit um eignir og skuldir, fjárhagslega afkomu og fjárstreymi fyrir tiltekið tímabil og endurspegla þannig langtímaáhrif fjármálalegra ákvarðana sem reikningsskil á greiðslugrunni gera ekki.

Í nýlegri úttekt PwC sem náði til ríkissjóða í 120 löndum um allan heim kom í ljós að um það bil helmingur þeirra notast enn við reikningsskil á greiðslugrunni. Víða er þó unnið að endurbótum og innan fimm ára er gert ráð fyrir að sjö af hverjum tíu ríkissjóðum þessara landa hafi þá tekið upp reikningsskil byggð á rekstrargrunni. Í flestum tilvikum er byggt á alþjóðlegum reikningsskilastöðlum fyrir opinbera aðila (IPSAS) sem eiga að stuðla að því að reikningsskil þeirra séu í sem mestu samræmi við og samanburðarhæf við reikningsskil fyrirtækja í einkageiranum. Úttekt PwC sýnir að þótt reikningsskil ríkissjóða í þessum löndum verði innan tíðar almennt byggð á rekstrargrunni þá mun framsetning fjárlaga þeirra í flestum tilvikum verða áfram á greiðslugrunni. Æskilegt væri ef þróunin yrði sú að fjárhagsáætlanir og reikningsskil yrðu byggð á sama grunni til að tryggja skilvirkan samanburð á áætlunum og útkomu.

Í lok síðasta árs samþykkti Alþingi lög um opinber fjármál nr. 123/2015 sem fela í sér verulegar breytingar á reikningsskilum ríkisins. Þar er gert ráð fyrir að reikningsskil A- hluta ríkissjóðs í heild skuli byggjast á reikningsskilastaðli Alþjóðareikningsskilaráðsins fyrir opinbera aðila (IPSAS) en núverandi reikningsskilareglur sem viðhafðar eru við gerð ríkisreiknings eru í ýmsum atriðum frábrugðnar almennt viðurkenndum reikningsskilareglum. Til dæmis er stofnkostnaður varanlegra rekstrarfjármuna gjaldfærður að fullu á kaupári hjá stofnunum A-hluta ríkissjóðs en eignfærður og afskrifaður hjá fyrirtækjum almennt. Þá eru gengismunur og verðbætur langtímaeigna og -skulda ekki færðar í rekstrarreikning heldur beint á eiginfjárreikning. Breyting áfallinna lífeyrisskuldbindinga er heldur ekki færð í rekstur heldur á eigið fé. Áfallið orflof er ekki fært í ríkisreikningi eins og hjá fyrirtækjum almennt. Ef fylgt hefði verið reikningsskilareglum samkvæmt nýsettum lögum um opinber fjármál við uppgjör ársins 2014 hefði afkoma ríkissjóðs orðið rúmlega 29 milljörðum lakari en rekstrarreikningurinn sýndi.

Langveigamesta breytingin á reikningsskilum ríkisins sem nýju lögin fela í sér varðar kaup á varanlegum rekstrarfjármunum sem verða eignfærðir og afskrifaðir í samræmi við líftíma þeirra í stað þess að gjaldfærast að fullu á kaupári. Efnahagsreikningurinn mun því gefa mun raunhæfari mynd af hreinni eignastöðu ríkisins en hingað til.

Lög um opinber fjármál taka gildi 1. janúar 2016. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða I í lögunum munu breytingar á ársreikningum ríkisaðila þó ekki taka gildi fyrr en frá og með árinu 2017. Samkvæmt lögunum verður framsetning fjárlaga samkvæmt alþjóðlegum hagskýrslustaðli, svokölluðum GFS- staðli, og þar með ekki á sama grunni og ríkisreikningurinn. Með nýsamþykktum lögum um opinber fjármál er stigið stórt skref í átt til þess að íslenska ríkið semji reikningsskil sín á hreinum rekstrargrunni og fylgi þannig alþjóðlegri þróun.

Hér finnst greinin á Mbl.

Mbl.is - Viðskiptamogginn, 4. feb. 2016